07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3552)

42. mál, farkennaralaun

Frsm. meiri hl. (Gísli Guðmundsson):

Það eru aðeins örfá orð. Ég held, að það sé engin ástæða til að fara að þrátta um það við frsm. minni hl., hver sé munurinn á því að bera fram þáltill. eins og hér liggur fyrir eða frv. um breyt. á launal. Um það held ég að sé óþarfi að eyða orðum. Ég býst við, að þm. séu því kunnugir, hvað gerist, t. d. þegar borin eru fram frv. til breyt. á vegal. og ein lítil brtt. er borin þar fram, þannig að maður getur ímyndað sér, hvað mundi gerast í sambandi við launal Frsm. minni hl. veit vel, að þessi þáltill.-skriða er fallin og að hún heldur áfram. Hvorki hann né aðrir virðast geta stöðvað það. Ég man ekki betur, en hann hafi sjálfur borið fram þáltill. í vetur, sem fór fram á fjárgreiðslur úr ríkissjóði. Það er því fjarstæða að tala um, að verið sé að koma á stað neinni skriðu með þessari till.

Að því er snertir umsögn fræðslumálastjóra um till., þá vil ég segja, að hún er meðmæli á þann hátt, sem slíkir embættismenn eru vanir að gefa í líkum tilfellum. Þetta er umsögn hans um till., sem fyrir liggur, og afstaða hans er ákveðin. Hann fellir sig við hana eftir atvikum, og þau atvik eru sú reynsla, sem hann hefur haft af framkvæmd l. Hann hefur séð, að hér er ástand, sem ekki getur haldið áfram, og fellst á, að till. verði samþ. með þeirri breyt., sem hann vill, að gerð verði, þ. e. að þessi breyt. verði ekki látin ná til þeirra, sem eru alveg nýkomnir til starfsins. Hugsunin er sú, að áður en nýráðnir farkennarar án prófs njóti sömu kjara og aðrir, þá skuli það a. m. k. vera komið í ljós, að þeir hafi reynzt þannig í starfinu í byrjun, að viðkomandi skólanefndum hafi þótt ástæða til að ráða þá aftur. Það er sú hugsun, sem liggur á bak við hjá fræðslumálastjóra.