19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3490)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þau ummæli hv. þm. Barð. (GJ), að mér finnst það ónærgætnisleg fundarstjórn hjá aðalforseta — þessum orðum er ekki beint til þess forseta, sem nú situr í forsetastóll — að gefa ekki kaffihlé, þegar þm. hafa setið á fundi í nær allan eftirmiðdag og nú frá kl. 9. Það er ekki nema eðlilegt, að þingbekkir séu tómir, eins og nú er, og það er auðvitað hálfleiðinlegt að hefja ræðu undir þeim kringumstæðum, en þó er ekki um annað að gera. Annars voru þessi ummæli hv. þm. Barð. það eina, sem ég var honum sammála um, af því, sem hann hefur sagt hér í kvöld, og mun ég víkja nánar að því nú í ræðu minni.

Rökin fyrir þeirri till., sem hér er til 2. umr., eru afar einföld. Þau eru, að grunnkaup þeirra stéttarfélaga, sem hafa frjálsan samningsrétt um kaup og kjör, hefur hækkað um 22,58% frá febrúar 1945 og til júnímánaðar 1949. Árið 1945, þegar launal. voru sett, voru þau af yfirgnæfandi meiri hl. Alþ. talin að vera í réttu og sanngjörnu hlutfalli við kaup launþegasamtakanna í landinu. Síðan hefur kaup hækkað um 22½%. Þess vegna þykir nú ástæða til að láta laun samkv. launal. hækka um nærri því sömu hlutfallstölu. Þetta eru þau rök, sem til flutnings þessarar þáltill. liggja, og ég tel þau mjög einföld. Ég sé ekki, að hægt sé að færa nema tvenns konar rök gegn till. Annaðhvort verða menn að segja, að önnur laun, sambærileg við launalagalaunin, hafi ekki hækkað, eða menn verða að halda því fram, að laun opinberra starfsmanna hafi verið ákveðin of há í launal. 1945 og hafi verið of há síðan. Hv. frsm. fjvn. ræddi málið nær eingöngu út frá hinu síðara sjónarmiði. Hann hefur ekki, að því er mér hefur skilizt, leyft sér að halda því fram, að þeir útreikningar séu rangir, sem leiða það í ljós, að kaup stéttarfélaga, sem frjálsan samningsrétt hafa, hafi hækkað um 22½%, enda er það ómótmælanlegt. Málflutningur hans er sá, að laun opinberra starfsmanna hafi verið ákveðin of há 1945 og síðan, og þar sem hann virðist tala fyrir munn fjvn. eða meiri hl. hennar, þá virðist svo sem skoðun meiri hl. fjvn. sé sú, að sá meiri hl., sem stóð að setningu launal. 1945, hafi tekið upp ranga stefnu. Launal. voru sett samkvæmt stjórnarsamningnum, sem gerður var 1944. Hv. þm. Barð. mun hafa greitt atkv. gegn launal. 1945, svo að hann er sjálfum sér samkvæmur, þegar hann heldur því fram, að launin hafi þá verið ákveðin of há. Hitt er annað mál, að hann var þá í minni hl., en mikill meiri hl. þingsins leit svo á, að laun opinberra starfsmanna væru sanngjarnlega ákveðin í launal., miðað við laun stéttarfélaga, er hafa frjálsan samningsrétt. Það væri undarlegt, ef það reyndist svo, að meiri hl. þm. hefði skipt um skoðun og teldi ástæðu til að lækka laun opinberra starfsmanna frá því, sem var ákveðið 1945, en það væri gert, ef till. sú, sem hér liggur fyrir, væri ekki samþ. Ef ræða á, hvort laun opinberra starfsmanna hafi verið of há 1945 og síðan, þá er afkoma ríkissjóðs rangur mælikvarði á, hvort svo hafi verið. Þó að rekstrarreikningur ríkissjóðs sé afgreiddur með halla, þá er það engin sönnun fyrir því, að laun ríkisstarfsmanna séu of há. Það er aðeins einn mælikvarði til um það, hvort laun opinberra starfsmanna séu hæfileg eða ekki, og hann er sá, hvaða laun eru greidd fyrir hliðstæð störf á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Ef atvinnurekendur og bæjar- og sveitarfélög greiða lægri laun fyrir hliðstæð störf, þá má segja, að laun opinberra starfsmanna séu of há. Ef aftur á móti svipuð störf eru lægra