20.03.1950
Efri deild: 79. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (3359)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram strax, að ég hefði heldur viljað spara mér að taka til máls nú, ef hæstv. forseti hefði viljað veita umbeðinn frest á umr. til morguns. Ég hefði þá getað komið fram með brtt., sem ég hef í hyggju að bera fram. Ég tel heppilegra, að brtt. komi fram við 2. umr., verði því við komið, heldur en að skjóta þeim inn við 3. umr. Annað er það, að svo mun ástatt, að hæstv. fjmrh. mun enn vera rúmfastur, og mér finnst, þó að ég sé ekki úr hans flokki, þá erum við samt í stjórnarsamvinnu, bæði eðlilegt og sanngjarnt að leita álits hans, áður en slíkt stórmál, sem getur skipt milljónum, verður samþ. Mér finnst það því nokkur ofrausn hjá okkur hér í d. að afgreiða þetta mál, þó að ekki sé nema við 2. umr., án þess að ræða við hæstv. ráðh., enda veit ég, að hæstv. forseti er svo sanngjarn og vill ekki bera rétt annarra fyrir borð, og ég velt, að hann muni vilja gefa frest til morguns. Þá ætti að vera hægt að vera búið að fá að vita álít hæstv. fjmrh., og væri þá auðveldara að greiða atkv. um málið, en nú er.

Hv. frsm. 1. minni hl. er vanur að vera mjög rökvís, og ég hygg, að svo sé ennþá, en hann talaði um, að þm. hefðu skrifað undir þetta og yrðu því að greiða atkv. með frv., en að taka þessu svo hátíðlega er fjarri öllu lagi. Ég held, að þessi loforð séu svo til komin, að komið hafi verið til þm. utan þings og þeir beðnir að skrifa undir þetta og þeir svo gert það af vorkunnsemi við þá, sem hafa byggt; en nú getur viðhorfið verið breytt. Nú er þessum málum svo háttað, að þeir, sem eiga húsin nú, hafa grætt mest. Ég vildi biðja hv. 4. þm. Reykv. að útvega mér eitt þessara húsa fyrir kostnaðarverð, og væri mér það mikil þökk, ef ég gæti klófest eitt þeirra á kostnaðarverði. En söluverð þessara húsa er nú langt yfir kostnaðarverði og hefur verið það lengi. Þeir, sem selt hafa hús sín, hafa því orðið verst úti, en samkvæmt frv. eiga þeir ekkert að fá.

Hv. 1. þm. Eyf. minntist á það, að ekki hefði verið hægt að fá smiði. Ég held satt að segja, að engin þurrð hafi verið á þeim, eða svo var a. m. k. ekki í sveitunum á þeim smíðum, sem nefndir eru gervismiðir, og ég hygg, að hægt hefði verið að fá þá hingað. Hvað viðvíkur miðstöðvum koma þær ekki til greina, því að þær þarf að setja upp í húsum, hvort sem þau eru sænsk eða ekki, en hvað viðkemur ofnum, þá mun hafa verið vont að fá þá.

Hv. 8. þm. Reykv. minntist á, að lánskjör hefðu verið léleg, en ég held satt að segja, að fáir hafi haft þau betri, og voru það yfirleitt 4% lán, sem þeir fengu hjá bönkunum. En ég get skilið þetta, og það er ekki nema mannlegt að vilja hjálpa öðrum og ekki sízt þegar ekki er tekið úr manns eigin vasa, heldur úr ríkissjóði. En það, sem felst í till. hv. 1. þm. N-M., sýnir vilja þingsins í þessum efnum, en hún var á þá lund, að þetta skyldi greiða, ef álitið væri, að ríkissjóður hefði efni á því, en sú till. kom fram snemma á árinu 1948. Og hafi verið efazt um getu ríkissjóðs í þessum efnum 1948, hvað mætti þá segja nú, 1950? Og ég held, að það hefðu runnið tvær grímur á hv. 1. þm. N-M. að greiða þessu atkvæði nú, úr því að hann var þessarar skoðunar 1948. Ég vil því láta athuga þetta vel, áður en þessi viðbótarbaggi er lagður á gömlu Skjónu, og held ég, að hún eigi fullerfitt með það, sem hún nú hefur. Ég tel því rétt og sanngjarnt að fresta nú umr., og veit ég, að hæstv. forseti muni gera það, og vænti þess, að það muni fremur verða til þess að flýta málinu en hitt.