14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3454)

48. mál, vatnsflóð og skriðuhlaup í Neskaupstað

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fjvn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu á þessu máli. Ég felli mig við þá afgreiðslu, sem n. leggur til, og sé, að hún er á margan hátt heppileg, því að aðalatriðið er, að málið verði afgreitt fljótt, til að fá ábyrgð á þeim bráðabirgðagreiðslum, sem nauðsynlegar eru.

Ég vil geta þess í sambandi við það, sem form. fjvn. sagði, að sú ábyrgð, sem jöfnunarsjóður hefur veitt, er hugsuð sem hluti af hinni umbeðnu ábyrgð af hálfu ríkissjóðs. Ég vænti, að hv. þingmenn geti fallizt á þessa afgreiðslu nú, en vil hins vegar vona, að Alþingi sjái sér fært að veita þeim aðilum stuðning, sem verst hafa orðið úti, en það mál bíður þá þess, að skýrsla liggi fyrir um tjónið. Ég sem sagt uni vel þeirri afgreiðslu, sem fjvn. leggur til, og vænti því, að till. verði samþ.