11.05.1950
Neðri deild: 99. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (3427)

129. mál, kaup á ítökum

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta, sem komið er frá hv. Ed., fer að sjálfsögðu til hv. landbn. að lokinni þessari umr. Nú er orðið það áliðið þings, að vafasamt má kallast, að hv. n. afgreiði málið frá sér á þessu þingi, enda teldi ég það vel farið, því að lagasetningu sem þessari má ekki flaustra af, þar sem hér er um mikið vandamál að ræða, sem snertir marga búendur úti um land. Teldi ég vel fara á því, að ýmsum aðilum úti um sveitir landsins yrði gefinn kostur á að gera sínar athugasemdir við þetta frv., svo sem búnaðarfélögum og sýslunefndum o. fl. úti um héruðin.

Þegar frv. var fyrst borið fram á þskj. 409, var ekki leitazt við að skilgreina muninn á ítaki og landareign, þ. e. a. s. hvað væri ítak og hvað landareign. En í meðförum hv. Ed. var sett ný grein inn í frv., sem nú er 1. gr., þar sem leitazt er við að skilgreina þetta. Þessi skilgreining finnst mér þó ekki nægilega skýr, og vildi ég leyfa mér að fara um þetta nokkrum orðum, áður en hv. n. fær frv. til athugunar.

