28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (3474)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Það var út af fyrirspurn, sem hv. þm. Barð. beindi til mín, sem ég ætla að svara honum því, að félög opinberra starfsmanna vinna nú að því að safna ýmiss konar skýrslum, sem ættu að geta orðið til þess, að auðveldara væri að jafna það, sem hann kallar meting um það, hvar hver launtaki eigi að standa í launastiganum. En eins og hv. þm. er kunnugt, þá er svo mikið ósamræmi viðkomandi kaupgjaldi og svo lítið skipulag í því efni viðkomandi þeim stéttum, sem koma t. d. undir launalög, og hins vegar þeim, sem taka kaup utan launalaga nú, að það er mjög erfitt verk að samræma þetta. En það er einmitt nauðsynlegt, að tekið sé upp starf í því skyni að fá í þessum efnum meiri samræmingu, þannig að það liggi ljósar fyrir hverjum einum, hvar hann muni eiga heima í launastiganum. Þegar þau launalög, sem nú gilda, voru sett, þá voru fyrri launal. um það bil 25 ára gömul, svo að þessi löggjöf var sett að nýju og því þá enn erfiðara en nú væri að fá eitthvert samræmi í þetta.

Ég svaraði hv. þm. Barð. því áðan, að mér þætti hann ekki flytja málið neitt gæfulega í garð þeirra manna, sem vinna störf fyrir mjög lítil laun og berjast í bökkum með að komast af. Mér þótti hann ekki flytja málið gagnvart þeim sanngjarnlega, þegar hann tók til dæmis einhvern mann, sem hann þekkti, sem hefur þrefalt starf. En það er ekki aðeins frá sjónarmiðum starfsmanna, sem skapast erfiðleikar við þetta, heldur líka vegna þess, að bæði einstaklingsfyrirtæki og fyrirtæki félaga, sem fólk starfar vitanlega hjá utan launal., kaupa blátt áfram menn frá þeim fyrirtækjum, þar sem starfsmenn koma undir launalögin, þannig að þetta orsakar ásamt fleiru þann glundroða, sem ríkir í þessum málum. En þegar hv. fjvn. fer fram á það við opinbera starfsmenn, að þeir auki sinn vinnustundafjölda, þá er það allt annað mál og náttúrlega spor aftur á bak í málum þessara manna. Og sé nauðsyn á að koma skipun á starfsmannahaldið yfirleitt, þá mun líka vera nauðsynlegt að koma því skipulagi á, að tíminn, þegar unnið er, sé notaður til þess ýtrasta, en ekki stígið það spor aftur á bak að hækka vinnustundafjöldann. Frá kl. átta á morgnana og til kl. tólf á kvöldin var t. d. áður vinnutíminn í búðum. Ég álít ekki, að það gangi verr vinnan í búðunum, þó að vinnutíminn þar hafi verið styttur. Aðalatriðið er, að þeir, sem eiga að sjá um vinnu, stjórni þannig, að vinnutíminn sé vel notaður og að ekki fari tími til ónýtis. Hitt tel ég öfugt spor, ef á að gera það að skilyrði fyrir þeim launum, sem menn hafa til að lifa af, að það sé aukinn vinnustundafjöldinn.