24.11.1949
Sameinað þing: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (3569)

2. mál, heimilistæki

Jóhann Hafstein:

Ég held, að það hefði verið miklu viðkunnanlegra og meira í samræmi við venjur á Alþ.,hv. fyrri flm. brtt. hefði beðið liðs hjá hv. flm. aðaltill., heldur en að vera með skæting, áður en komið hefur fram neitt hjá hv. flm. þáltill. gegn því, sem brtt. fjallar um. Þessi þáltill. og brtt. við hana verða athugaðar í n. — Hitt er staðreynd, að áður hafa komið fram raddir hér á Alþ. og þó miklu meir á opinberum vettvangi utan þings um þá miklu þörf, sem er fyrir hendi um aukinn innflutning á þeim tækjum, sem hv. flm. talar um í þáltill. sinni, og meira um þörf á auknum innflutningi á þeim hlutum heldur en hinum, sem nefndir eru í brtt. Það getur verið, að það sé ekki síður þörf á auknum innflutningi á þeim. En n., sem málið fer til, getur rannsakað það atriði og tekið afstöðu til þess.

Í ræðu hæstv. samgmrh. komu fram ýmsar upplýsingar, sem er gott fyrir þm. að fá og sérstaklega þá n., sem fjalla mun um málið. Nokkur atriði í ræðu hæstv. ráðh. finnst mér ástæða til að n. hafi í huga. Í fyrsta lagi virtist, eftir hans ræðu, að honum fyndist nóg að gert í þessum málum um innflutning og framleiðslu á þessum heimilistækjum, og endurtók hann í ræðu sinni þó, að það ætti langt í land, viðkomandi sumum flokkum þessara áhalda, að þörfinni fyrir þau væri fullnægt. Það má segja í þessu sambandi, þó að hægt sé að tefla fram tölum eins og hæstv. ráðh. gerði, að sjón er sögu ríkari. Hvar er hægt að sjá þessi tæki, sem inn hafa verið flutt? Menn hafa þess engan kost að kaupa þessi heimilistæki eins og aðra verzlunarvöru á frjálsum markaði, enda þótt útstillt sjáist þvottavélar, strauvélar, hrærivélar og annað slíkt í fallegum búðargluggum. Maður getur ekki fengið þessa hluti keypta þrátt fyrir það, heldur eru þessi áhöld vinningar í happdrætti. Og auk þess heyrir maður um, að Pétur eða Páll hafi fengið þessar vörur með einhverjum hætti, án þess að hægt sé að ganga í búðir og fá þessar vörur, sem svo mikil eftirspurn er eftir.

Ef hæstv. samgmrh. heldur, að þessi till. miði að því, að breytt verði um stefnu í þessum málum, sem tekin var á síðasta Alþ. um að framleiða þessi tæki sem mest hér á landi, þá vil ég taka fram, að ég hef ekki verið þeirrar skoðunar, að þar ætti að breyta um stefnu, því að í till. segir: „Verði innflutningsmagn þessara tækja miðað við að fullnægja eftirspurninni.“ Og hef ég litið svo á, að þetta fæli í sér, að innflutningsyfirvöldin við uppfylling þessara tilmæla hefðu yfirlit yfir það, hve mikið væri framleitt af þessum tækjum innanlands, og ákvæðu með hliðsjón af því, hve mikið skyldi flytja inn af þeim. Og ég geri ráð fyrir, að það vaki líka fyrir hv. flm., að fullnægt sé þannig eftirspurninni eftir þessum heimilisáhöldum, að þar sé tekin með í reikninginn framleiðslan á þeim innanlands. Og ég hygg, að með þessari till. sé ekki meint að breyta um stefnu í sambandi við framleiðslu á þessum tækjum innanlands. Hins vegar er það svo um sumt af þessum tækjum, að ekki er líklegt, að framleiðsla á þeim innanlands verði í svo ríkum mæli sem æskilegt væri og eftirspurnin segir til um.

Ég kem svo að lokum að atriði, sem ekki skiptir litlu máli. Hæstv. samgmrh. vildi láta í það skína, að sums staðar væri svo mikið álag á rafmagnsframleiðslu rafveitnanna, að ekki mætti þar við bæta, og innflutningur á rafmagnstækjum, m. a. til heimilisnota eins og hér um ræðir, mundi setja þær rafveitur í enn meiri þrot, þar sem álagið væri þegar um of, og sérstaklega talaði hann í því sambandi um Reykjavík. Það getur verið, að mönnum finnist nokkuð í þessu við fyrstu sýn. En álagið á rafveiturnar, þar sem það er að sliga þær, eins og fyrst og fremst í Reykjavík, það er með þeim hætti, að það er mest á vissum tímum að deginum, um hádegið og á kvöldin, þegar verið er að sjóða mat, og hefur Reykjavík langstærstan álagstopp um hádegið. En á þessum tímum, sem ég nefndi, mundu langfæst þessara tækja, sem í till. greinir, vera í notkun, og hægt væri að koma í veg fyrir notkun þeirra á þeim tímum. Og eftir eðli málsins mundu þessi heimilistæki, sem um getur í þáltill., vera sízt notuð á þeim tímum. Fyrst og fremst mundu eldavélar auka þennan álagstopp, og um framleiðslu þeirra og innflutning hefur þó gengið miklu skaplegar heldur en um önnur rafmagnstæki til heimilisnota, sem hér í till. er um að ræða. Hitt mundi a. m. k. í flestum tilfellum vera undantekningar, að á heimilum væru þvottavélar, straujárn, ryksugur og þvottapottar notað á sama tíma og matur er soðinn um hádegið og á kvöldin. Þess vegna held ég, að ekki þurfi að óttast þetta atriði. En sum af þessum tækjum mundu beinlínis geta stuðlað að því að draga úr þeim vandræðum, sem stafa af hinum mikla álagstoppi um hádegið og þegar matur er tilbúinn á kvöldin, þ. e. a. s., ef aukinn væri innflutningur á hraðsuðupottum, sem má sjóða mat í á tvisvar til þrisvar sinnum styttri tíma með sömu raforku heldur en með þeim tækjum, sem notuð hafa verið mest til þeirra hluta. Og aukning á notkun hraðsuðupotta í nægilega ríkum mæli mundi geta orðið til þess að létta erfiðleikum af t. d. Sogsvirkjuninni, svo og öðrum rafveitum hér, þann tíma, sem fram undan er, þangað til fyrirhuguð Sogsvirkjun mun koma til framkvæmda og afnota.