14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3453)

48. mál, vatnsflóð og skriðuhlaup í Neskaupstað

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þann 6. þ. m. fékk fjvn. til athugunar mál það, sem hér liggur fyrir á þskj. 64. Í till. þessari er farið fram á, að ríkisstj. ábyrgist 150 þús. kr. lán fyrir Neskaupstað vegna tjóns þess, sem varð í bænum við vatnsflóð og skriðuhlaup 23. nóv. s. l. Nefndin hefur rætt till. og orðið sammála um nauðsyn þess, að ríkið veiti aðstoð, og leggur því til, að fyrri hluti till. um ábyrgðina verði samþ. En hins vegar taldi nefndin sig ekki geta tekið afstöðu til síðari hluta till., vegna þess að engar upplýsingar voru fyrir hendi um það, hvað tjónið væri mikið eða hvernig það skiptist, og til þess að tefja ekki afgreiðslu á umbeðinni ábyrgðarheimild felldi nefndin niður 2. mgr. till. á þessu stigi, en leggur til, að þáltill. verði samþ. þannig breytt.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að geta þess, að síðan þetta mál var til afgreiðslu í fjvn., hef ég fengið þær upplýsingar, að Neskaupstaður hafi fengið 50 þús. kr. ábyrgð hjá jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Og er mér ekki fullljóst, hvort það á síðar að vera innifalið í ábyrgð ríkissjóðs eða hvort það er viðbótarábyrgð. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram til athugunar fyrir hæstv. ráðh. Þá vil ég líka vekja athygli á, hvort ekki gæti verið um framlag úr Bjargráðasjóði Íslands að ræða, en Neskaupstaður mun eiga í honum 12.768 kr. Sá sjóður mun nú alls eiga 760 þús. kr., og tel ég, að eðli þessa tjóns sé þannig, að vel geti komið til mála, að veittar verði bætur úr honum, ef þörf krefur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en óska fyrir hönd n., að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem ég hef getið um.