30.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (3586)

2. mál, heimilistæki

Gísli Jónsson:

Ég tek undir það, að umr. verði frestað, eins og hæstv. ráðh. lagði til. En ég vildi, að málið gengi aftur til n. til að fá upplýst frá hv. fyrri flm. brtt. á þskj. 104, hvort eigi mætti bæta við, að Innkaupastofnun ríkisins skuli einnig falinn innflutningur á öllu því efni, sem þarf til framleiðslu heimilisvéla. Það mundi muna eigi alllitlu, ef allt væri flutt inn gegnum sömu stofnun. Vil ég, að form. n. hafi þetta til athugunar. Þá vil ég og spyrja hv. flm., hvort þeir hafi athugað, hvort menn þeir, sem hafa umboð tækjanna á hendi, fengju ekki umboðslaun sín greidd eftir sem áður, og hver þau séu. Þá vil ég og fá upplýst um leið, hvort lagt verði á, áður en vélarnar eru komnar inn. Annars er ég hissa á því, að 25–30% hafa verið lagðar á vöru, þegar hægt er að leggja aðeins 3% á hana. Þetta er óefnilegt, ef fyrrv. viðskmrh. hefur verið þess vitandi, að flokksbróðir hans sem forstjóri Innkaupastofnunarinnar gæti flutt vélarnar inn með 3% álagningu að skaðlausu. Þetta vildi ég fá upplýst. — Ef lögð verða á þessi 3%, mun ekki ætlazt til, að ríkissjóður fari að leggja á vöruna. Ég tel þetta nægilega álagningu.

Allt þetta væri æskilegt að fá vitneskju um, þegar málið er aftur komið til n.