13.01.1950
Efri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (3338)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Bernharð Stefánsson:

Virðulegi forseti. Mér fannst það óviðeigandi og ómaklegt af hv. þm. Barð., að hann skyldi gera þær árásir, sem hann gerði á Framsfl. Hann hafði ekki þau orð við, að ég sæi ástæðu til þess að víta hann af forsetastóli, en ég get ekki stillt mig um að segja fáein orð um það, sem hv. þm. sagði, en ég get verið stuttorður, þar sem hv. þm. Str. hefur nú gert því glögg skil.

Eitt af því, sem hv. þm. færði hér fram, var það, að Framsfl. bæri ábyrgð á fjármálaástandi ríkisins, þó að Sjálfstfl. hafi bæði átt fjmrh. og form. fjvn. nú undanfarin 11 ár. Eitt var það, að menntmrh. hefði á árunum 1946–47, eftir að stjórnarskipti urðu, gert miklar kröfur um aukin útgjöld til menntamála. En hvernig stóð nú á þessum kröfum? Alþingi var þá nýbúið að setja nýja skólalöggjöf, sem var æði útgjaldafrek, en ekki hafði verið tekið tillit til hennar í fjárlfrv. En það var ekki Framsfl., sem stóð að þessari löggjöf, heldur þeir flokkar, sem þá höfðu farið með stjórn landsins um nokkurt skeið og kallað sig nýsköpunarstjórnina, svo að það er því ekki rétt hjá hv. þm. Og segja svo, eins og hv. þm. Barð., að Framsfl. hafi verið potturinn og pannan í því, að skattar séu látnir verka aftur fyrir sig, er náttúrlega hreinasta firra, því að undanfarin 11 ár hefur Sjálfstfl. átt fjmrh, og form. fjvn., en það er venjulega fjmrh., sem slík frv. leggur fram, eða fær þá nefnd til þess að gera það fyrir sig. Seinast nú eftir áramótin hefur það gleymzt hjá hæstv. fjmrh. að framlengja viss bráðabirgðaákvæði í tollskránni um hækkun á tolli, og var ekki lagt fyrir fyrr en eftir áramót, og svo hafði líka gleymzt að setja inn í frv., að þetta skyldi gilda frá 1. jan. þetta ár, og hér kemur till. frá hæstv. fjmrh. um það, að þetta skuli gilda frá 1. jan., m. ö. o. nokkra daga aftur fyrir sig. Að vísu er það svo, að það ber enginn einn flokkur ábyrgð á fjármálastjórn landsins undanfarin ár, sökum þess að enginn flokkur hefur meiri hl. í þinginu, en vitanlega ber sá flokkur mesta ábyrgð á fjármálastjórninni, sem bæði hefur fjmrh. og form. fjvn. En úr því hv. þm. er að fara út í þetta, mætti kannske minna á það, þó það skipti ekki miklu máli um heildarniðurstöðu fjármálanna í landinu, að hv. þm. Barð. hefur ekki verið meðal þeirra hógværustu þm. um kröfur fyrir sitt kjördæmi, og hefur þessi framganga hans — og kannske fyrir það að hann er form. fjvn. — haft þau áhrif að hvetja aðra þm. til að hækka sínar kröfur, og það hef ég oft heyrt undir meðferð fjárl. undanfarin ár, að vitnað hefur verið til Barðastrandarsýslu um fjárveitingar. Ég þóttist ekki komast hjá því að benda hv. þm. á þetta og láta það álit í ljós, að mér finnst, að svona árásir á flokka í þinginu, hvaða flokkur sem það er, ættu ekki að eiga sér stað út af tiltölulega meinlausum frv., sem ekkert koma heildarafgreiðslu mála við og ekki er hægt að telja til þeirra mála, sem ráða um það, hvernig stórmál eru yfirleitt rekin í landinu né heldur hvernig fjármál ríkisins eru sem heild. Menn ættu að spara sér slíkt, því það eru kannske allir flokkar í glerhúsi að einhverju leyti, en það er áreiðanlegt, a. m. k. í þessu tilfelli, að þeir, sem fara að kasta grjóti, geta aftur fengið grjót inn í sitt glerhús.