greidd hjá ríkinu en hjá einkafyrirtækjum eða sveitarfélögum, þá má segja, að laun opinberra starfsmanna séu of lág. Fyrirtæki, sem tapar, getur ekki sagt við starfsmenn sína: Þið verðið að sætta ykkur við lægri laun, því að ég get ekki borgað þessi laun. Eða ætlar hv. þm. Barð. að halda því fram, að hann borgi sínum starfsmönnum lægra kaup, en þeir gætu fengið í öðrum sambærilegum störfum? Ég er viss um, að hann gerir það ekki. Auðvitað mundi slíkt fyrirtæki halda áfram að greiða sambærilegt kaup, þó að það tapaði, og reyndi að gera aðrar ráðstafanir til að draga úr tapinu eða bera tapið í ákveðinn tíma í von um, að það kæmu betri tímar. En það er staðreynd, að laun fyrir hliðstæð störf, eru lægra greidd frá ríkinu, en einstaklingum og jafnvel hjá sveitarfélögum, sem þó borga talsvert lægri laun, en einkafyrirtæki. Ef svo heldur lengur áfram, þá er hætta á því, að svo fari, að ríkið geti ekki fengið hæfa starfskrafta í sína þjónustu. Hér er því mál á döfinni, sem ekki er einungis réttlætismál frá sjónarmiði launþega, heldur einnig hagsmunamál ríkisins. Það eru hagsmunir ríkisins, að það ástand skapist ekki, sem hér var 1945, að ríkið varð ekki samkeppnisfært við einkafyrirtæki um góða starfskrafta og varð að leita út á þá hálu braut að greiða alls konar uppbætur og aukagreiðslur. Ég er viss um, að hv. þm. Barð. teldi ekki skynsamlegt að borga starfsfólki sínu lægri laun, en keppinautar hans, því að hann veit, að hann mundi þá missa það, og það þarf engum getum að því að leiða, hvað hann mundi gera, ef hann væri launþegi. Hann er harður í horn að taka og vill hafa sitt a. m. k. Hér ber allt að sama brunni. Málið er réttlætismál frá sjónarmiði launþega. Það er ekki farið fram á neitt annað, en öðrum stéttum, t. d. bændastéttinni, hefur verið tryggt með gildandi l., þar sem ákveðið er, að kaupgjald bænda skuli breytast í hlutfalli við kaupgjald annarra hliðstæðra stétta í þjóðfélaginu. Þetta hefur hv. þm. Barð. og meiri hl. Alþ. samþ., hann með glöðu geði, og þess vegna er það undarlegt, að hann skuli mæla gegn því, að opinberir starfsmenn njóti sama réttar.

Í ræðu hv. frsm. fjvn., hv. þm. Barð., voru þrjú meginatriði, í fyrsta lagi tilraun til að sanna, að opinberir starfsmenn væru of hátt launaðir. Þessi staðhæfing hans er í samræmi við fyrri skoðanir hans í þessu máli. Ég hef hér að framan sýnt fram á, að þetta er ekki rétt, og bent á þann eina skynsamlega samanburð, sem til greina kemur, kaup hjá einkafyrirtækjum, sem er hærra en hjá ríkisstarfsmönnum, og má í því sambandi benda á skýrslur í málgagni opinberra starfsmanna í Reykjavík, þar sem sýnt er fram á með tölum og línuritum, að þessi staðhæfing hefur við full rök að styðjast. — Annað meginatriðið í ræðu hv. þm. var gagnrýni á fyrrverandi fjmrh. fyrir að hafa borgað út launauppbætur samkvæmt heimild frá því í vor. Hæstv. ráðh. hefur svarað þessari gagnrýni, og er ástæðulaust fyrir mig að minnast frekar á það mál. Ég vil einungis vekja athygli á því, sem hv. frsm. n. sagði í þessu sambandi. Hann talaði um óábyrgan hluta Alþ., sem samþ. till. í vor, en í þessum óábyrga hluta Alþ. var form. flokks hans og annar ráðh. Sjálfstfl., dómsmrh. Ég verð að segja, að mér þykir hv. frsm. lítið vanda kveðjurnar sínum ágætu flokksbræðrum hér á þingi. — Þriðja meginatriðið í ræðu hv. þm. var gagnrýni á störf hinnar stjórnskipuðu n., sem í máli þessu starfaði í sumar. Að því atriði hefur ekki verið vikið í umr. fram að þessu, og skal ég því fara um það örfáum orðum. Hv. þm. gagnrýndi n. mjög harkalega og taldi t. d. suma útreikninga hennar villandi, ef