Í 1. gr. frv., sem sett var inn í það í meðförum Ed., segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Það kallast ítak í lögum þessum, er jörð á land eða rétt til landsnytja, svo sem slægna, beitar, svarðartekju, torfristu, laxveiði, silungsveiði. reka alls konar, grasatekju, eggjatekju, fuglatekju, sölvafjöru, maríukjarnafjöru og hvers konar annarra ítaka utan landamerkja sinna, en innan landamerkja annarrar jarðar eða fyrir landi hennar.“ Nú getur það verið með ýmsum hætti, að einni jörð fylgi landsnytjar, stærri eða minni, utan jarðarinnar sjálfrar, og getur það verið breytilegt, hvernig á þessum eignarrétti stendur. Það má t. d. minna á jarðir, sem fyrir löngu hafa farið í eyði og fallið til ákveðinnar jarðar, þótt landamerki falli ekki saman. Þetta tel ég mjög hæpið að kalla ítak. Ég skal nefna dæmi úr minni sveit þessu til skýringar. Á miðjum Breiðamerkursandi er landspilda, sem lengi hefur legið undir kirkjujörðina Hof. Í fornöld var byggð á þessari spildu, og voru þar tvær jarðir: Fjall, þar sem Kári Sölmundarson bjó, eftir að hann hafði hert sverð sitt í blóði brennumanna, og Breiðá; sem byggð var fram á 16. öld, og heimildir eru fyrir, að tóftir hafi þar sézt á seinni hluta 18. aldar. Ekki eru til heimildir fyrir því, svo að ég viti, hvenær þessar eyðijarðir féllu undir kirkjujörðina Hof. En þessari spildu fylgja allmikil hlunnindi, svo sem reki, fjörubeit, veiðiréttur, eggjatekja og beit á grasflötum á sléttlendinu. Svo er nú litið á í mínu héraði, að þetta sé landareign, en ekki ítak frá kirkjujörðinni Hofi. En samkv. skilgreiningunni í frv. hlýtur þetta að skoðast sem ítak, sem næstu jörðum væri heimilt að fá keypt. Enn fremur vil ég benda á, að það er algengt, að eyjar í fjörðum úti fylgi jörðum í grennd við eyjarnar. Nú er það svo, að ef landamerkjalínur, sem liggja á milli jarða, væru dregnar út á firði, þá er þó ekki víst, að eyjarnar fylgi innan þeirrar landamerkjalínu, sem afmarkar þá jörð, sem eyjan á að fylgja. Mér finnst — eins og orðalag frv. er — vera hæpið, hvort ætti þá ekki að skoða það svo, að eyja, sem á þann hátt fylgir utan landamerkja, væri ítak. Enn fremur vil ég benda á, að það er algengt við suðurströnd landsins, að rekafjörur fylgi jörðum og fjörumörk og landamerki falli ekki saman, a. m. k. ekki í mjög mörgum tilfellum. Fyrir því eru ýmsar ástæður, t. d. þær, að rekafjörum hefur oft verið skipt í öndverðu í hlutfalli við dýrleika jarðanna, eftir fasteignamati að fornu tali. En nú er ekki alltaf rétt hlutfall milli dýrleika jarðar og legu hennar að sjá. Af því hlýtur það að spretta, að fjörumörk og landamerki falla ekki alltaf saman. Ef við athugum landssvæðið frá Skaftárósi í Vestur-Skaftafellssýslu til Ingólfshöfða, sem mun vera um 100 km, þá er þannig háttað þar, svo að ég bregði upp dæmi frá þeim stöðum, að við strandlengjuna alla eru rekafjörur töluvert arðsamar og veiðiósar allvíða, sem renna þar um fjörurnar, en byggðin er öll upp við fjalllendið mörgum km ofar og sums staðar, t. d. þar, sem Skeiðarársandur er breiðastur, er við eyðimörk milli byggðarinnar og rekafjörunnar, nokkrir tugir km, og fjörumörk og landamerki milli jarðanna á þessum slóðum falla ekki saman. Fyrir því eru m. a. þær ástæður, sem ég gat um áðan, að fjaran stendur oft í hlutfalli við dýrleika jarðarinnar, þótt það falli ekki saman við legu jarðarinnar að sjó. Svo kemur annað til greina. Landamerki milli jarðanna eru ýmisleg náttúrleg landamerki, ár, lækir og því um líkt eða önnur af manna höndum gerð. En þegar kemur fram á rekafjöru, sem er marga km frá byggð, þá sér alls ekki til landamerkjanna sjálfra, þá eru þau horfin, en sjálf byggðin blasir við og fellin ofan við bæina, og þess vegna eru fjörumörkin sett þannig, að það er miðað við fjallshnúka og einhver föst mörk, sem eru venjulega í fjalli ofan við bæina og falla ekki saman við landamerkin sjálf. — Nú kann að verða álitamál, hvort rekafjara, sem liggur fyrir landi annars manns, er ítak eða landareign. Mér skilst, að samkvæmt skilgreiningu þessa frv. eigi skilyrðislaust að skoða hana sem ítak, sem jarðareigandi, sem á landið á bak við, fái rétt til að kaupa skilyrðislaust. Ef þetta yrði lögleitt, þá mundi leiða af því, að fjörumörk á þessum slóðum, sem ég hef nefnt, mundu breytast stórkostlega og sumar jarðir missa sinar fjörur, en rekafjörur í kílómetratali bætast við aðrar jarðir samkvæmt þessari löggjöf. Yfirleitt hefur verið litið þannig á heima í mínu héraði, að þarna sé ekki um ítök að ræða, heldur landareign, þó að fjörumörk og landamerki falli ekki saman. Í vatnal. er svo ákveðið, að hagnýtur afnotaréttur vatnsfalls fylgi þeirri jörð, sem vatnið rennur um. Það er hefðbundin venja, a. m. k. í Skaftafellssýslu, að veiðiósarnir eru taldir eign þeirrar jarðar, sem á fjöruna. Mér skilst það bendi til þess, að þarna sé um landareign að ræða, sem helgi sér veiðivatnið, en ekki ítak, sem fjörueigandi hafi einungis afnotarétt af. Ég held líka að í ýmsum greinum gætu orðið árekstrar af þessari lagasetningu, ef hún yrði gerð eins og frv. liggur fyrir, við önnur lög, t. d. landskiptalögin. Nú er það víða, að það er sambýli á jörðum, þar sem túni og engjum er skipt, en beitilandi óskipt. Nú er heimild til þess og réttur áskilinn hverju býli að fá beitilandi sínu skipt. Ef það yrði gert og öllu landinu skipt upp, þá er ákvæði um það í 3. gr. landskiptal., að hlunnindum, svo sem rekafjörum o. fl., sem þar er upp talið, megi ekki skipta þannig, að hallað sé á nokkurn ábúanda. Ef út í þetta er farið, þá mundi bera upp á það sker í slíkum skiptum, að ekki væri hægt að skipta rekafjöru nákvæmlega þannig, að hún lægi fram undan landspildu hvers ábúanda fyrir sig, en ef það er ekki hægt, þá bæri upp á sama skerið sem hugsað er að girða fyrir með þessu frv.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál, en vildi láta þessar aths. falla til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til íhugunar. Ég fyrir mitt leyti teldi bezt, að málið yrði ekki afgr. sem löggjöf á þessum fáu dögum, sem eftir eru af þinginu, heldur yrði það athugað nánar. En ef n. vildi gera tilraun til að afgr. málið, þá vil ég sérstaklega benda henni á, að ég tel 1. gr. ekki fullnægjandi; enn fremur tel ég, að það þurfi að endurskoða ákvæðið í 6. gr. um það, að ekki sé alveg skilyrðislaus skylda að selja ítök, hvernig svo sem á stendur.