14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (3477)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. 3. landsk. þm. gat um, var þáltill. á þskj. 29 vísað til fjvn. þann 28. nóv. s. l. Það er því rúmur hálfur mánuður síðan n. fékk þetta mikla mál til meðferðar, og get ég upplýst, að n. hefur þegar haldið 4 fundi um málið, og telur n. það svo mikilvægt, að sér sé ekki samboðið að skila um það áliti án þess fyrst að hafa aflað sér um það ýmissa gagna og gera sér m. a. grein fyrir því, hvaða áhrif samþykki slíkrar till. hefði á afgreiðslu næstu fjárlaga og hvaða leiðir væru til þess að afla tekna á móti þeim útgjöldum, sem af samþykkt till. leiddi. Þá taldi n. sér skylt að skila ekki áliti um málið fyrr, en hún gæti rætt það við núv. hæstv. fjmrh., en það var fyrst hægt í gær, og lagði þá n. nokkrar spurningar varðandi málið fyrir hæstv. fjmrh. og svaraði hann spurningum n. í dag, og get ég lofað hv. 3. landsk. því, að málið verði tekið fyrir á næsta fundi n., sem væntanlega verður á morgun. Þá get ég upplýst það, að áður þurfti n. að afla sér ýmissa gagna, m. a. nál. þeirrar n., sem skipuð var í vor til þess að fjalla um þetta mál, og mörg önnur atriði eru í sambandi við þetta mál, sem rækilegrar athugunar þurfa. Hins vegar mun n. ekki láta þau atriði tefja afgreiðslu málsins, en hitt get ég ekki að svo stöddu sagt um, hvort n. geti skilað áliti um málið svo snemma, að það nái afgreiðslu fyrir jólaleyfi, fyrst og fremst af því, að ég veit ekki, hvenær jólaleyfi verður gefið, en því get ég lofað, að málið verði tekið fyrir á fundi n. á morgun.