10.01.1950
Neðri deild: 26. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta mál er þannig vaxið, að það er hægt að tala lengi um það. Ég ætla ekki að hefja hér deilur við hv. þm. Snæf. um þetta mál. Hann sagði það ekki vera rétt hjá mér, að einhverjir útgerðarmenn kysu heldur verðuppbótina en frílistafyrirkomulagið hvað lýsið snertir. Ég held því fram, eins og ég hef áður gert, að um þetta séu skiptar skoðanir. Mér er kunnugt um það. Ég fer ekki að þylja upp nöfn hér, tel það ekki eiga við, en get fullvissað hv. þm. um, að þetta er rétt, að útgerðarmenn álíta sumir, að það sé öruggara fyrir þá að njóta verðuppbótar, ef sú leið er farin, heldur en álagningar á gjaldeyrinn, ef sú aðferðin er höfð. — Hv. þm. Snæf. sagði, að þarna hefði ekki verið um frjálsan gjaldeyri að ræða, því að gjaldeyrisyfirvöldin hefðu ráðstafað þessum gjaldeyri eins og öðrum, það hefði aðeins verið leyfð álagning. Ég vil benda honum á, að það var einmitt í minni till. að leyfa álagningu á vissar vörutegundir, og þetta álag skyldi renna til framleiðenda. Þá sé ég ekki annað, en að hann hefði getað greitt minni till. atkv., ef bara er um þetta spursmál að ræða, álagninguna. (SÁ: Ég vil hafa frílista). — Hv. þm. Snæf. sagði, að ég hefði sagt við 2. umr. málsins, að þetta fyrirkomulag hefði leitt til óheilbrigðra verzlunarhátta. Ég held, að það sé ekki of sterkt að orði komizt, en ekki voru í minni ræðu neinar ásakanir á útgerðarmenn í því sambandi. Hitt er alkunnugt, að mikil brögð eru að því, að ýmsar vörutegundir hafa verið seldar háu verði, og hefur sú skýring verið gefin, að þetta væru gotuvörur o.s.frv. Það er ástæða til að ætla, að í ýmsum tilfellum hafi vörur, sem ekki voru keyptar fyrir þennan gjaldeyri, verið seldar hærra verði en rétt var, í blóra við þetta ákvæði. Svo er því dreift út, að þetta sé útgerðarmönnum að kenna, þeir hafi þessi fríðindi og fyrir þær sakir séu, ýmsar vörur óeðlilega dýrar, þó að þeir eigi enga sök á því, og sízt er það útvegsmönnum til hagsbóta, að sú skoðun skapist, að óeðlilega hátt verð sé þannig til komið, að þeir njóti sérstakra fríðinda. Ég held því, að það hafi ekki verið of fast að orði kveðið hjá mér, að þetta ætti einhvern þátt í óheilbrigðum verzlunarháttum, en ég var ekki með neinar ásakanir til útvegsmanna í því sambandi.