ekki beinlínis ranga. Nú vita hv. þm. kannske ekki, hvaða menn áttu sæti í þessari n. Form. n. var Magnús Jónsson lögfræðingur, maður, sem ég hygg að allir, sem til þekkja, beri hið mesta traust til og fullkomlega ástæðulaust sé að væna um, að hafi ekki unnið sitt starf í n., sem vissulega var ábyrgðarmikið, af fullri samvizkusemi og góðri þekkingu á þeim málum sem um var að ræða. Í n. átti einnig sæti Ólafur Björnsson prófessor, sem er form. B. S. R. B. og líka er óviðkunnanlegt að heyra vændan um að fara með villandi eða jafnvel beinlínis ranga útreikninga. Það má kannske segja, að það standi öðrum nær en mér að bera sakir af þessum ágætu sjálfstæðismönnum gagnvart hv. þm. Barð., en þótt ég sé andstæðingur þeirra í stjórnmálum, tel ég sjálfsagt að vísa á bug ásökunum hv. þm. í garð þessara ágætu manna, sem og raunar allrar þessarar n. Ég hef kynnt mér niðurstöður hennar og held, að óhætt sé að segja, að hún hafi unnið störf sín með mestu samvizkusemi, og ég andmæli því, að nokkrir hennar útreikningar geti talizt villandi, hvað þá heldur beinlínis rangir. Til að lengja ekki mál mitt skal ég ræða aðeins eitt atriði, sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Hann sagði, að aðferð n. við útreikninga á meðaltalskauphækkun stéttarfélaga með frjálsum samningsrétti væri villandi, ef ekki röng; hann sagði að n. miðaði hækkunina við einstaklinga, en ekki flokka. Hv. þm. virðist eiga við, að reikna eigi einfalt meðaltal af kauphækkun, en ekki vegið meðaltal. Við skulum taka dæmi. Ef 3 menn fá kauphækkun, tveir 20% og einn 10%, þá heldur hv. þm. Barð. því fram, að meðalkauphækkunin sé 15%, en þeir, sem kunna undirstöðuatriði í reikningi, vita, að meðalkauphækkun í þessu tilfelli er 162/3, en ekki 15%. Hv. þm. virðist annaðhvort ekki vita, hvenær eðlilegt er að nota vegið meðaltal eða ekki vilja nota. það. Ég skal stilla mig um að segja annað af þessu tilefni en að mér finnst, að hv. þm. ætti ekki að bregða öðrum mönnum um reikningsvillur.

Hv. þm. sagði enn fremur, að það yrði að afnema stýfingu vísitölunnar fyrir ákveðnar stéttir og það þær stéttir, sem sízt þyrftu þess með, ef þessi till. væri samþ. Þetta er rangur skilningur á eðli till. Till. þessi er ekki rökstudd með þeirri hækkun, sem orðið hefur á vísitölu framfærslukostnaðar. Opinberir starfsmenn og samtök þeirra hafa aldrei borið sig upp undan því að taka á sig þær byrðar, sem á launafólk voru lagðar með stýfingu vísitölunnar 1947. En þeir vilja ekki sætta sig við, að þessar byrðar komi þyngra á þá en aðrar stéttir, en það er einmitt það, sem er að gerast, ef þeim verður synjað um þessa réttmætu launauppbót. En því miður hefur launum þeirra verið haldið niðri vegna þess, að hina opinberu starfsmenn skortir verkfallsrétt samtímis því, sem öðrum stéttum tekst að knýja fram kauphækkanir vegna þess, að þeirra samningsréttur er frjáls og þeir geta notað sér verkfallsréttinn til að knýja fram launahækkun.

Þá sagði hv. þm., að þetta mundi kalla á nýja kauphækkunaröldu. Þetta er staðhæfing gripin úr lausu lofti, og vil ég í því sambandi minna á þá yfirlýsingu stjórnar Alþýðusambands Íslands, sem hún gaf í fyrra, þegar þetta mál var á döfinni. Alþýðusambandsstjórnin lýsti yfir, að hún mundi ekki nota samþykkt þessarar kauphækkunar til þess að byggja á því nýjar launakröfur til handa sinum meðlimum. Með því ætti þeirri fullyrðingu að vera fullkomlega hrundið, að með samþykkt þessarar launauppbótar væri hrundið af stað nýrri kauphækkunaröldu, sem gerði það torveldara en ella að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar í landinu.

