10.01.1950
Neðri deild: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. flutti hér smágamanþátt um kjöt, í tilefni af þeirri till., sem ég og hv. þm. Snæf. fluttum hér og var samþ. Sá galli var á, að þetta var byggt á misskilningi, og ég geri ráð fyrir, að ef hv. 2. þm. Reykv. hefði hugsað nánar um málið, þá hefði hann komizt að þeirri niðurstöðu, að það er ekki óeðlilegt, að till. akkar sé svona orðuð, vegna þess að þetta snertir eingöngu vöru, sem þegar er búið að framleiða og er komin á markaðinn, þ.e.a.s. kjötið frá síðasta hausti. Það veit hv. 2. þm. Reykv. sjálfsagt jafnvel og ég, að sá er háttur hér á landi, að sauðfé er slátrað að haustinu en ekki á vetrarvertíð, og því gildir annað um þessa vöru en fisk, sem dreginn er úr sjó hér við Faxaflóa og annars staðar. Nú er það þannig, að bátaútvegurinn naut ríkisábyrgðar allt árið 1949, og er þá ekki óeðlilegt, að það sama gildi um það kjöt, sem kom á markaðinn á því ári. Annars eru, eins og áður er tekið fram, litlar eða jafnvel engar líkur fyrir því, að til ábyrgðarinnar þurfi að gripa, en við töldum það rétt, flm., úr því að þetta var í l. síðasta árs, að tilsvarandi ákvæði væri sett inn nú, þó að það yrði ekki til þess að baka ríkissjóði nein aukaútgjöld.

Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði um mína till. um verðábyrgð á lýsi, og þegar hann gat þess, að þetta mundi vera annað en það, sem útgerðarmenn óskuðu eftir í þessu efni, þá er mér víst óhætt að fullyrða, að meðal þeirra eru skiptar skoðanir um þetta, því að þeir útgerðarmenn munu vera til, sem telja það öruggara, að þeir njóti þessarar verðuppbótar, ef til hennar kemur, ef það er framkvæmt á þann hátt, sem lagt er til í minni till., heldur en ef frílistaaðferðin er viðhöfð, og vilja þeir þess vegna og hafa óskað eftir, að sett væri inn í frv. slíkt ákvæði um verðtryggingu á lýsi. En um þetta eru sem sagt skiptar skoðanir, og ég tel þessa aðferð eina koma til greina, en hitt vera alveg óviðunandi fyrirkomulag, að ríkisstj. geti, hvað snertir þessar vörur eða aðrar, lagt á tolla eða sérstaka álagningu eða breytt gengi gjaldeyris, sem fyrir þær fæst, án þess að Alþ. hafi nokkuð um það að segja.