28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3472)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er að gefnu tilefni frá hv. þm. N-Þ. (GG), sem ég vildi mæla nokkur orð, sérstaklega vegna þess, að mér fannst ræða hans hníga dálítið að því að gera tortryggilegar þær tölur og þá grg., sem fylgir þessari þáltill. Ég stóð hér upp áðan til þess að leiðrétta villu, sem var í einni tölu á þessu þskj., og finnst mér ekki þess vegna vera ástæða til að tortryggja tölur í grg. í heild, heldur er leiðréttingin fremur fallin til þess að sýna, að okkur flm. er umhugað um, að rétt sé með farið í þessu sambandi. Og það er óþarfi að láta í það skína, að úr því að þessi tala hafi reynzt vera þannig, að það þyrfti að leiðrétta hana, þá geti fleira verið rangt í tölunum. Hv. þm. N-Þ. hélt því fram, að þetta væru tölur, sem teknar væru frá opinberum starfsmönnum sjálfum. En flestar þessar tölur, sem í grg. eru, eru úr nál., sem n., sem skipuð var í sumar til þess að athuga þessi mál, samdi, n., sem fjallaði um það, hvaða breyt. hefðu orðið á launum opinberra starfsmanna, miðað við aðrar launastéttir í landinu. Og varðandi þá leiðréttingu, að talan 50% viðkomandi kauphækkun bænda væri nokkuð há, vil ég undirstrika það, að fyrri prósentutalan, 43%, er tekin úr áliti þessarar n. frá í sumar. Og ef miðað er við verðlag landbúnaðarafurða þegar launalögin gengu í gildi og verðlagið, sem er, þegar n. skilaði áliti, þá samsvarar launahækkunin 43%. En skekkjuna rákum við okkur á, þegar miðað var við verðhækkunina í haust, en í sambandi við hana er sagt, að launahækkunin hafi orðið 50%. Sú tala á að vera milli 45 og 50%. En til þess að taka af öll tvímæli, vil ég lesa úr þessu nál. launamálan. frá í sumar, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin hefur aflað sér hjá Hagstofu Íslands og verðlagsnefnd landbúnaðarafurða upplýsinga um útreikninga þá, sem lagðir eru til grundvallar við verðlagningu landbúnaðarafurða. Kemur þá í ljós við athugun á þeim útreikningum, að bóndanum er áætlað ákveðið kaup, sem á að vera ákveðið með hliðsjón af kjörum annarra „vinnandi stétta“ á hverjum tíma. Virðist því mega hafa allverulega hliðsjón af þeirri tölu við mat á kjarabótum bænda á umræddu tímabili.

Þessi samanburður lítur þannig út:

1) Kaup bóndans haustið 1944 kr. 16031,00.

2) Kaup bóndans haustið 1948 kr. 22932,00. Kauphækkun kr. 6901,00, eða 43%.

1) Í verðútreikningi 1944 er kaup bóndans áætlað samkvæmt samanburði við skatttekjur annarra stétta. 2) Í verðútreikningi 1948 er kaup bóndans miðað við kaup Dagsbrúnarmanna, og er reiknað með 9,1 klst. vinnutíma á dag í 300 daga.“

En það er æskilegt að ræða þessar tölur ýtarlegar, þegar nál. fjvn. liggur fyrir.

Vil ég svo að lokum, út af því, sem hv. þm.

Str. sagði, koma hér með stutta aths., vegna þess að hann endurtók í ræðu sinni ákúrur í minn garð, sama eðlis eins og á næturfundinum hér í vor, þegar ég var ekki viðstaddur. Hann sagði, að sér væri ógleymanleg sú nótt í vor, þegar launauppbæturnar voru samþ., vegna þess að ég hefði sagt, að vegna þess að sumt hefði hækkað í landinu, þá yrði allt að hækka í samræmi við það. Þetta hefur hann upp svipað nú og í vor, er hann segir, að ég hafi sagt þetta. En að segja, að ég hafi sagt þetta, er algerlega rangur skilningur á minni ræðu. Það, sem ég hélt fram, var, að vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefði mistekizt í því höfuðverkefni að halda niðri dýrtíðinni í landinu, þá þyrfti að flytja slíka till. sem þessa. Ef hæstv. ríkisstj. hefði tekizt að halda þannig á málunum, að dýrtíðin hefði ekki aukizt, þá hefði þessi till. verið óþörf. En það er annað að segja, að allt þurfi að hækka, vegna þess að dýrtíðin hafi aukizt, heldur en að benda á, að laun opinberra starfsmanna þurfi að hækka í samræmi við hækkað verðlag í landinu. Og hv. þm. Str. á kannske meiri sök á slíkri hækkun en ég og aðrir hv. þm., sem reyndum að styðja hæstv. ríkisstj, í viðleitni sinni við að halda niðri dýrtíðinni. Ég held, að hv. þm. Str. hafi verið aumasti stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. á þinginu, sem starfaði s. l. vetur, í þessu sem öðru, að halda niðri dýrtíðinni, og endaði með því að verða fullkominn andstæðingur hennar. Það var því ekki aðeins þessa vornótt, sem um hefur verið getið, sem hann var andstæðingur ríkisstj., heldur allar næturnar, sem hæstv. ríkisstj. reyndi að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar.