07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3550)

42. mál, farkennaralaun

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson) :

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að hv. frsm. minni hl. hefur ekki mælt á móti því, að eðlilegt væri og réttmætt að gera þær ráðstafanir, sem þáltill. fer fram á. Hann segir þvert á móti, að á sínum tíma, þegar launalögin voru samþ. 1945, hafi hann verið því andvígur, að mismunur sá væri gerður, sem hér er um að ræða. Ég hygg líka, að það muni vera svo, að síðan þessi l. voru gerð, þá hafi nú flestir komizt á þá skoðun, að þetta ákvæði um mismuninn sé ranglátt og eigi ekki neina hliðstæðu, og á það bendir m. a. umsögn fræðslumálastjóra. og kennarasambandsins, sem prentaðar eru með áliti meiri hl. Hins vegar segir hv. frsm. minni hl., og það kemur fram í hinni rökstuddu dagskrá, að það sé ekki eðlilegt að breyta fyrirmælum gildandi l. með þál. og þess vegna kunni hann ekki við að samþ. þáltill., jafnvel þó að hann sé efni hennar sammála. Með þessari þáltill., þó að samþykkt yrði, væri ekki verið að breyta l. Það er vitanlega ekki hægt með þáltill., en þáltill. felur það eitt í sér að heimila ríkisstj. tilteknar fjárgreiðslur úr ríkissjóði, sem ætlað er að bæta úr misrétti, sem þessir starfsmenn hafa orðið fyrir. Það eru áreiðanlega fjöldamörg fordæmi fyrir því, að slíkar ráðstafanir hafi verið gerðar með þáltill., og er skemmst að minnast þess, að nú fyrir skömmu, á þessu Alþ., var samþykkt þáltill. um heimild fyrir ríkisstj. til að greiða uppbætur til allra opinberra starfsmanna, ekki minna en tuttugu af hundraði. Þetta var gert með þáltill., ekki með því að breyta fyrirmælum l., heldur með því að heimila ríkisstj. að greiða fé á þennan hátt. Hið sama gildir um þessa till., sem hér liggur fyrir, en munurinn er aðeins sá, að hér er um miklu minni upphæð að ræða, sem segja má, að ríkissjóð muni sama sem ekkert um, samanborið við ýmislegt annað, sem hann hefur á sinni könnu. Ég vil vekja athygli á því, að þessi till. er borin fram að sérstaklega vel athuguðu máli, þar sem sérstaklega hefur verið rannsakað, hve mikinn kostnað hún hefði í för með sér fyrir ríkissjóð með þeirri breyt., sem við leggjum til, að á henni verði gerð, en þessi kostnaður við framkvæmd till. mundi verða, eins og ég gat um áðan, um 80 þús. kr., og hefur það verið athugað á skrifstofu fræðslumálastjóra.

Frsm. minni hl. taldi, að það væri miklu viðkunnanlegri aðferð, ef menn vildu afnema þetta misrétti að bera fram breyt. á sjálfum launal. Ég held, að það væri ekki heppileg aðferð. Það virðist svo, að yfirleitt séu menn sammála um, að bæta beri úr þessu misrétti, og finnst mér ekki formið skipta þar höfuðmáli. En hins vegar er mjög mikil hætta á því, ef gerð væri tilraun til að opna launal., að mönnum þætti þá ástæða til að koma með ýmsar fleiri till. til breytinga, þó ekki jafnsjálfsagðar og þessi er, og virðist mér ekki, að formaður fjvn. ætti að ýta undir, að slíkri skriðu væri komið á stað og vona ég, að hann sjái við nánari athugun, að eðlilegasta og heppilegasta lausnin viðvíkjandi þessu er að samþykkja þá till. til þál., sem hér liggur fyrir.