16.03.1950
Efri deild: 74. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (3350)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. fjhn. lýsti hér afstöðu n. til þessa máls á síðasta fundi deildarinnar. En meðferð fjhn. á þessu máli, sem mundi kosta ríkissjóð um 800 þús. kr., ef samþ. yrði, er algert einsdæmi. Og mig furðar enn meira á þessu, að fyrir þessu stendur hv. forseti deildarinnar. Þegar vitað er, hversu réttlátlega hann tekur á málum yfirleitt hér í deildinni, vekur þessi málsmeðferð hans enn meiri undrun. Það var vitað, að mál þetta, ef það yrði samþykkt, mundi draga á eftir sér þann dilk, sem baka mundi ríkissjóði milljóna útgjöld. Þess vegna hefur þessu máli verið vísað frá Alþ. áður, því að það kæmu þá aðrar kröfur á eftir. — En nú hefur hæstv. forseti deildarinnar leyft sér að afgreiða þetta mál á einum fundi í nefndinni, þar sem aðeins eru viðstaddir 2 nefndarmenn; að vísu er þetta Þó kallað minnihlutaálit. — Mál þetta hefur ekki verið rætt við aðila, sem vissulega hefði átt að ræða það við, eins og t. d. fjmrh.

Ég veit ekki, hvers konar málsmeðferð hefur verið viðhöfð hér á þessu máli. Ég er ekki með þessu að ávíta hér beinlínis form. n., heldur hlýtur hér að vera einhver sérstök ástæða fyrir hendi, því að þetta er ekki venja hv. form. n. Hann hefur lýst því yfir, að ef till. kæmi til atkvgr., muni hann greiða atkv. á móti henni. Þetta sannar, að hann er efnislega á móti þessu frv., en jafnframt sannar þetta líka, að hann er knúður til að fylgja þessu máli, þótt hann sé annars á móti því. Nú er þetta einnig gagnstætt venjulegri framkomu hv. þm., og er þetta því enn furðulegra. Hér hlýtur að liggja eitthvað meira á bak við. Það væri gaman að fá að vita, hvaða afl þetta er, sem knýr hv. þm. til að berjast fyrir máli gegn sinni eigin sannfæringu, Hann segir, að það hafi verið sett í lög að endurgreiða toll af tilbúnum timburhúsum, sem flutt hafa verið inn 1946 og 1947, og þess vegna treysti hann sér ekki til að standa á móti þessum endurgreiðslum. Ríkissjóður ætti að standa við sínar skuldbindingar alveg eins og einstaklingar. Þetta er algerlega rangt. Það hefur aldrei verið sett í lög, að ríkissjóður eigi að endurgreiða þennan toll. Hins vegar er það rétt, að ríkissjóði hefur verið veitt heimild með bráðabirgðaákvæðum til þess að endurgreiða þennan toll. Og er nú ekki munur á lögum eða heimild í lögum? Nú er það enn fremur vitað, að þessi heimild í lögum hefur ekki verið notuð, því að viðkomandi ráðh., sem kynnti sér málið betur, fullvissaði sig um, að það væri ekki rétt að endurgreiða tollinn. Nú er það vitanlegt, að á þeim árum var fé til, svo að hægt hefði verið að endurgreiða tollinn, en ráðh. taldi það ósanngjarnt. Hann mun hafa leitað umsagnar tollstjóra o. fl., er bezt gátu um þetta sagt. Hv. frsm. er ljóst, að ríkissjóður þolir ekki að taka á sig þessi útgjöld, og því bætir hann gráu ofan á svart og vill heimila ríkisstj. að taka lán til að endurgreiða tollinn. Þetta hefði mátt segja mér tvisvar, ef ég hefði ekki hlustað á orð hv. frsm. með eigin eyrum. Ég veit ekki, hvaða afl þetta er, sem knýr hv. þm. til að fylgja þessu máli. — Hann segir, að aðalástæðan til þess, að hann fylgi þessu máli, sé, að gefinn hafi verið ádráttur eða loforð til að endurgreiða þennan toll. En þetta er ekki rétt. Það hefur aldrei verið gefinn neinn ádráttur og því síður loforð um að endurgreiða tollinn, heldur hefur það aðeins verið heimilað, veitt heimild til þess í lögum, og á þessu er reginmunur.

