19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

2. mál, heimilistæki

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Borgf. vil ég taka fram, að ég býst við, að n. líti ekki þannig á, að banna beri innflutning á þeim tækjum, sem hér er um að ræða, heldur skuli að því stuðlað, að framleiðsla aukist á þeim í landinu sem fyrst.

Það leiðir af sjálfu sér, að ef efnið er ¼ af kostnaði vélanna fullgerðra, þá er ekkert vit í að flytja þær inn fullsmíðaðar, ef unnt er að gera það í landinu sjálfu. Og þegar við höfum ekki gjaldeyri nema takmarkaðan, þá veit ég, að hv. þm. Borgf. er það forsjáll og svo mikill ráðdeildarmaður, að hann sér, að það borgar sig illa að flytja inn vél fyrir 1000 kr., ef unnt er að fá efnið til hennar fyrir 250 kr. og framleiða hana jafnódýra og góða í landinu sjálfu. Þá skal ég upplýsa, að það eru möguleikar hér til að framleiða flestar þessar vélar, þvottavélarnar t. d. Ég veit um eitt fyrirtæki, sem hefur boðizt til að smíða 1.000 þvottavélar og sótt um leyfi fyrir efni, en ekki fengið. Rafha hefur einnig í undirbúningi að fara að smíða þvottavélar í stórum stíl, og sú verksmiðja þarf að stækka, og við eigum að stuðla að því og láta okkur ekki til hugar koma að flytja inn þessar vélar, ef möguleikar eru á að framleiða þær innanlands.

Þetta þarf ég ekki að rökræða meira. Allshn. hefur ekki tekið neitt fram um það, að banna eigi innflutning á þessum vélum, og ég svara ekki fyrir n., þegar ég segi það fyrir mig, að það á að banna þennan innflutning og framleiða tækin í landinu sjálfu.