Þá gerði hv. þm. það að umtalsefni, að ýmsir opinberir starfsmenn hefðu tvöföld laun og sumir jafnvel þreföld, að því er manni skildist. Sízt situr á mér að lýsa mig samþykkan slíku, og ég tel algerlega óeðlilegt, að opinberir starfsmenn hafi tvöföld laun og kannske margföld, fyrir venjulegan starfstíma. En má ég leyfa mér að spyrja: Ef mikið hefur kveðið að þessu, af hverju er þá ekki komið í veg fyrir það? Ef það er svo, að opinberir starfsmenn sitji í tveimur eða fleiri embættum samtímis og taki þannig ranglátlega sinn hlut úr ríkissjóði, hvers vegna er ekki gripið í taumana og komið í veg fyrir ósómann? Komi till. frá hv. þm. um úrbætur í þessum efnum, þá skal ekki standa á mér að samþ., að komið sé í veg fyrir það, að fé ríkisins sé sóað á þann hátt, að einstökum mönnum haldist uppi að sitja á margföldum launum, en mér finnst það liggja býsna nálægt hv. þm. Barð., sem lengi hefur verið form. fjvn., að beita sér fyrir róttækum endurbótum á þessu sviði og koma í veg fyrir misferli. Og hafa ekki flokksbræður hans setið í sæti fjmrh. s. l. 10 ár? Hvers vegna hafa þeir látið slíkt viðgangast? Gæti kannske verið, að það kvæði alls ekki eins mikið að þessu og hv. þm. vildi vera láta? Stundum er aðstaðan þannig, að það getur verið algerlega eðlilegt, að menn hafi laun á fleiri en einum stað. Mér er ekki grunlaust um, að skoðanir hv. þm. Barð. mótist stundum miklu frekar vott af naglaskap, en raunverulegum sparnaðaráhuga. Ég segi þetta að gefnu tilefni, af því að eitt af þeim dæmum, sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu áðan, var um það, að yfirlæknarnir við Landsspítalann, sem jafnframt eru prófessorar við háskólann, hefðu ósæmilega uppbót, ferðapeninga, sem vitað væri, að þeir notuðu aldrei til ferðalaga, en væri einungis hugsað sem launauppbót þeim til handa, óeðlileg og ósanngjörn launauppbót. Það vill svo til, að þetta mál þekki ég nokkuð og því vil ég fara um það örfáum orðum. Prófessorar við háskólann hafa 11.100 kr. á ári í grunnlaun, en þeir, sem eru líka yfirlæknar við Landsspítalann, hafa 14.000 kr. á ári í grunnlaun. M. ö. o., fyrir yfirlæknisstörfin á Landsspítalanum hafa þessir yfirlæknar tæpar 3.000 kr. á ári í grunnlaun. Það geysilega starf, sem í því liggur að vera yfirlæknir við stóran spítala, er sem sagt borgað með tæpum 3.000 kr. á ári. Samtals hafa þessir menn því 14.000 kr. á ári í grunnlaun. Það vita allir, að duglegir praktiserandi læknar í bænum hafa miklu hærri tekjur. Ef mögulegt á að vera að fá færa lækna til þess að gegna þessum þýðingarmiklu prófessors- og yfirlæknisembættum, þá segir það sig sjálft, að til þess er lítil von, ef þeir verða að sætta sig við það að hafa kannske allt að því helmingi lægri laun en starfsbræður þeirra, sem praktisera í bænum. Við þessar 14.000 kr., sem greiddar eru samkvæmt launal., bætist svo 3.000 kr. launauppbót á ári, og þrátt fyrir það er langt frá því, að þetta séu eins há laun og fjöldamargir praktiserandi læknar í bænum hafa. Það má geta þess, að t. d. prófessorinn við handlæknisdeildina framkvæmir fjölmargar handlæknisaðgerðir á hverri viku, jafnvel svo að tugum skiptir. Ef allar svona handlæknisaðgerðir væru reiknaðar samkvæmt taxta læknafélagsins, þá geri ég ráð fyrir, að þessi læknir ætti laun upp á ekki tugi þúsunda, heldur hundruð þúsunda. Hér er um að ræða Guðmund Thoroddsen, sem má telja í hópi færustu skurðlækna á Norðurlöndum og er viðurkenndur á sínu sviði, og ef menn telja hans geysimikla starf