07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (3344)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm.. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson); Virðulegi forseti. Þetta nál., á þskj. 383, er að því leyti einkennilegt, að það er frá minni hl. fjhn. Undir það rita tveir nm., en það má samt líta á það sem álit n. eða þess hluta n., sem tók þátt í afgreiðslu málsins. Eins og segir í nál., tók þriðji nm., hv. þm. Seyðf., ekki afstöðu til málsins, en hv. 11. landsk. og hv. 4. þm. Reykv. voru fjarstaddir. Nál. var því samþ. mótatkvæðalaust, en það stendur þó, að það sé frá minni hl., þar sem aðeins tveir nm. rita undir það. Þess vegna tók ég sem forseti málið á dagskrá.

Mönnum er kunnugt efni frv., en það er á þá leið, að ríkið endurgreiði hluta af tolli af tilbúnum timburhúsum, sem inn voru flutt á árunum 1945, 1946 og 1947, þannig að tollurinn verði hinn sami og um óunnið timbur hefði verið að ræða. Eins og ástæður ríkissjóðs eru nú, get ég sagt það, að hefði till. um þetta komið fram fyrst nú, þá hefði ég hiklaust verið á móti henni. En ég hef nokkrum sinnum orðið fyrir því að skrifa upp á víxla fyrir menn, og það hefur stundum gengið vel, en stundum líka illa. Ég hef þá talið það sjálfsagt að greiða umyrðalaust, og eins hygg ég, að muni vera um aðra hv. dm., þótt engum muni þykja þetta þægilegt. Ástæðan til þess, að hv. 1. landsk. og ég mælum með málinu, er sú, að okkur finnst, að hv. Alþ. og stj. hafi skrifað upp á víxil, með því að setja í lög endurgreiðslu á tolli að því er snertir hús, sem flutt voru inn árið 1946. Um þau hús, sem flutt voru inn árið 1947, er það að segja, að þau voru pöntuð árið 1946 og að nokkru í trausti þessarar samþykktar Alþ. Að vísu var hér um heimild fyrir stj. að ræða, og þess vegna gætu þessir aðilar ekki innheimt þetta með málssókn. En almenningur lítur jafnan svo á, að treysta megi slíkum heimildum, og við nm. tveir lítum svo á, að Alþ. geti ekki gengið frá þessari samþykkt sóma síns vegna, heldur verði að standa við hana og ákveða, að tollurinn verði endurgreiddur. Við lítum á þetta sem skuld ríkissjóðs. Ég skal játa, að það er ekki álitlegt að bæta á ríkissjóð nýjum útgjöldum, eins og ástandið er, þótt fram úr kunni að rætast, ef fyrirhugaðar ráðstafanir verða gerðar til að létta af byrðunum. Við mundum fúsir taka til athugunar að heimila stj. lántöku til þessarar endurgreiðslu með tilliti til þess, að við skoðum þetta sem ríkisskuld. Það skal að vísu játað, að það verður ekki sagt um öll þessi hús, að þessi ádráttur hafi verið gefinn. Svo er ekki um þau hús, sem flutt voru inn 1945, en samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er þar bara um þrjú hús að ræða. Það gat verið álitamál, hvort taka ætti þau með, en við sáum ekki ástæðu til að undanskilja þau. — Hv. d. verður svo að ákveða, hvernig hún snýst, við málinu, en við ráðum til þess, að hv. d. samþ. frv. Þótt aðeins sé um heimild að ræða, liggur þó í þeirri heimild mikill ádráttur. Heiðarlegir einstaklingar skoða mikinn ádrátt sem loforð, og hv. Alþ. verður ekki ætlað annað, en að það hagi sér svipað og heiðarlegir einstaklingar mundu gera.