20.03.1950
Efri deild: 79. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (3358)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það fara að verða miklar umr. um þetta mál, a. m. k. milli okkar hv. þm. Barð., annar segir klippt, en hinn skorið, því að það eru sömu atriðin, sem hér ganga hvað eftir annað. Hv. þm. vék enn að meðferð málsins í fjhn. og hafði sitthvað út á vinnubrögðin þar að setja, en segist þó ekki almennt vera að finna að gerðum fjhn., sem ég kann honum þakkir fyrir. Hann taldi óforsvaranlegt, að n. hefði ekki sent málið til umsagnar einhverra annarra aðila. Það er auðvitað sjálfsagt og rétt fyrir n. undir mörgum kringumstæðum að leita sér sem beztra upplýsinga um málin, en ef nm. telja sig geta myndað sér fulla skoðun á máli án hjálpar annarra, þá tel ég, að þeir hafl rétt og skyldu til þess að láta þá skoðun í ljós. Ég get ekki kannazt við það, að öll þessi mál, sem hv. þm. Barð. minntist á í sambandi við þetta mál, heyri á þann veg undir eitt og það sama, að það sé sjálfsagt, að þau fylgist að, eða njóti nákvæmlega sama réttar. Þess vegna vísa ég einnig á bug þeirri aðfinningu hv. þm. Barð., að n. kom ekki með till. viðvíkjandi þeim málum, úr því hún gerði till. viðvíkjandi þessu máli. Þetta frv. er um endurgreiðslu tolla af tilbúnum timburhúsum, og það var ekki ástæða til þess fyrir n. að fara að blanda sér á því stigi í önnur mál, sem alls ekki hefur verið til hennar vísað. Þó að þessi mál hafi verið rædd í samhengi í fjvn., eins og hv. þm. upplýsti, þá á ég ekki sæti í fjvn. og veit ekki svo gjörla, hvað þar kemur fram, en mér hefur þó skilizt, að hún eigi að athuga fjárl. og allt, sem þeim við kemur, en sé ekki nein yfirnefnd þingsins, sem eigi að segja öðrum n. þingsins fyrir verkum. Hann telur, að málið sé afgr. frá n. óupplýst. Ég neita því, þær upplýsingar lágu fyrir í málinu, sem dugðu okkur þeim nm., sem höfum látið álit okkar í ljós um það og gert till. um það. Þungamiðja málsins er þetta, hvort ríkissjóður hafi tekið þarna á sig skuldbindingu eða ekki. Hv. þm. Barð. segir, að ríkissjóður hafi einmitt aldrei upp á þann víxil skrifað, og það var þungamiðjan í hans ræðu, og vitanlega er það alveg rétt, sem hann hélt fram, að lagalega séð mundi ekki vera hægt að innheimta þetta hjá ríkissjóði; ég tók það einmitt fram í framsöguræðu minni í gær. En ég álít, og við tveir nm., sem gefum út eitt nál., að sá mikli ádráttur, sem Alþ. hefur gefið um þetta, væri siðferðislega séð almennt loforð, en það er vitanlega ekki lagalega séð; þess vegna hefði hv. þm. getað sparað sér þann tíma í lögfræði, sem hann hafði hér yfir hv. 8. þm. Reykv.

Ef hv. þm. Barð. lofar mér því sem einstaklingi að greiða mér einhverja fjárhæð, lofar mér því munnlega úti á götu, þegar ekkert vitni er við, þá horfir eins við um þetta. Það er ómögulegt fyrir mig að innheimta það með lögsókn á hendur honum, ef hann neitar því, en ég veit, að hv. þm. Barð. mundi aldref neita því, ef hann lofaði mér ákveðinni fjárhæð, heldur mundi hann standa við það, þó að hann gæti sloppið við þá greiðslu eftir l. Það er alveg sama aðstaðan, sem ríkið er í nú gagnvart þessum mönnum, það er siðferðisleg skuldbinding, og er auðséð á þessu, að hann lítur svo á, að ríkið sé ekki eins bundið siðferðislega í þessum efnum og hann sem einstaklingur eða einhver annar einstaklingur mundi vera:

Þá fór hann að tala um það enn, að það væri brigðmæli af ríkinu, ýmis atvik, sem orðið hefðu í skattamálum, t. d. eins og það, sem gert er nú, að lagður hefði verið allhár eignarskattur á stóreignir eða hærri eignir. Ég veit ekki til, að því hafi nokkurn tíma verið lofað, að skattal. út af fyrir sig gætu ekki breytzt. Það hefur verið svo alltaf síðan skattalög komu, að skattar hafa með ýmsu móti breytzt, og í stjskr. frá 1874 og í þeim stjskr., sem gilt hafa síðan segir, að skattar skuli ákveðnir með l. Þess vegna eru það vitanlega engin brigðmæli af ríkisvaldinu, þó að það leggi á skatta, en það getur aftur á móti verið álitamál, hvað þeir eigi að vera háir. Ég ætla ekki að fara út í þann eignarskatt, sem nýlega er búið að leggja á, hv. þm. veit, að það er gert í sambandi við ráðstafanir, sem eiga að vera til þess að tryggja eignir manna, tryggja afkomu atvinnuveganna og aðrar eigni,r en peninga. Ég get því ekki kannazt við, að ég hafi neitt sérstaklega staðið fyrir því að svíkja gjaldþegna þjóðfélagsins í gegnum skattal., enda veit hann hvað þetta snertir, að þau l. voru samþ. af okkur báðum, hann samþ. það alveg eins og ég.

Það er rétt aths. hjá hv. þm. Barð., að það hefði sennilega verið réttara að segja í upphafi 1. gr., að ríkissjóður skuli endurgreiða þetta, heldur en að segja, að ríkisstjórnin skuli gera það. En það er alveg vitað, að það er ekki átt við ráðh. persónulega, heldur sem ríkisstj., það er ekki hægt með l. að skipa ráðh. sem einstaklingum að greiða stórfé, það væri þá helzt, ef þeir fremdu embættisafglöp, að hægt væri að fá þá dæmda til þess, en það er ekki hægt að ákveða með l., að ráðh. skuli greiða eitthvað og eitthvað. Í þessu tilfelli mundi enginn dómstóll líta öðruvísi á, þó að komizt sé svona að orði, en að ríkissjóður ætti að greiða þetta. Ég geri ráð fyrir, að við 3. umr. verði borin fram brtt. um lagfæringu á þessu orðalagi, en meining okkar nm., sem mæltum með frv., var sú, að sjá fyrst, hvort það á fylgi í d., áður en við bærum fram brtt. við þetta.

Hv. þm. Barð. minntist á atkvgr., sem fór fram á þinginu 1948 út af till. frá hv. 1. þm. N-M. um að árétta það, að þessi tollur yrði endurgreiddur, — að sú till. hefði verið felld með jöfnum atkv. Það sýnir, að það hefur verið nokkuð mikið fylgi fyrir því í Alþ., að það yrði gert, úr því það var fellt með jöfnum atkv. En sumir þeir, sem sögðu nei, skrifuðu síðan á skjal áskorun um að greiða þetta og skýrðu það á þann hátt, að þeim hefði fundizt óþarfi að setja það inn í fjárl., þar sem heimildin hefði verið til í l., og er því ekki hægt að sjá annað en að beinn meiri hl. Alþ. hafi verið til fyrir þessu máli.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, ég ætla ekki að fara frekar út í almennar umr., þó að mér þætti rétt af mér sem form. fjhn. aðeins að minnast á fáein atriði, sem hv. þm. Barð. hefur minnzt á.