16.03.1950
Efri deild: 74. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (3352)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tala langt mál að þessu sinni. Ræður þeirra hv. þm. Barð. og hv. 11. landsk. þm., frsm. 2. minni hl., skiptast í 2 kafla. Í öðrum kaflanum ræddu þeir um vinnubrögð fjhn., en í hinum um sjálft frv., sem hér liggur fyrir. Hv. þm. Barð. talaði um vinnubrögðin í nefndinni og taldi þau hafa verið með endemum. Ef afgreiðsla þessa frv. er með endemum af hendi fjhn., þá vil ég ekki ganga undir það, að ég eigi þar alla sök. Ég sem formaður n. boðaði fund um málið og það skriflega, afhenti það verði í þinginu, sem kom aftur með tilkynninguna, þar sem staðfest var, að allir nm. höfðu séð fundarboðið og enginn þeirra hafði tilkynnt fjarvist á væntanlegum fundi, nema hv. 11. landsk., sem ekki gat mætt af ástæðum, sem hann nefndi. Hv. þm. Barð. sagði, að málið hefði verið afgr. á fundi, þar sem aðeins 2 nm. hafi verið viðstaddir. Þetta er rangt hjá hv. þm. Málið var rætt á tveim fundum með viku millibili, og það voru ekki 2 mættir, heldur 3, eða löglegur meiri hluti nefndarinnar. Ég get enga ábyrgð tekið á því, þótt þriðji nm. hafi ekki viljað taka afstöðu til málsins, hvorki með né móti. Ég held því, að meðferð þessa máls í fjhn. hafi verið eftir öllum atvikum forsvaranleg. Hv. þm. Barð. hneykslaðist yfir því, sem ég lét uppi við 1. umr. málsins, og sagði, að afstaða mín væri hvergi eins nú, því ég hefði þá verið á móti, en vildi nú samþykkja. Hann virtist vera að grafast eftir því, hvað hefði þvingað mig til slíkrar afstöðu. Því lýsti ég yfir í framsöguræðu minni. Ég er ekki svo kristilega sinnaður maður, að ég taki að mér að greiða skuldir fyrir aðra menn að ástæðulausu, en ef ég skrifa upp á víxil fyrir mann og hann getur ekki greitt hann, þá greiði ég hann umyrðalaust. Mér finnst, að Alþingi hafi í þessu máli skrifað upp á víxil, sem það hafi ekki siðferðislegan rétt til að hlaupa frá. Ég lít svo á, að það sé siðferðisleg skylda Alþingis að standa skil á þeim víxli, engu síður en einstaklinganna. Það er rétt, að í ályktun þingsins fólst ekki skipun, heldur heimild, en ég hygg, að slíkar heimildir í lögum séu almennt skoðaðar sem loforð. Þetta loforð var gefið, og knýr það mig til að mæla með framgangi frv. Alþingi verður að standa við loforð sín. Hv. þm. Barð. talaði um, að ég tæki ekki sömu afstöðu í öðrum málum, sem svipað væri háttað um. Það kannast ég nú ekki við. Ég man t. d. ekki eftir því, að það hafi verið gefið neitt loforð af þingsins hálfu um að endurgreiða toll af Svíþjóðarbátunum, eins og gert var varðandi tollinn af þessum húsum. Nú, hvort Svíþjóðarbátarnir eða annað ætti meiri rétt á því í raun og veru, burtséð frá þessu, er svo annað mál, sem ég ætla ekki að ræða. En mín afstaða til þessa máls byggist á því, að Alþingi hefur gefið ádrátt, sem aðilarnir skoða sem loforð og hafa treyst, ekki sizt vegna þess, að það er, eins og hv. 11 landsk. lýsti, að alþm. óskuðu þess skriflega, að heimildin yrði notuð, og kemur það ekki málinu við, þótt sumir þessara hv. þm. séu nú farnir af þingi. Og þótt till. væri felld, að mig minnir með jöfnum atkv., í Sþ., þá voru margir fjarverandi, og þessar undirskriftir voru einmitt gefnar til áréttingar á þessu. (ÞÞ: Tveim árum seinna.) Það skiptir ekki máli. Þar sem hv. þm. Barð. fór að tala um, að hv. 2. minni hl. hefði ekki haft tækifæri til að ræða málið í n., þá vil ég aðeins skírskota til þess, sem ég hef áður sagt í því sambandi. Þar að auki hefur hv. 11. landsk. viðurkennt í sinni ræðu, að ég hafi verið honum mjög hjálplegur hvað snertir þetta mál.

Þá er það eitt atriði, sem fram hefur komið hjá báðum þessum hv. þm., sem á móti frv. hafa talað, og þó sérstaklega hjá hv. 11. landsk., og það er, að hægt hefði verið að smíða þessi hús í landinu og því hafi verið tekin af mönnum vinna með innflutningi þeirra og því sízt ástæða til þess að veita þeim sérstök hlunnindi, sem þau fluttu inn. En þegar við rennum huganum aftur til þess tíma, man ég ekki betur en þá hafi ekki verið hægt að fá iðnaðarmann af nokkru tagi til nokkurs hlutar. Allir virtust hafa nóg að gera og vera alveg uppteknir. Meðfram þess vegna var því farið að hugsa um innflutning á þessum húsum. Á þeim tíma þurfti ekki fjárfestingarleyfi eins og nú. Það vantaði þá menn til bygginga og allra mögulegra hluta, svo að ég held, að það fái ekki staðizt, að margir hafi verið sviptir atvinnu sinni við þennan innflutning. Einnig má svo minna á, að almenningur var hvattur til þess, með góðu samþ. hæstv. þáv. ríkisstj., að flytja inn þessi hús.

Að ég tók nú til máls, var aðallega til þess að bera af mér sakir sem form. fjhn., en ekki til þess að ræða efni frv.; það býst ég við, að hv. flm. sé fullfær um að gera.