19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3584)

2. mál, heimilistæki

Erlendur Þorsteinsson:

Vegna fsp. frá hv. þm. V-Húnv. vil ég taka það fram, að við höfðum gert ráð fyrir, að tæplega yrði um svo mikinn innflutning að ræða, að Innkaupastofnun ríkisins gæti ekki úthlutað tækjunum til notenda, og mundi þá hafa samvinnu við bandalög kvenna og húsmæður. Ættu þá þessi 3% að nægja. Ég veit um, að sagt er, að Innkaupastofnuninni hafi verið falin úthlutun ísskápa. En hitt er rétt, að sé gert ráð fyrir því, að hún afgreiði heimilisvélarnar til verzlana, þá yrðu þær að fá eitthvað fyrir fyrirhöfn sína. Á hinn bóginn teljum við tæplega verða um svo mikið innflutningsmagn að ræða, að það sé ráðlegt.