20.01.1950
Efri deild: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (3397)

98. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur lýst því, að gera þurfi breyt. varðandi 1. gr. frv. Það er alveg rétt og satt. En ég vil skjóta því til n., hvort hún vilji ekki athuga, hvort eigi sé nauðsynlegt að gera fleiri breyt. á frv. og l. um stofnlánadeildina. Það hefur verið upplýst í hv. Nd., að ríkissjóður er enn eigandi nokkurra nýju togaranna, því að hann hefur orðið að standa straum af lánum til þeirra, meðan stofnlánadeildin hefur eigi verið megnug þess, og þar að auki 8 báta. Þar gegnir sama máli: Það vantar þar möguleika til að veita þeim lán. Verður því að taka til gaumgæfilegrar athugunar, ef l. um stofnlánadeildina verður breytt, hvort eigi sé fleira, sem breyta þurfi, svo að ríkissjóður þurfi ekki að standa undir milljóna króna vaxtamismun vegna lána, sem veitt hafa verið í heimildarleysi. Þetta ástand er með öllu óviðunandi, og ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að athuga þetta með hv. n.