11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Þó að ég hafi tekið að mér framsögu fyrir fjhn. í þessu máli, þá get ég kannast við það, að það er ekki af neinni sérstakri ánægju með þetta mál, að ég geri það. Ég álít persónulega, að það geti ekki orkað tvímælis, að þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera, séu nokkuð vafasamar og framlenging á þeirri braut, sem íslenzka þjóðin hefur gengið á undanfarið og ég fyrir mitt leyti álít óheillabraut. Á hitt ber þó að líta, að hér er um alvarlegt ástand að ræða, og má því skoða þessar ráðstafanir gerðar til bráðabirgða, af nauðsyn, þó að ill nauðsyn sé. Eftir að þessu frv. var vísað til hv. fjhn., um miðjan dag í dag, hefur hún svo að segja óslitið setið á fundi um málið. Meðal annars hefur hún átt viðræður við fulltrúa frá útgerðarmönnum um það. Nál., sem n. gefur út, er nú reyndar ekki svo fyrirferðarmikið, að það beri með sér, að mikið starf liggi á bak við það, en á þeim tíma, sem n. taldi rétt að afgreiða málið, hygg ég, að hún hafi þó ekki getað tekið öllu fleira til greina, en hún gerði. Svo stóð á í n., að einn nm. var veikur, hv. þm. Seyðf. (LJón), og er hann því ekki viðriðinn afgreiðslu málsins, en hinir nm. leggja til, að þetta frv. verði samþ., en þeir áskilja sér þó rétt til þess að bera fram brtt. sem einstaklingar, — og það hafa tveir af nm. gert, — eða að vera með brtt., sem fram kynnu að koma.

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, er þetta frv. nokkuð breytt frá því, sem það var borið fram í hv. Nd. af hæstv. ríkisstj. Aðalbreyt., sem frv. tók í hv. Nd., er sú, að felld var niður heimild, sem var í 14. gr. frv., eins og það var þá, um að heimila stj. að innheimta söluskatt samkvæmt 21. gr. l. nr. 100 frá 1948 með allt að 30% af tollverði allrar innfluttrar vöru, að viðbættu aðflutningsgjaldi og áætlaðri álagningu, 10%. Fleiri brtt. voru að vísu gerðar, m.a. var sett ný gr. inn í frv., sem nú er 15. gr. þess, um að heimila ríkisstj. að veita útgerðarmönnum þeirra skipa, sem síldveiðar stunduðu fyrir Norðurlandi sumarið 1949, fyrirgreiðslu samkvæmt 2. gr. l. nr. 85 frá 15. des. 1948, enda gildi ákvæði þeirra l. um framkvæmd aðstoðarinnar eftir því, sem við á, og er ríkisstj. heimilað að taka allt að 11/2 millj. kr. lán til þess að geta innt þessa fyrirgreiðslu af hendi. Fleiri breyt. voru og gerðar á frv., t.d. eins og sú, að núverandi 6. gr. frv. var bætt inn í það. Um hana þarf ekki að fjölyrða, þar sem öldungis víst er, að ákvæði hennar koma ekki til greina. Út af þeim breyt., sem hv. Nd. gerði og þá sérstaklega aðalbreyt., að fella niður heimildina til þess að innheimta 30% gengisskatt eða, eins og þetta var orðað í 14. gr. upphaflega frv., 30% af tollverði allrar innfluttrar vöru, og með nokkrum viðauka, er það að segja, að auðvitað er fjárhagsgrundvöllurinn undir þessu frv. veikari vegna þess, að þetta ákvæði var fellt niður. En á það ber að líta, að það er svo ástatt nú, að ríkissjóður er þegar búinn að binda sér bagga, sem ekki er hægt að sjá, að unnt verði að standa undir með núverandi tekjum hans. Þess vegna mun það verða alveg óhjákvæmilegt í sambandi við afgreiðslu fjárl. eða á annan hátt að taka það til gagngerðrar endurskoðunar, athugunar og afgreiðslu, hvernig ríkið fái staðizt þau útgjöld, sem því eru lögð á herðar, bæði með því, sem áður hefur verið gert, og einnig með því, sem nú er verið að gera. Í annan stað er á það að líta, að hér er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, og ég