ofborgað með 17.000 kr. í grunnlaun á ári, þá verð ég að segja, að það er naglaskapur, en ekki sparnaðaráhugi. Enn fremur finnst mér það bera vott um, að hér liggi naglaskapur til grundvallar, að ég hef ekki heyrt hv. þm. Barð. minnast á, að störf praktiserandi lækna í bænum væru of hátt launuð, og eru þau þó hærra launuð en störf þessara manna þrátt fyrir þessar 3.000 kr., sem greiddar eru í launauppbót, og meðan hann talar ekki um, að laun þeirra séu of há, þá er ekki hægt að taka þessa gagnrýni alvarlega. Það er yfirleitt ekki ástæða til að taka tal hv. þm. Barð. og skoðanabræðra hans um há laun opinberra starfsmanna sérstaklega alvarlega, meðan aldrei heyrist orð um það, að laun forstjóra og fleiri slíkra manna á Íslandi séu of há, en þó er vitað, að menn í hæst launuðu embættum, eins og embætti hæstaréttardómara, hafa álíka kaup eins og meðalskrifstofustjórar hjá einkafyrirtækjum hér í þessum bæ, að maður ekki tali um laun forstjóranna sjálfra eða gróða atvinnurekenda í ýmsum greinum, svo sem útgerð, iðnaði og verzlun. Ef hv. þm. Barð. heldur eina eða tvær ræður um, að laun ýmissa forstjóra í þessum bæ og skrifstofustjóra séu óeðlilega há, en algengt er, að þeir hafi 70–120 þús. kr. árstekjur, þá skal ég fara að taka tal hans um óeðlilega há laun embættismanna alvarlega, en fyrr ekki.

Að síðustu skal ég svo víkja fáeinum orðum að þeirri brtt., sem hv. 5. landsk. (ÁS) hefur flutt á þskj. 120. Ég verð að segja, að ef flutningur þessarar till. boðar eitthvað ákveðið um afstöðu Sósfl. til afgreiðslu þessa máls, þá veldur það mér hinni mestu undrun. Í þessari tillögu felst það efnislega, að dregið verðí úr uppbótagreiðslum frá því, sem nú er. Heildarupphæðin, sem skipt yrði á milli opinberra starfsmanna, mundi, ef þessi till. væri samþ., minnka frá því, sem verið hefur undanfarna fimm mánuði. Ég held, að engan þurfi að undra, þó að ég láti í ljós furðu yfir þessu, þegar haft er í huga, hver var afstaða hv. þingflokks Sósfl., þegar þetta mál var til umr. á síðasta vori. Þá flutti hv. 2. þm. Reykv. (EOl) þá till. á þskj. 733, að greiða skyldi starfsmönnum ríkisins og ríkisstofnana 25% launauppbætur á laun þeirra árið 1949, allt árið 1949, sem þýtt hefði 12–13 millj. kr. útgjöld fyrir ríkið á því ári. Tveir hv. þm. Sósfl. fluttu einnig brtt. á þskj. 817 við þá þáltill., sem endanlega náðist samkomulag um milli stuðningsflokka ríkisstj., eða meiri hl. þeirra, um að greiða 4 millj. kr. í launauppbætur. En þessi brtt. var um það að hækka þetta fé upp í 8 millj. kr., og var þó þarna ekki bent á neinar tekjur á móti. Hvað hefur svo gerzt síðan á s. l. vori? Já, ég spyr: Hvað hefur gerzt síðan á s. l. vori? Ef hv. 5. landsk. þm. segir, að það sé skynsamlegra að greiða ekki jafna uppbót á öll laun, heldur, eins og hann gerir ráð fyrir, misjafna, eftir því, hve há launin eru, hví er till. þessi þá ekki þannig, að við það sé miðað að skipta sömu upphæð og verið hefur, miðað víð sama tíma? Hví er hér lagt til, að heildaruppbótagreiðslan skuli beinlínis lækka? Það er annað mál, að ég tel það alveg ranga stefnu í þessu máli að breyta því hlutfalli í laununum, sem ákveðið er í launal. um hina einstöku launaflokka, með því að greiða misjafnar uppbætur. Það er geysiflókið og vandasamt mál að ákveða hlutfallið milli hinna ýmsu launaflokka. Það er ákaflega viðkvæmt dellumál. Það tók margar vikur og jafnvel marga mánuði í hinni stjórnskipuðu nefnd á sínum tíma að ná samkomulagi um þetta. Og það er ákaflega