24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Ég skal ekki fjölyrða um efni till. Það er öllum augljóst, sem kynnt hafa sér þetta mál, að laun opinberra starfsmanna eru rýr, miðað við laun annarra stétta. Þetta hefur verið sannað svo rækilega, að um það verður ekki deilt. Þess er getið í grg., að grunnkaup stéttarfélaga með frjálsum samningarétti hafi hækkað um rúm 24% frá þeim tíma, er launalögin voru sett, og að hækkunin nemi um 45% frá því að undirbúningi undir launalögin, sem nú eru í gildi, var lokið um áramótin 1943–1944. Þess er einnig getið í grg., að kaup það, sem bændum er reiknað, hafi hækkað um 43% frá setningu launal. Það er því óhagganleg staðreynd, að opinberir starfsmenn eru orðnir á eftir öðrum stéttum hvað kaup og kjör snertir. Auðvitað má deila endalaust um, hve hátt kaup opinberir starfsmenn skuli hafa, en hitt gegnir furðu, að þing eftir þing skuli vera ágreiningur um, að eitthvert skynsamlegt hlutfall eigi að vera milli launa opinberra starfsmanna og launa annarra launastétta, bænda og hlutarsjómanna. Tilgangur þeirrar till., sem samþ. var hina margumtöluðu nótt í vor, sem leið, var að leiðrétta misræmi milli launa opinberra starfsmanna og launa annarra stétta. Hér er um sama mál að ræða. Heimila á ríkisstj. að halda áfram að greiða uppbætur á laun opinberra starfsmanna. Hér er aðeins um að ræða leiðréttingu á misræmi, sem skapazt hefur undanfarin ár. Þeir, sem mæla gegn till., eru í rauninni að mæla með því, að kaup opinberra starfsmanna lækki miðað við kaup annarra stétta.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði á síðasta þingi, að mér finnst óeðlilegt, að það skuli sérstaklega vera fulltrúar bænda, sem andvígir eru þessu máli, þar eð þeirri skipun hefur verið komið á verðlagsmál landbúnaðarins, einmitt fyrir forgöngu þessara sömu manna, að kaup bænda breytist sjálfkrafa með kaupi tiltekinna launastétta í kaupstöðum. Í launal. ættu að vera slík ákvæði varðandi laun opinberra starfsmanna og mun ég bera fram till. um það til að reyna að koma í veg fyrir, að það endurtaki sig, að opinberir starfsmenn dragist svo aftur úr sem nú hefur orðið. Það er eðlilegast að í launalögum séu ákvæði um, að kaup opinberra starfsmanna hækki samtímis kaupi þeirra, er hafa frjálsa samninga um kaup og kjör. Þar sem bændur eru eina stéttin, sem fær á þennan hátt sjálfkrafa leiðréttingu á launum sínum, virðist mér það koma úr hörðustu átt, er fulltrúar bænda sérstaklega — og nær eingöngu þeir — sýna þessu réttlætismáli óvild. (PO: Við ræðum nánar um þetta síðar.) Það skal verða mér mikil ánægja að ræða bæði þetta og önnur mál við hv. þm. Borgf. (PO: Ánægjan er gagnkvæm.)

Annars voru það einkum tvö atriði, sem ég vildi drepa á. Hv. þm. Borgf. taldi afgreiðslu málsins óeðlilega, þar sem fjárlög væru óafgreidd. Það er rétt, það er neyðarúrræði að greiða fé samkvæmt þál., en hv. þm. veit, að þingið hefur orðið að gera þetta undanfarin ár. (PO: Ekki með þál.) Það hefur að vísu verið gert með lögum, en engu að síður er þetta bein afleiðing af því, að ekki hefur verið hægt að afgreiða fjárlög á réttum tíma. Hv. þm. Borgf. á sæti í fjvn. Ég veit ekki, hvort hann treystir sér til að tryggja það, að fjárlög verði afgr. samkvæmt stjórnskipunarlögum, en ég óttast, að svo sé ekki. (PO: Ekki fyrr en þau hafa verið lögð fram.) Hv. þm. hefur aðgang um það að flokksbróður sínum, hæstv. fjmrh. (PO: Og hv. þm. að sínum ráðherrum.)

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á, eru þau ummæli hv. 8. þm. Reykv. (RÞ), að svo hafi verið til ætlazt af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, að leitað yrði til allra þingflokka um flutning þessa máls. Ég vil í tilefni af þessu skýra frá því, hvers vegna ég og flokksbróðir minn, hv. 4. þm. Reykv. (HG), erum flm. þessa máls. Til Alþfl. var leitað af hálfu form. bandalagsins, fyrir mína milligöngu, og þess óskað, að Alþfl. léti í ljós álit sitt á málinu. Málið var rætt á flokksfundi Alþfl., og allir þm. flokksins voru sammála um, að rétt væri, að það næði fram að ganga. Flokkurinn valdi okkur tvo til þess að flytja málið. Þetta tjáði ég form. bandalagsins og einnig hv. 5. þm. Reykv. (JóhH). Annars höfðum við ekki afskipti af því, hverjir fleiri kæmu til greina sem flm., og ég vissi ekki, að bandalagið hefði leitað til hv. 8. þm. Reykv. Við álitum, að við ættum að sinna óskum bandalagsins, og gerðum það, en við höfðum ekki afskipti af því, hvort leitað væri til annarra flokka. Ég hefði ekki haft á móti því, að hv. 8. þm. Reykv„ sem er form. í stóru stéttarfélagi, hefði einnig verið flm. till.