14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3531)

59. mál, límvatn sem áburður til ræktunar

Flm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 78 leyft mér að bera fram till. til þál. þess efnis, að Alþingi skori á ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á því, hvort hægt sé að nota límvatn frá fiskimjölsverksmiðjum til áburðar.

Ég hygg, að allir, sem athugað hafa ræktun og komnir eru til ára, þekki, hversu slor og fiskúrgangur er góður áburður á tún og í garða. Nú er þessi áburður ekki lengur fyrir hendi, síðan hafin var framleiðsla fiskimjöls úr öllum fiskúrgangi, nema þar sem hráefnið var sólþurrkað, áður en það var malað. Var þá jafnan þurrkað á ræktaðri jörð, ef því varð við komið, og brást ekki, að efnið flutti moldinni næringu ámóta við ýmsar aðrar áburðartegundir. Þegar fiskúrgangur er þurrkaður við eimun eingöngu, inniheldur fiskimjölið 65% af eggjahvítuefni. Sé efnið hins vegar pressað og síðan eimað, lækkar eggjahvítuefnisinnihaldið ofan í 55%. Mismunurinn flýtur til sjávar með límvatni efnisins frá pressunni. Ef sams konar efni er sólþurrkað, verður eggjahvítuinnihald mjölsins einnig aðeins 55%, svo að sama eggjahvítumagn flýtur frá efninu til jarðarinnar við sólarhitun eins og til sjávarins við pressun. Er ljóst af þessu, að dýrmætum áburðarefnum er á glæ kastað með því að láta þetta renna ónotað til sjávar.

Árið 1938 lét ég gera nokkrar tilraunir með límvatn til áburðar. Reyndist þessi áburður vel og gaf beztan árangur með því að blanda límvatnið með vatni, einn l. af límvatni á móti þremur l. af vatni, og gaf þessi blanda eins góðan árangur og útlendur áburður. Það er þessi reynsla mín og margar fleiri ástæður, sem valda því, að ég ber fram þessa þáltill. Ég tel, að tilraun þessa megi framkvæma á mjög auðveldan og ódýran hátt, og er eðlilegast, að hún verði framkvæmd af tilraunastöðvum ríkisins í jarðrækt.