08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (3436)

158. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mikið út í efni þessa frv. á þessu stigi, en vil aðeins gera ofurlitla grein fyrir því, hvernig málið er til orðið og komið hér inn í hv. d., því að mér þykir þess við þurfa. Mér var fengið þetta frv. fyrir nokkrum dögum síðan og beðinn að hlutast til um, að landbn. þessarar hv. d. flytti það. Síðan hefur ekki komizt á fundur í n. Einn nm. hefur verið veikur, annar hefur ekki komið á fund, þó að ég hafi reynt að fá hann á fund. Og reyndar hefur n. enga ákvörðun tekið sem slík um flutning þessa frv., en upp á mitt eindæmi og í þeirri von, að hinir hv. nm. mótmæli því ekki, set ég frv. af stað og tek fram í grg., að allir nm. hafi óbundnar hendur um alla afgreiðslu málsins. Þetta tek ég fram og vænti þess, að hv. meðnm. mínir muni afsaka þetta, þar sem svo mjög var liðið á þingið, og treysti ég því líka, að hefði ég náð í þá á fund, þá hefðu þeir orðið við þeirri ósk hæstv. félmrh. og Búnaðarfélags Íslands að flytja þetta frv. ásamt mér.

Um efni frv. skal ég ekki ræða að sinni. N. mun að sjálfsögðu halda fund og hún skila sinu áliti, hvenær sem það getur orðið, og sjálfsagt er að vísa málinu til landbn., eins og málið er undir komið.