18.04.1950
Efri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (3367)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil, af því að það er búið að prenta umræðupart þingtíðindanna fyrir 1946, lofa hv. þm. Vestm. og öðrum að rifja upp það, sem þá gerðist. Málið er búið að fara gegnum Ed. og komið úr n. í Nd., búið að fara í gegnum 1. umr. og komið langt á 2. Þá kveður Sigurður Thoroddsen sér hljóðs og leggur fram skrifl. brtt. að heimila ríkisstj. að endurgreiða toll af þeim innfluttu tilbúnum húsum, sem flutt verði inn á árinu 1946. Þetta stendur í B-deild þingtíðindanna, 1710. bls. Finnur Jónsson, sem flutti þetta frv., kemur þá fram og segir, að nauðsynlegt sé að greiða fyrir innflutningi þessara húsa og nauðsynlegt að gefa eftir tollinn af þeim, ef þau reynist heppileg fyrir loftslag á Íslandi. Hann vill skipa n., sem rannsaki það. Ég geri svo brtt. við þetta um það, að aftan við þessa till. STh bætist „að svo miklu leyti sem tollur á húsunum er hærri en efnið óunnið.“ Svo eru greidd atkv. um þetta. Þá eru ýmsir, sem gera grein fyrir atkv. sínu við nafnakall. Hv. þm. Vestm. segist vera á móti minni brtt. Hann segir: „Ég er á móti aðaltill. Mér finnst þessi brtt. draga úr henni og greiði henni því atkv. til bráðabirgða og segi já.“ Pétur Ottesen segist vera með aðaltill., en þar sem brtt. dragi úr henni, segi hann nei. Sigurður E. Hlíðar segist vera á móti till. og segja nei. Stefán Jóh. Stefánsson segir já með skírskotun til yfirlýsingar hv. þm. Vestm. Emil Jónsson er á móti og segir nei. Eysteinn Jónsson segir nei, af því að hann telur rétt, að þessi sænsku hús verði tollfrjáls með öllu. Garðar Þorsteinsson segir já með sömu forsendum og hv. þm. Vestm. Svo er till. samþ. og aðaltill. samþ. svo breytt með svo að segja öllum atkv.

Það skilyrði, sem hv. þm. Vestm. er nú að tala um, að hafi verið sett undir umr. um málið, kom að vísu fram hjá hæstv. félmrh. (FJ) í því formi, að hann taldi, að það ætti að gefa tollinn eftir, ef húsin reyndust heppileg í „íslenzku loftslagi“, að dómi nefndar, sem fela ætti að athuga það, og vill hann helzt ekki láta till. koma fram af þeim ástæðum, en leggja það á vald rn. að fengnu áliti nefndarinnar að gefa tollinn eftir. En þegar till. er komin fram, telur hann rétt að gefa tollinn eftir, ef húsin séu hentug fyrir loftslag hér. Hann greiðir svo till. atkv. (JJós: Var ekki skipuð n.?) N. komst að því, að húsin hentuðu loftslagi hér, en væru dýrari en steypt hús Hæstv. ráðh. segir, að af því að húsin hafi veríð dýrari, hafi tollurinn ekki verið gefinn eftir, en hvernig hann réttlætir það, skil ég aldrei. Það var allt í lagi með húsin, þau stóðust prýðilega loftslag hér, en þau voru dýrari en steinhús. Ríkisstj. bannaði ekki innflutninginn, hún vildi láta halda áfram að flytja þau inn til að bæta úr húsnæðisvandræðunum, en neitaði að gefa eftir tollinn. Ég skil ekki á nokkurn hátt framkomu hæstv. stj. í því máli. Ég skil vel, að hún vilji spara ríkissjóði fé. Það er eðlilegt og sjálfsagt. En þegar húsin reynast dýrari, en steypt hús, en boðleg fyrir loftslagið, þá átti að vera sérstök ástæða til að gefa eftir tollinn. Ef húsin hefðu verið ódýrari, þá skil ég vel, ef stj. hefði sagt: Þessi hús eru svo ódýr, að það er óþarfi að gefa eftir toll af þeim. — En þegar það kemur í ljós, að þau reynast dýrari og að þeir, sem voru að agitera fyrir þessum húsum, reyndust falsspámenn, þá get ég ekki séð, hvernig á að réttlæta það, að neita um eftirgjöf á tollinum af þeim ástæðum. Þetta liggur fyrir í þingtíðindunum. Menn geta séð, hvernig það liggur fyrir, og það eru hrein og bein svik, ef tollurinn er ekki endurgreiddur. Það er eingöngu þess vegna, sem ég er með málinu, eingöngu þess vegna, hvað sem menn segja um það. Mér þykir nóg af því í þjóðlífinu, að loforð séu svikin, þó að Alþingi gangi ekki þar á undan. Það hefur að vísu gert það. Það hefur verið samþ. frv. um Austurveg, að leggja hann á nokkrum árum, en ekkert gert. Það eru til l.., um hótelbyggingu, sem aldrei hafa verið framkvæmd. Það er búið að lofa mörgu, sem hefur verið svikið. Það er búið að lofa þjóðinni mörgu, sem hefur ekki verið efnt. En þetta, sem hér liggur fyrir, eru loforð til einstaklinga, og það er þó dálitið annað að svíkja almenn loforð en það, sem lofað hefur verið einstökum mönnum. Það er ósamboðið þinginu og virðingu þess, sem kannske er takmörkuð áður, að ganga svo á bak orða sinna eins og hér er gert, ef tollurinn verður ekki endurgreiddur. Ég tel skilyrðislaust, að það eigi að endurgreiða hann þrátt fyrir alla erfiðleika, og það átti að vera búið að því fyrir löngu.