Ég vil spyrja hv. 1. þm. Eyf., hvers vegna hann tekur ekki þessa afstöðu í öðrum málum einnig. Hann hefur verið form. fjhn. í mörg ár og haft til meðferðar skattalöggjöf, sem samþykkt hefur verið hér. En hversu oft hefur hann ekki verið með í því að taka til baka loforð, sem gefin hafa verið í skattalögum undanfarinna ára? Oft hefur skattalögunum verið breytt, og þau eru látin verka aftur fyrir sig. Hefur hv. þm. þá ekki reynt að fá þessu breytt? O-nei. Hér skýtur einhverju skökku við. Hann ætlast til, að ríkissjóður geti ekki breytt neinu í sambandi við útgjöld sín. Hann hefur gleymt þessu, að skattalögin fá ekki staðizt frá ári til árs. Þessu er öllu breytt, og það af þeim ástæðum, að þarfir ríkisins krefjast þess. Og hvenær hafa þarfir ríkisins verið einmitt meiri, en nú?

Ég vil upplýsa hv. deild, að í öll þau skipti, sem þetta mál hefur verið hér til meðferðar, hefur legið frammi krafa um það að endurgreiða toll af Svíþjóðarbátunum, og núv. fjmrh. hefur sótt það fast, að hann verði endurgreiddur. Ef þessi till. verður samþ. nú, tel ég einnig rétt að samþykkja að endurgreiða tollinn af Svíþjóðarbátunum. Það má ætla, að þessar tollaendurgreiðslur yrðu þá á 2. millj. kr. Ef þetta mál verður samþ., koma einnig kröfur frá þeim mönnum, sem smíðuðu hér báta innanlands og töpuðu á flutningi timbursins vegna gerræðis ríkisstj., þ. e. a. s., þeir töpuðu vegna þess, að þeim var neitað um innflutning á timbri á þeim tíma, sem þeim var hagkvæmast. Fyrir þessari endurgreiðslu mundi því liggja enn rökfastari krafa.

Þá má enn minna á það, að 1947 hvatti ríkisstj. menn til að salta sinn fisk í því augnamiði að létta á freðfiskmarkaðinum. Það var betra að jafna magninu og hægara að selja saltfiskinn. Ríkisstj. gekkst sem sagt fyrir því að taka upp söltun fisksins. Hún lofaði þá að greiða með ákveðnu verði. Síðan var fiskurinn látinn liggja 1947–48 með þeim árangri, að hann rýrnaði stórlega við geymsluna. Af þessum sökum töpuðu fiskframleiðendur millj. kr. Þess vegna hafa líka fiskframleiðendur krafizt þess að fá þetta tjón bætt upp. Og þetta get ég fallizt á að sé réttmæt krafa. En Alþingi vildi ekki samþ. að greiða neina uppbót, m. a. vegna þess, að þessi mál héngu öll saman, og því ekki hægt að taka eitt út úr og veita þeim aðila uppbót, en öðrum ekki.

Nú skulum við líta hér á 3 atriði, er snerta þetta mál og sérhver þarf að gera sér ljós: 1) geymsla saltfisksins, 2) tollurinn af Svíþjóðarbátunum og 3) smíði bátanna innanlands. Ég álít, að kröfurnar varðandi þessi 3 atriði eigi allar meiri rétt á sér en krafan um endurgreiðslu á tollum timburhúsanna. Ég hygg, að þeir, sem samþykkja þetta frv., gætu ekki staðið sig við að fella aðrar kröfur um hliðstæðar uppbætur, og það m. a. s. uppbætur, sem ég tel, að eigi miklu meiri rétt á sér. Þá er komið að alvarlegustu hlið þessa máls, en hún er sú, að þetta mundi baka ríkissjóði nokkurra milljóna kr. útgjöld. Hv. þm., sem fylgja þessu frv., ættu að gera sér þetta ljóst.

2. minni hl. fjhn. hefur gefið út annað nefndarálit, og virðist það ekki hafa verið rætt á fundi nefndarinnar, heldur virðist það hafa verið samið sérstaklega. E. t. v. mun ég ræða nánar síðar það atriði, að ekki er hægt að taka þetta mál þannig út úr, en neita að taka til greina aðrar uppbætur. Ég vil vænta þess, að hv. alþingismenn sjái nauðsyn þess að fella þetta frv. Hér hafa ekki verið gefin nein loforð frá ríkisins hálfu, sem þurfi að undirstrika með þessari lagasetningu. — Ég greiði atkv. á móti þessu frv., en áskil mér rétt til að bera fram brtt. við 3. umr., ef frv. verður samþ. til 3. umr.