28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3468)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Hermann Jónasson:

Það er ekki til að hefja umr. um þetta víðtæka mál, að ég stend upp, heldur vegna ummæla, sem hér féllu, og þeirrar túlkunar, sem þar kom fram. Ég ætla ekki heldur að ræða flokksleg sjónarmið, en einkennilegt er það tal, sem hér hefur komið fram, ekki sízt ef það er haft í huga, að síðast var þetta mál afgreitt af hálfum Sjálfstfl. og hálfri ríkisstj. Svo er hv. þm. Barð. hneykslaður yfir því, að þm. tali fyrir máli og ekki sé upplýst, að hver einasti þm. flokks hans sé á bak við. Þetta er einkennilegur málflutningur, og þess vegna greip ég fram í, er hv. þm. sagði, að ekki væri hægt að afgreiða málið nema með miklu frekari skýringum — ég set ekki út á það — og jafnframt ákvæðum um skyldur opinberra starfsmanna, en það kemur ekki fram í því máli, er flokksmenn hans flytja. Hv. þm. var því kominn inn á hála braut, og þess vegna greip ég fram í og spurði um þetta, en út af ummælum hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), að ég hefði sagt, að ég mundi aldrei gleyma þeirri stundu, er uppbótin var samþ., vil ég segja það, að það var ekki vegna þess, að opinberir starfsmenn fengu launauppbót, að ég komst svo að orði. Þessi ummæli komu fram í ræðu minni með öðrum hætti en hv. þm. vill vera láta. Ég gleymi ekki þessari nóttu, vegna þess að þá kom fram hjá þessum hv. þm., að menn yrðu að gera sér ljóst, að allt hækkaði og annað yrði að hækka í samræmi við það. Allar gættir voru opnaðar á þessari nóttu, sem afleiðing af þessari hugsun. Því er ekki hægt að neita, að viðhorfið við málinu eins og það er nú er breytt, eftir að búið er að greiða launauppbót í fjóra mánuði, gættir allar hafa verið opnaðar og það haft sínar afleiðingar. Málið liggur nú allt öðruvísi fyrir. Það var þetta atriði, sem er eftirminnilegt, ekki að opinberir starfsmenn fengu uppbót á laun sín. Ég álít, að þeir hafi fengið hana í því formi, sem er verst fyrir þá og öll störf fyrir fjármál landsins. Það var eftirminnilegast þessa nótt, er uppbótin var samþ. — og fyrir fleiri en mig, hjá því gat ekki farið —, er hálfur Sjálfstfl. var á móti málinu og fjmrh. flokksins á móti því, og þó var málið samþ. af hans flokki.