14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3532)

59. mál, límvatn sem áburður til ræktunar

Erlendur Þorsteinsson:

Það er alkunnugt, að við vinnslu síldar hafa verðmæt efni farið forgörðum með soðinu og reynt hefur verið að hagnýta þau. Það má eiginlega segja, að sú framleiðsla hafi verið á tilraunastigi fram á síðustu ár, en nú hefur tekizt að vinna þennan soðkraft úr limvatninu sem mikilsverð efni, sem eru mjög rík af vaxtarefnum og góð til að gefa ungviði, sem nota á til manneldis, svo sem alifé. Þessi efni eru ekki framleidd öðruvísi.

Síldarverksmiðjur ríkisins hafa reynt á undanförnum árum að fylgjast með þróuninni í þessum rekstri, og stjórn síldarverksmiðjanna hefur staðið í sambandi við fyrirtæki erlendis síðan í fyrravetur varðandi útvegun véla til stofnsetningar verksmiðju til þessarar vinnslu á Siglufirði: Annar framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins er nýkominn heim frá Ameríku, en þar var hann að kynna sér þessi mál. Stjórn SR mun á næstunni óska eftir því við ríkisstjórnina að fá að stofna slíka verksmiðju á Siglufirði. Mér fannst rétt að kynna hv. Alþ. þetta mál, úr því að það hefur borið hér á góma, og skal nefna dæmi:

Fyrir hvert mál síldar renna 95 kílógrömm af soði í sjóinn. Ef það soð væri fullunnið, eða soðið, fengjust úr því 13,2 kílógrömm af soðkrafti, 0,3 kílógrömm af síldarlýsi og 0,3 kílógrömm af síldarmjöli. Fyrir þessi verðmæti, sem fara til spillis, má fá 14 krónur pr. mál, en með þeim reikningi er að vísu gert ráð fyrir, að soðinu sé ella alveg fleygt eða það fari með öllu til ónýtis. Í þessu dæmi er reiknað með verði, sem er á heimsmarkaðinum. Verð á soðkrafti er 6–8 cent pr. amerískt pund, og í dæminu er reiknað með 5 centum fyrir afföllum, kostnaði við flutning vestur um haf og fleiru. Það er miðað við 5000 mála afköst, en þá er ekki hagnýttur nema lítil hluti af því soði, sem til fellur. En samkvæmt meðaltali síðustu ára hefði þessi stöð eða verksmiðja unnið í 22 sólarhringa. Áætlað er, að hún kosti 4 milljónir. Og ef gert er ráð fyrir eða reiknað með því verði, sem ég gat um áðan, ætti verðmæti framleiðslunnar að nema 1.576.000 kr. Ætti stöðin þá á 2 árum að geta skilað þeim gjaldeyri, sem þarf vegna stofnkostnaðar hennar, og ef gert er ráð fyrir, að hún greiði ekkert fyrir soðið, á stöðin að geta greitt sig upp á 5 árum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vænti, að þetta mál njóti fullkomins stuðnings, er það kemur fyrir þingið.