24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3568)

2. mál, heimilistæki

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Borgf., sem talaði hér síðast, og nokkrum fyrirspurnum í ræðu hans, sem hann beindi til mín.

Hv. þm. spurðist fyrst fyrir um það, hvort sú skýrsla, sem ég vitnaði til og hef í höndum, væri miðuð við núverandi virkjanir eingöngu eða hvort tillit væri tekið til þeirrar aukningar, sem verið væri að gera. Einnig spurðist hann fyrir um, hvort olíustöðvar úti um land væru teknar með í þessari skýrslu. Ég get upplýst hann um það, að í skýrslunni stendur, að í skýrslunni séu teknar allar starfandi rafveitur og enn fremur þær, sem eru í byggingu, bæði vatnsaflsstöðvar og olíustöðvar, og þar er ekkert undan skilið. Gert er ráð fyrir, að allar þessar stöðvar nái til 20 þúsund fjölskyldna, eða um 100 þús. manns. (PO: Hvenær var gengið frá þessari skýrslu?) Í marz s. l. Þó segir, að þegar gerðar eru till. um innflutning á næsta ári, þá sé ekki miðað við þær stöðvar, sem sé sýnt, að ekki verði lokið á þessu ári en þegar heildarþörfin er tekin, þá er miðað, við allar rafveitur, sem eru til og eru í byggingu, bæði vatnsaflsstöðvar og olíustöðvar.

Ég minntist á það í minni ræðu, að á sumum rafveitusvæðum væri þannig komið, að þau væru að komast í erfiðleika út af raforkuskorti, það væri svo mikið álag á stöðvarnar og eftirspurnin eftir raforku væri svo mikil, að erfitt væri að fullnægja henni. Það er vitað mál, að erfitt verður að þessu leyti á svæði Sogsvirkjunarinnar 1–3 ár, eftir því, hversu hægt verður að flýta viðbótarvirkjun Sogsins. Ég get vel tekið undir það með hv. þm. Borgf., að það eru til önnur rafveitusvæði, kannske sérstaklega í hans kjördæmi, þar sem enn er næg raforka. Það mun vera á nokkrum stöðum, þó tiltölulega fáum, sem þetta er tilfellið. Yfirgnæfandi meiri hluti fólksins, fyrst og fremst þeir, sem eru á svæði Sogsvirkjunarinnar og Laxárvirkjunarinnar, verður nú að horfa fram á vaxandi skort á raforku, en vitanlega kemur skorturinn á raftækjum tilfinnanlegast niður þar, sem enn er nægilegt rafmagn fyrir hendi.

Ég vil undirstrika það, sem hv. þm. sagði, að það er ákaflega æskilegt, að hægt sé að fullnægja sem allra mest eftirspurn eftir öllum raftækjum. En ég vil aðeins varpa fram þeirri spurningu fyrir n., sem fær þetta mál, hvort okkar þjóðarbúskapur muni þola að fá á ári meira af þessum tækjum en fyrir 6 millj. kr., eins og líkur eru til, að komi inn til landsins á þessu ári. Það getur verið, að það sé of lítið, en ég hygg, að það orki þó tvímælis, hvort ekki séu aðrar þarfir brýnni, en ef auka ætti þennan innflutning mikið upp úr 6 millj. kr. Ég vil láta þetta koma fram og tel, að fyrirspurnum hv. þm. Borgf. sé þar með svarað.