24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3564)

2. mál, heimilistæki

Flm. (Kristin Sigurðardóttir) :

Herra forseti. Það er óþarfi að halda langa framsögu í þessu máli, en vísa til greinargerðar, þar sem er tekið fram flest, er máli skiptir.

Það er alkunnugt, hvað miklum erfiðleikum það er bundið að fá hjálparstúlkur á heimilin, einkum fyrir efnalítil heimili, sem ekki geta farið í kapphlaup um kaup, og það eru oft stærstu og barnflestu heimilin, sem einmitt helzt þyrftu á hjálp að halda og sízt geta fengið hana. Stúlkur vilja yfirleitt ekki vinna í vistum, en taka hverju öðru starfi fremur, og liggja til þess margar orsakir, sem ástæða væri til að athuga í öðru sambandi.

Það er haft eftir læknum, að mikill fjöldi sjúklinga, sem til þeirra leita, séu þreyttar húsmæður, sem séu heilsubilaðar og þrotnar að kröftum fyrir aldur fram af of miklu striti og erfiði. Við þessu er aðeins ein lækning, það er minni eða léttari vinna. En hvað geta húsmæðurnar gert til þess að létta af sér mesta erfiðinu? Ekki geta þær hlaupið frá heimilinu, börnum eða máske sjúklingum. Nei, húsmæðrastéttin, sem er fjölmennasta stétt þjóðfélagsins, getur ekki gert verkfall til þess að krefjast styttri vinnutíma.

En húsmæðurnar hafa eygt einn möguleika til þess að létta heimilisstörfin, það er rafmagnið, þar sem það nær til. En á síðustu árum hefur alltaf fjölgað þeim heimilum, sem orðið hafa rafmagnsins aðnjótandi, og reynsla sú, sem fengizt hefur af hinum nýtízku heimilistækjum, er öll á þann veg, að þau auðvelda og létta heimilisstörfin að mjög miklu leyti. En innflutningur þeirra hefur verið af skornum skammti, og hefur það verið afsakað með því, að erlendur gjaldeyrir hafi verið takmarkaður. Það er að vísu rétt, en húsmæðrum virðist, að margt hafi verið flutt inn í landið, sem ekki á frekar rétt á sér eða nauðsynlegra getur talizt.

Þá er eitt atriði ótalið í sambandi við þetta mál, og það er svartamarkaðsbrask, sem skapazt hefur með heimilisvélar og á allra vitorði er. — Ætla mætti, að ef aukinn yrði innflutningur þeirra að verulegu leyti, mundi þessi svarti markaður hverfa að mestu eða öllu leyti. — Ég vænti þess svo, að hv. d. taki vel í þetta mál.