28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3467)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki ítreka það, sem ég sagði á síðasta þingi, er þetta mál var til umr., og ekki heldur lengja umr. Ég taldi þá og tel nú bezt, að málið sé fyrst athugað af n. Síðan, er n. hefur viðað að sér gögnum, geta hv. þm. rætt málið frekar.

Hv. þm., sem kynnzt hafa áliti n., sem fjmrn. skipaði í sumar, kannast við, að hlutfallið hefur raskazt milli opinberra starfsmanna og annarra stétta síðan launal, voru sett. Af minni hálfu er ekki ástæða til að ræða þetta frekar nú, enda hafa meðflm. mínir rætt þetta.

Mér láðist síðast að geta um skekkju í grg., sem ekki varð vart við, fyrr en till. hafði verið útbýtt. Í grg. stendur: „Útreikningar n. sýna einnig, að kaup það, er bændum er reiknað við ákvörðun verðs á landbúnaðarvörum, hafði hækkað um 43% frá setningu launalaganna, en sé nú miðað við verðhækkanir landbúnaðarvöru á þessu hausti, verður hækkunin nálægt 50%.“ Þetta síðara er skakkt og á að vera 45–50%. Ég hef gert ráðstafanir til þess, að þetta verði leiðrétt, og mun koma þeirri leiðréttingu til n.

Út af þeim sársauka, sem kom fram í ræðu hv. 8. þm. Reykv. (RÞ), skal ég að vísu játa það, að ég lagði ekki kapp á það að leita til hennar sem meðflm., fyrst og fremst vegna afstöðu flokks hv. þm. til málsins í vor. Hins vegar er ástæðulaust að vera með sársauka út af þessu, hv. þm. getur léð málinu stoð, þó að hann sé ekki meðfim. Sannleikurinn er sá, að flokkur hans var allur á móti málinu, en sérstaklega þó form. flokksins, sem sagði, að hann mundi aldrei gleyma þeirri nóttu, er uppbótin var samþ. Það er því sameiginlega mín sök og fyrri afstöðu flokks hv. þm. til málsins, að til hennar var ekki leitað. Annars vil ég benda á það, að hv. 8. þm. Reykv. hefði getað borið sig meira eftir því að vera meðflm., en ég varð ekki var við, að hv. þm. væri á stúfunum í því skyni, meðal málið var hjá mér. Ég vil vísa því á bug, að málið sé flutt til þess að láta bera á sér. Ég var flm. að sams konar till. á síðasta þingi, og ég vil vísa því heim, að málið sé flutt til þess að láta á sér bera. Ég veit ekki, hvort minna hefði borið á flm., þó að hv. 8. þm. Reykv. hefði verið með og puntað upp á till. með sínu nafni.

Ég vil að endingu leggja áherzlu á það, að málinu sé flýtt. Ég skil hv. form. fjvn., að erfitt sé að afgr. málið á svo skömmum tíma. Kannske gerir ekki mikið til, þó að það dragist eitthvað, en æskilegt væri, að málið væri afgr. sem fyrst, vegna launagreiðslna um áramótin. Ég vil því bera fram þá ósk, að málið fái fljóta afgreiðslu í n. Þó að eðli málsins sé þannig, að taka ætti ákvörðun um það í sambandi við ákvæði fjárlaga, er hér um neyðartilfelli að ræða. Það er byrjað að greiða uppbótina og verður að halda því áfram, ef opinberir starfsmenn eiga ekki að dragast óeðlilega og óréttlátlega aftur úr öðrum stéttum. Ég vil enda með því að óska, að málið fái skjóta meðferð og afgreiðslu.