28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (3464)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Till. þessi fer fram á að heimila hæstv. ríkisstj. að halda áfram sömu greiðslum á uppbótum til opinberra starfsmanna og gert hefur verið síðan 1. júlí s. l. á grundvelli samþykktar Alþ. frá 18. maí s. l. Ég býst við, að till. þessi fari að þessari umr. lokinni til fjvn., þar sem ég á sæti, og get ég því sýnt hug minn til hennar þar. En ég vil þó fara nokkrum orðum um till., einkum vegna þess, að hv. flm. óskuðu eftir, að mál þetta yrði afgreitt hér fyrir lok þessa mánaðar, en nú er sá 28., svo að ég sé ekki, hvernig hægt sé að uppfylla þá ósk. Ég hygg, eins og hv. þm. Borgf. benti á, að afgreiðsla þessa máls á síðasta þingi hafi verið með einsdæmum, þegar það er knúið í gegnum þingið án samþykkis meiri hl. fjvn. og gegn meiri hl. þeirra þm., sem studdu hæstv. ríkisstj. Ég hygg því, að þetta mál verði að bíða eftir afgreiðslu fjárl. og þessar uppbætur verði að ákveða í fjárlfrv., en ekki í þáltill., og tel því óeðlilegt að samþ. þessa till. Síðan þessi till. kom fram, hefur verið útbýtt hér Félagstíðindum og koma þar fram augsýnilegar blekkingar, þar sem ræddur er samanburður á launum opinberra starfsmanna og annarra launastétta, og er þar alveg gleymt því þýðingarmikla atriði, að starfsmenn ríkisins hafa trygga stöðu, svo að segja allt sitt líf, ef þeim verða þá ekki á einhver embættisafglöp, og síðan er þeir hætta að gegna embætti, þá fá þeir greiðslur úr lífeyrissjóði og eftirlaun, svo að oft á tíðum búa þeir þá við betri kjör en meðan þeir gegndu enn þá embætti, en slík kjör hafa þeir ekki, sem starfa hjá einstaklingum eða félögum, en þessu er yfirleitt alveg gleymt í samanburðinum. Enn fremur hafa þessir menn þau hlunnindi, að ef þeir deyja, annast ríkið um konur þeirra og börn, en það mun ekki vera venja hjá öðrum en ríkinu. Er því hér um auðsjáanlegar blekkingar að ræða. — Þá er mismunurinn á vinnutímanum það mikill, að það mun fyllilega nema þeim mismun, sem er á launagreiðslum. Þá vil ég benda á í sambandi við samanburð á launagreiðslum hjá Verzlunarmannafélagi Rvíkur og ýmsum iðnfyrirtækjum, að sá launastigi er byggður upp á verðbólgutímum, og hafa skattalögin haft nokkur áhrif þar á, því að fyrirtækin hafa heldur viljað greiða of há vinnulaun, en of háa skatta. Þessi samanburður getur því ekki gilt, þegar rædd eru launakjör opinberra starfsmanna. Hitt vil ég einnig benda á, að ég tel, að rétt hefði verið og heppilegra að byrja Alþ. nú á öðru en því að hækka laun án þess að krefjast þá um leið meiri vinnu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að margir starfsmenn ríkisins hafa svo stuttan vinnutíma hjá því, að þeir geta unnið annars staðar og með því móti haft tvöföld eða jafnvel þreföld laun. Það þarf því að komast að samkomulagi um lengri vinnutíma, ef þeir vilja fá hærra kaup og telja sig þurfa það nauðsynlega. Ég hef áður bent á það, að maður nokkur vann á einum stað fyrir 10–12 þús. kr. í grunnlaun og öðrum stað fyrir 13 þús. í grunnlaun auk sinna föstu starfslauna. og hagaði hann því þannig, að hann vann fyrir 13 þúsundunum frá kl. 10–12 og fyrir 10–12 þús. frá kl. 2–4, en fasta starfinu og fasta kaupinu hjá hinu opinbera vann hann fyrir á kvöldin, og er þetta aðeins eitt dæmi um, að starfsmenn hins opinbera vinni fyrir tvöföldu, þreföldu eða margföldu kaupi. Ég sé því ekki, að hægt sé að afgreiða þetta mál nema lög um skyldur embættismanna komi fyrst fram.

Mér kom ræða hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) allundarlega fyrir sjónir, þar sem mér var kunn afstaða flokks hennar s. l. vor, en nú virðist sem hv. þm. hafi breytt þeirri stefnu, en ekki kæmi mér á óvart, þótt erfiðlega gengi að viðhalda því við atkvgr.

Ég sé nú ekki þörf á að ræða þetta öllu frekar nú og tel ekki mögulegt að ljúka afgreiðslu málsins fyrir mánaðamót, þar eð athuga þarf þetta mál mjög náið og afla allra þeirra upplýsinga, sem hægt er, til þess að málið liggi ljósar fyrir. — Þá er sú fullyrðing n. í grg., að kaup hlutarsjómanna hafi hækkað um 60%, engin sönnun þess, að laun opinberra starfsmanna þurfi að hækka sem því nemur, því að það er allt annað að vera öryggislaus sjómaður eða fastur starfsmaður, enda óvíst, hve trygging sú, sem hlutarsjómennirnir hafa haft, hefur verið há. En þetta þarf allt að athuga vel, áður en málið fer í nefnd.