07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3551)

42. mál, farkennaralaun

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Það eru aðeins örfá orð. Hv. flm. sagði síðast í ræðu sinni, að það væri ekki rétt af formanni fjvn. að ýta undir, að slíkri skriðu yrði hleypt á stað, að kröfur yrðu gerðar um aukin útgjöld fyrir ríkissjóð með því að opna launal. Ég vil benda honum á, að því fleiri þáltill., sem samþ. yrðu á þann hátt sem hér um ræðir, því meira væri ýtt undir að opna lögin til umræðu og breytinga, því meiri gögn sem liggja fyrir hendi til sönnunar því, að bæta þurfi l., þannig að það er þá hann fyrst og fremst, sem byrjar á því að ýta þessari skriðu á stað, sem hann vill vara formann fjvn. við að vera við riðinn, og vekja óánægju hjá þeim mönnum, sem hlíta þessum lögum, sem mundi skapa ýmsar aðrar fjárkröfur á hendur ríkissjóði.

Þá gat flm. einnig um það, að nýlega hefði verið gerð hér breyt. á l., sem heimilaði hækkun á launum embættismanna, með þáltill. nú fyrir áramótin. Í fyrsta lagi vil ég taka fram, að ég frábið mér alla ábyrgð á þeim gerðum og vil vísa í nál., sem meiri hl. fjvn. gaf út, og þá framsöguræðu, sem ég hélt í því máli. Ég hafði þá skoðun, að ekki væri rétt að afgreiða slíkt mál með þáltill. En ein syndin bíður annarri heim, og fyrir það, að þetta var samþykkt á Alþ. í maí í vor, er haldið áfram að gera það nú, og síðan kemur hér önnur till., þar sem haldið er enn lengra inn á þessa braut og engin sönnun fyrir því, að hér verði látið staðar numið, þó að hún verði samþ. Þess vegna er nauðsynlegt að sporna við þessari skriðu, sem flm. er nú að hleypa á stað, og ætti hann með góðri samvizku að geta greitt atkvæði móti sinni eigin till.

Ég vil líka benda á, að það er mjög vafasamt, að hægt sé að skilja ummæli eða umsögn fræðslumálastjóra þannig, að hann mæli beint með því, að þetta sé greitt. Hann segir: „Eftir atvikum get ég fallizt á ...“ Hann vill ekki leggja á móti því, að það sé gert, og er skiljanlegt, að hann vilji það ekki, ef hægt er að finna nógu marga menn á þingi, sem í ábyrgðarleysi á meðferð ríkissjóðs vilja taka það á sig. En sannarlega er honum ekkert umhugað um, að þessi till. verði samþ., auk þess sem hann setur það skilyrði, að menn hafi verið í starfinu í tvö ár, sem ég tel alveg ótækt. Ef þessir menn gera verkið eins vel og hinir, á að greiða þeim eins mikið og hinum. Það er m. ö. o. verið að flokka hér með þáltill. hæfni þessara manna, flokka það með þáltill., að þeim skuli greidd ákveðin laun eftir því, hve lengi þeir hafa verið í starfinu, en ekki eftir því, hve langan námstíma þeir hafa haft, áður en þeir fara í starfið. Ég tel því, að till. sé enn verri eins og hún nú er orðin en eins og hún var upphaflega. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram. Ég mundi hins vegar telja alveg eðlilegt, að flm. bæri till. fram í frumvarpsformi, og vil benda á, að ætlazt er til, að breyt. verði gerðar á launal. innan skamms tíma og kannske þegar á þessu þingi, og flm. velt vel, að það situr mþn., sem vinnur að þeim málum, og ætti hann að geta beðið þess, að hún ljúki störfum.