28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3473)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi, tók ég til máls vegna þess, að hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) lét falla að tilefnislausu orð í minn garð, sem ég taldi rétt að leiðrétta, svo að hann hefur hafið þessar umr. hér, að ég álít, að tilefnislausu. En ég hef ekkert á móti því, þó að hann hafi hafið þær. Hins vegar skal ég ekki fara inn á víðtækari umr. um málið en þessi ummæli hans gefa tilefni til, því að ef umr. væru hafnar út af því, sem hann sagði í seinni ræðunni, yrðu það nokkuð víðtækar umr. En ef ég hef verið lítill stuðningsmaður ríkisstj., sem ég skal ekki mótmæla, þá held ég, að það hafi verið vegna þess, að ég hafi álitið, að sumir í ríkisstj. hafi verið of linir í því að halda niðri dýrtíðinni, og andstaða mín hafi stafað af því, en ekki því, sem hv. þm. vildi vera láta.

Viðkomandi þessum ummælum mínum í vor og aftur nú um hækkanir, þá skal ég ekki heldur vera orðmargur, en ég hygg, að það liggi nokkurn veginn í augum uppi, að ef eitthvað þarf að hækka, vegna þess að margt hefur hækkað í verði í landinu, þá þurfi allt að hækka til samræmis. Því að vitanlega gera ekki launamenn einir kröfu til þess að komast með laun sín í samræmi við aðrar hækkanir, heldur gera það allir, og þá hækkar allt, sem ekki hefur hækkað, í samræmi við það, sem hefur hækkað á undan. Sú er líka reynslan annars staðar, þar sem slíkar hækkanir hafa átt sér stað. Svo að það verður ekki ýkja mikill munur á þessum orðum. Ég álít, að það merkilegasta við þetta skref, sem stigið var í vor í sambandi við launauppbæturnar, hafi verið það, að þá var viðurkennt, eins og kom fram í orðum hv. þm., þó að hann segði, að þau hefðu verið öðruvísi en ég hafði þau eftir, að ríkisstj. hefði mistekizt að halda niðrí dýrtíðinni. Sem sagt, þá kom fram viðurkenning á því, að dýrtíðarskriðan hefði verið látin falla, en ekki tekizt að stöðva hana. Þetta er aðalatriðið, en ekki, hvernig orðin féllu orðrétt. Þetta er það, sem skiptir máli, og þetta er viðurkennt. Og viðkomandi ummælum mínum nú um málið, að ég álíti, að þetta mál lægi öðruvísi fyrir nú, en það lá fyrir í vor — án þess að taka neina afstöðu til málsins, eins og ég orðaði það þetta hefur verið túlkað á ýmsa vegu, án þess að ég fari inn á það. En málið liggur nokkuð öðruvísi fyrir, eftir að búið er að greiða launauppbætur til starfsmannanna í fjóra mánuði og þar með kaupið hækkað, heldur en þegar málið var tekið fyrir í vor. Mega menn leggja þetta út eins og þeim þóknast. En annað hef ég ekki sagt í sambandi við málið en þetta.

Svo vil ég segja við hv. þm. Barð., þar sem hann spyr, hvort þeir, sem mæla með þessu máli, eins og hv. 8. þm. Reykv., hafi fengið leyfi til þess hjá sínum flokki, og það leyfi álítur hv. þm. Barð., að hún þurfi að fá vegna þess, að hún sé ekki í samræmi við sinn flokk í málinu. En hefur hv. þm. Barð. alltaf fengið leyfi, þegar hann hefur ekki verið í samræmi við sinn flokk hér á Alþ.? Ég bara spyr. Manni virðist það hafa komið fyrir, að hann hafi ekki verið alveg alltaf á sama máli og ráðherrar flokks hans og aðrir hv. þm. í hans flokki, þegar maður hefur hlustað á mál hans í hv. Ed. Og ég hef aldrei farið inn á það að spyrja hann, þrátt fyrir þetta, um það, hvort hann hafi fengið leyfi til þess. Eða fékk helmingur af hans flokki leyfi til þess að flytja þetta sem auglýsingamál hér á Alþingi í vor? Fékk þá helmingur þess flokks leyfi til þess að flytja þetta mál fyrir embættismennina, og fékk hinn helmingurinn leyfi til þess að vera á móti málinu, til þess að geta flutt það á gagnstæðan hátt sem auglýsingamál úti í sveitunum? Það er leiðinlegt að þurfa að eiga við svona skrýtinn málflutning. Og ég held, að hv. þm. sjái, að það er ekki neitt hald í slíkum málflutningi, því að sjálfsagt hefur enginn maður verið meir í ósamræmi við sinn flokk á þingi en einmitt hv. þm. Barð., og ég lái honum það ekki, því að það bendir á sjálfstæðar skoðanir. Þess vegna skulum við leggja svona málskraf alveg niður.