hæpið, að ætla sér að breyta þessu innbyrðis hlutfalli í launaflokkunum með einfaldri þál. Og þeir menn innan samtaka opinberra starfsmanna, sem gert hafa sér far um að gera sér grein fyrir, hver áhrif þetta hefði, hafa komizt að raun um að sú leið, sem hv. 5. landsk. þm. vill fara í þessum efnum, mundi ekki vera réttlát, heldur ranglát. Athugun var á þessu gerð einmitt af stjórn félags starfsmanna ríkisfyrirtækja á síðasta ári, þegar þessi mál voru á döfinni. Þá kom í ljós, að ef gerð væri mest hækkun tiltölulega á launum í allra lægstu launaflokkum og menn fengju minni hækkun eftir því, sem þeir hefðu haft hærri laun, þá lenti óeðlilega mikill hluti launauppbótarinnar hjá þeim starfsmönnum, sem fulltrúar starfsmannaflokkanna sjálfir voru sammála um, að ekki væri ástæða til, að fengju bróðurpartinn. Lægst launuðu starfsmennirnir eru að verulegum hluta einhleypingar, en í lægra miðbiki og miðbiki launaflokkanna koma fjölskyldumennirnir til skjalanna. Þeir eru yfirleitt ekki í allra lægstu launaflokkunum, heldur í 2., 3. og 4. launaflokki að neðan. Og ef menn fara að velta því fyrir sér, hverjir helzt eigi skilið að fá launauppbætur, þá eru það fjölskyldumennirnir í lægst launuðu flokkunum, fremur en einhleypir menn meðal opinberra starfsmanna. Því sannfærðust samtök starfsmanna þessara stofnana um, að það væri alls ekki réttlátast að láta borga tiltölulega hæsta upphæð á lægstu laun og láta upphæðina lækka hlutfallslega eftir því sem ofar drægi í launastiganum. Og það var ekki tilviljun, heldur byggt á einróma samkomulagi fulltrúa þessara opinberu starfsmanna á síðasta vori, að þeir lögðu ekki til þessa stiglækkun á launauppbæturnar, sem hv. 5. landsk. þm. gerir ráð fyrir. Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja var í upphafi einmitt að hugsa um að leggja til, að uppbótaféð skiptist eftir þeirri aðferð, sem hv. 5. landsk. nú leggur til. En ýmsar athuganir, sem gerðar voru á því, hver áhrif þetta mundi hafa, leiddu í ljós, að það væri ekki réttlátt að breyta því hlutfalli launanna, sem gert var ráð fyrir í launal. Ef menn vilja breyta hlutfallinu milli launaflokkanna, er eðlilegast að það mál sé rætt í launamálan. En sjálfsagt er að bíða eftir rökstuddum till. frá henni um þau mál, en ekki að óathuguðu máli að breyta grundvelli þeim, sem launamálin hvíla nú á.

Ef það er skoðun hv. 5. landsk. þm., að það sé réttlátt, að launauppbót til þessara starfsmanna sé mishá eftir launahæð, eins og hann leggur til í sinni brtt. á þskj. 120, þá langar mig til að spyrja: Af hverju hafa ekki hv. 2. þm. Reykv. og 6. þm. Reykv., sem flutt hafa í frv.-formi till. um að afnema vísitölubindinguna, — hví hafa þeir þá ekki sett í þá till., að sú viðbót. sem þá kæmi á laun manna, skyldi verða mishá á sama hátt? Ef þeirra till. um að afnema vísitölubindinguna yrði samþ., kæmi launahækkun vegna þeirrar ráðstöfunar alveg jafnt á lág laun og há hlutfallslega. Ég get því ekki séð, að það sé samræmi á milli till. hv. 2. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. í þessu efni annars vegar og brtt. hv. 5. landsk. þm. við till. þá, sem fyrir liggur, hins vegar, hvað þetta snertir.

Að endingu verð ég .að segja þetta: Ef þessi till. hv. 5. landsk. þm. er fyrirboði um afstöðu flokks hans til málsins, þá verð ég að láta í ljós hina mestu undrun. Og ég get ekki varizt þeim grun, að hér muni vera einhver annarleg sjónarmið á ferð. Ég hygg, að ekki geti hjá því farið, að eftir því verði tekið.