býst við, að n. sé sammála um það, a.m.k. er það mín fulla sannfæring, að þrátt fyrir það, þó að gert sé ráð fyrir því til vara, að aðalefni frv. geti framlengzt til 15. maí, þá sé alveg óhjákvæmileg nauðsyn, að aðrar og frekari og gagngerðar ráðstafanir séu gerðar á þeim tíma, sem frv. fyrst og fremst tiltekur, fyrir febrúarmánaðarlok nú þetta ár. Og í frv. hefur verið miðað við þetta í hv. Nd., því að það er þó a.m.k. séð fyrir í þessu frv. allverulegum áframhaldandi tekjum í sambandi við þetta til þess tíma. Það hefur því ekki af greindum ástæðum komið fram nein till. í n. um það að taka þetta ákvæði um tekjuöflun aftur upp í frv. Ég verð svo að bæta því við sem minni persónulegu skoðun, — og skal ekki um það segja, hvort ég tala þar að nokkru leyti fyrir hönd n. eða að hve miklu leyti, — að án enn frekari ráðstafana hygg ég, að það hefði kannske orðið lítið gagn að því að hafa þennan 30% viðauka, því að eftir þeim yfirlýsingum, sem fram hafa komið, t.d. frá Alþýðusambandi Íslands, er ekki annað sýnilegt, en ef slíkur skattur eða tollur hefði verið lagður á, þá hefði í kjölfar þess siglt nýjar kaupkröfur og sennilega þá í sambandi við þær ný verkföll, og er þá ekki að vita, að bátaútvegurinn hefði verið miklu nær um það að verða rekinn á þeirri vertíð, sem nú á að fara að hefjast. Mér virðist það hefði verið tilgangslaust að ákveða þennan tekjuauka fyrir ríkissjóð, nema jafnframt að gera ráðstafanir til þess, að tilkostnaðurinn við útgerðina hækkaði ekki að sama skapi. Til þess að gera slíkar ráðstafanir kunna að vera ýmsar leiðir, en ein af þeim er áreiðanlega sú og líklega sú, sem flestum mundi detta fyrst í hug, að banna kauphækkanir með l. En ég hef ekki orðið var við það, að menn væru reiðubúnir til þess að gera kröfur í þá átt. Ég leit þannig á í fyrstu, að það væri nauðsynlegt að hafa ákvæði um tekjuöflun í þeim lögum, sem hér stendur til að setja. En af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint, hef ég meir og meir efazt um það, og ég hygg nú helzt, að það sé hin rétta afgreiðsla að afgreiða frv. á þennan hátt í aðalatriðum, sem hér liggur fyrir, m.a. auk þess, að Alþ. og ríkisstj. er með þessu móti alveg nauðbeygð til að taka þetta mál til nýrrar meðferðar og gagngerðrar endurskoðunar á næstu tveim mánuðum, hvað sem þá kann að verða upp á teningnum, og hvernig sem þá tekst að leysa málið, um það skal ég ekki spá né heldur um það, hvort tekst að leysa það með samkomulagi flokka og stétta, sem æskilegast væri, eða til þess þurfi að beita meirihlutavaldi. En ef þetta verður ekki gert, þá er það fyrirsjáanlegt, að hér stefnir til hins mesta ófarnaðar og ekki hægt að sjá fyrir endann á því. Þetta kann að þykja svartsýni, en mér virðist helzt, að þá stefni til stöðvunar atvinnulífsins að meira eða minna leyti og greiðsluþrota ríkissjóðs, og er vonandi, að gifta Alþ. og þjóðarinnar sé sú, að hægt sé á þessum tveim mánuðum eða nærri tveim mánuðum að finna leið til að afstýra þeim voða, sem gæti verið fyrir hendi og mér sýnist vera fyrir hendi. En eins og ég tók fram, þegar ég hóf þennan kafla ræðu minnar, þá er hann mæltur á eigin ábyrgð, en ekki meðnefndarmanna minna. Það kann vel að vera, að þeir, einhverjir eða allir, líti öðruvísi á þetta en ég, en sem sagt, hin sameiginlega afstaða er þessi, að mæla með frv., þó að nm. hafi ekki bundið sig við það að mæla með því algerlega óbreyttu.

Um þær brtt., sem þegar eru fram komnar við frv., ætla ég ekki að ræða fyrr en hv. flm. hafa gert grein fyrir þeim.