01.03.1950
Efri deild: 66. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (3410)

121. mál, lyfsölulög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að upplýsa í sambandi við þetta mál, að nokkur undanfarin þing hefur legið fyrir beiðni frá lyfjafræðingum um flutning á frv. til l. um lyfjasölu, sem þeir hafa samið. Það hafa komið fram víðtækar umræður um þetta mál, og var allmikið rætt um það við mig, er ég var form. í heilbr.- og félmn., og n. hefur þráfaldlega verið beðin að flytja þetta frv. Ég lagði á sinum tíma allmikla vinnu í að lesa þau gögn, sem lyfjafræðingarnir lögðu fram, og eins frv. mþn. Mér var það ljóst, að mikið bar á milli, og treysti mér ekki til þess að taka að mér flutning frv., þar sem ég taldi, að einstakir menn ættu ekki að bera fram frv. um þessi mál, heldur ætti frv. að koma frá hæstv. ríkisstj. eða félmrh. Ég er ekki að ávíta hv. flm., en málið er svo margþætt og svo mikill ágreiningur um það, að æskilegt hefði verið, að stj. hefði fallð sérstakri n. að finna samningsgrundvöll, svo að ekki þyrfti að deila eins mikið um málið í þinginu. En mér skilst, að þetta hafi ekki tekizt og að hæstv. ráðh. hafi ekki treyst sér til að jafna þennan ágreining. Nú er frv, komið fram, og ég vildi leggja til, að því yrði vísað til heilbr.- og félmn., ef meiri hl. hv. allshn. er því ekki mótfallinn, og að n. fengi aðgang að öllum þeim gögnum, sem ég hef minnzt á. Annars þætti mér ekki ólíklegt, að málinu yrði vísað frá með rökst. dagskrá, en ég er hv. flm. sammála um það, að nauðsynlegt er að setja um þetta löggjöf. Núverandi ástand í þessum málum er illþolandi, þó að ég ásaki ekki neina sérstaka aðila. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram. Ég legg svo til, að málinu verði vísað til heilbr.- og félmn.