20.03.1950
Efri deild: 79. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (3360)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég get tekið undir það, sem hv. frsm. 1. minni hl. sagði, að mikið sé orðið um endurtekningar í sambandi við þetta mál, en ég kemst ekki hjá því að segja nokkur orð, en skal verða stuttorð. Ég get sett þetta einfalt fram. Það, sem hér um ræðir, er ekki það, hvort hægt sé að nota 800 þús. kr. til eins eða annars, heldur hitt, að þegar ríkisstj. hefur verið heimilað að greiða fé úr ríkissjóði, hvort það sé loforð eða ekki loforð og hvort taka beri það sem loforð heiðarlegs manns. Þetta er aðalatriðið, en ekki hitt, hvort hægt sé að nota peningana til einhvers annars eða hvort þeir, sem hér eiga hlut að máli, séu fátækir eða ekki. Ég veit ekki, hvaðan hv. 11. landsk. hafa komið upplýsingar um hin hagstæðu lánskjör, sem þessir menn hafa (ÞÞ: Frá bönkunum.), en ég veit það af tilviljun, að þeir hafa orðið að sæta bráðabirgðalánum, og húsin, sem áttu að kosta 110 þús. kr., hafa kostað 270 þús. Ég veit, að þessir menn, sem hér eiga hlut að máli, hafa lagt mjög hart að sér til að koma þessum húsum upp og eru því alls góðs maklegir, en þessi upphæð gæti orðið þeim að miklu gagni. En það, sem er aðalatriðið hér, er það, hvort Alþ. ætlar að standa við það, sem það samþ. 6. maí 1946, eða ekki. Í sambandi við þá dagsetningu og það, sem hv. þm. Barð. sagði, vil ég taka fram, að fyrir þann tíma var aðeins 1 hús flutt inn, en svo 5 hús í maí, og svo ekki aftur fyrr en í sept. 16 hús. Það, að svo langur tími líður þarna á milli, bendir til þess, að samþykkt Alþ. í maí hafi orðið mönnum hvatning í þessum efnum, og vil ég fullyrða, að svo hafi verið.

Hvað viðvíkur 2. gr., þá hygg ég, að menn reki minni til þess, að við 1. umr. bað ég hv. fjhn. að athuga, hvort hún uppfyllti ekki það, sem fólst í bréfi tollstjóra, að fjárhæð þessi lendi ekki hjá milliliðum, ef endurgreiðslan verður samþ. Ég held, að þegar húsin voru seld, hafi mátt leggja á áfallinn kostnað, og hafa því þessir tollar að sjálfsögðu lent á kaupendunum, og tel ég því, að verði þetta endurgreitt, þá sé nauðsynlegt, að það komi á réttan stað. Ég vil undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að þessir tollar á þessu efni eru settir sem verndartollar fyrir ísl. smiði, en þegar þetta var flutt inn, komu engin mótmæli frá þessum aðilum, þar sem þeir höfðu meira en nóg að gera, en undir þessum skala var einnig flutt inn mikið af öðru efni, sem ekki átti að vera þar, og það voru rangindin. En þegar þessi heimild var samþ. hér á Alþ., var gert ráð fyrir því, að verndartollanna yrði síðar þörf, svo að tollalögunum var ekki breytt, en í þess stað gefin þessi heimild. Ég var ekki á Alþ., þegar brtt. hv. 1. þm. N-M. var hér til umr., og veit ekki heldur, hvað rætt var í fjvn. um tengsl þessa máls við önnur mál, en það var rétt hjá hv. þm. Barð., að till. var felld með jöfnum atkv., 22:22 atkv., en 5 sátu hjá, og af þeim, sem greiddu atkv. gegn till., segir einn þm., Gunnar Thoroddsen, við nafnakall: „Ég tel, að heimildin til að endurgreiða tollinn sé í lögum og sýnist því till. óþörf og segi nei.“ Og er hann því raunar með till. Annar þm., Sigurður Kristjánsson, segir við nafnakall: „Ég hef alltaf litið svo á, að þegar Alþ. veitir ríkisstj. heimild, þá sé aðeins um kurteislegt form á fyrirmælum að ræða. Ég lít svo á, að endurgreiðslan styðjist við lög, og er með þessari brtt. stefnt til þess, að vilji Alþ. komi fram, og segi því já.“ Tölurnar 22:22 segja því ekki mikið um vilja Alþ. í þessum efnum, þar sem Sigurður Kristjánsson segir já á sömu forsendum og Gunnar Thoroddsen segir nei. — Ég læt þetta svo útrætt, en tel, að Alþ. beri siðferðislega ábyrgð til að samþ. frv.