01.03.1950
Sameinað þing: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3598)

124. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Við Sjálfstæðismenn hefðum auðvitað kosið, að formaður okkar, forsrh. núverandi ríkisstj., Ólafur Thors, hefði af okkar hálfu haldið uppi svörum í umræðum um tillögu þá, er hér liggur fyrir. En hann er og hefur undanfarna daga verið veikur af inflúenzu og getur þess vegna eigi tekið þátt í umræðum nú. Hins vegar er því haldið fram, að dráttur á afgreiðslu þeirrar vantrauststill., sem fram er komin, muni seinka meðferð frv. ríkisstj. um lausn dýrtíðarmálanna. — Sjálfstfl. telur höfuðnauðsyn, að frv. sé hraðað, og hefur því sætt sig við afgreiðslu till. nú þegar, og hef ég þess vegna tekið að mér að mæla hér í formannsins stað.

Þar sem mönnum skilst, að vantrauststill. sé ekki flutt út af efni þess mikla máls, sem nú liggur fyrir Alþ., heldur meðferð ríkisstj. á því, tel ég nauðsyn bera til að gera grein fyrir vinnubrögðum sjálfstæðismanna í þessum efnum undanfarið.

Óhætt er að segja, að um engin mál hafi á seinni árum verið meira rætt og ritað eða fleiri samþykktir gerðar, en dýrtíðarmálið. Auðvitað hefur margt af því, sem um þessi mál hefur verið sagt, verið skynsamlegt. Fræðimenn hafa og skrifað um sérstaka þætti málsins, og ber þar einkum að nefna margar glöggar og greinagóðar ritgerðir eftir prófessor Ólaf Björnsson. En það getur engum dulizt, að yfirleitt hefur mjög skort á heildarsýn yfir úrlausnarefnið, eðli þess og þau úrræði, er dygðu.

Hjá öllum þorra manna og þ. á m. þeim, er ætla hefði mátt, að betur vissu, hefur þess mjög gætt, að auðvelt ætti að vera að leysa þennan vanda með einhverri dularfullri reikningsþraut. Hafa menn þá oftast talað um, að allt þyrfti að lækka og allsherjar niðurfærsla að eiga sér stað. Hafa menn þá ráðgert, að þetta þyrfti lítið að koma við hvern og einn eða a. m. k. virðist hver þjóðfélagshópur hafa hugsað sér, að þessi reikningsþraut yrði leyst á þann veg, að lítt eða ekki bitnaði á honum sjálfum. Hitt gerði minna til, þótt aðrir yrðu einhverjar byrðar að bera.

Í athöfnum stjórnarvaldanna hefur þessa sama óskýrleika gætt. Á Alþ. og í ríkisstj. hafa menn að vísu gert sér þess grein, að einungis væri um fáar leiðir út úr ógöngunum að ræða, en menn hafa ekki getað gert hug sinn upp um það, hver væri líklegust til að leiða þá að markinu, og heldur ekki kunnað full skil á forsendum farsællar lausnar og hvert samband þyrfti að vera á milli einstakra ráðstafana, svo að líklegt væri, að við vandann yrði ráðið.

Af þessum sökum hefur verið gripið til sundurlausra neyðarúrræða, svo að forðað yrði frá bráðum voða, eins og þegar ábyrgð var tekin á fiskverði fyrir bátaflotann í árslok 1946 til að koma í veg fyrir stöðvun hans. Frá þessu bráðabirgða neyðarúrræði hafa menn síðan ekki treyst sér til að hverfa, heldur ekki í desember 1947, þegar þó var gerð alvarleg tilraun með setningu dýrtíðarlaganna til þess a. m. k. að draga úr stöðugum vexti verðbólgunnar. Segja mátti, að sú tilraun tækist fyrst um sinn. En hvorki var hún sjálf næg til varanlegrar lækningar meinsemdinni né var þess gætt að gera aðrar ráðstafanir, sem samtímis hefði þurft að gera, ef stöðva hefði átt vöxt verðbólgunnar til frambúðar. Allar þessar ráðstafanir hafa sem sagt verið meira og minna handahófskenndar, en þó raunar sameiginlega verið með því marki brenndar, að ætið hefur verið aukið ósjálfstæði atvinnulífsins, ríkisafskipti mögnuð og borgararnir meira og meira verið neyddir til að lúta forsjá nefndavalds hins sívaxandi ríkisbákns.

Afleiðingin af öllu þessu er svo sú, að vandinn hefur vaxið, og hefur lengi verið auðsætt, að róttækari aðgerða þyrfti við og annars eðlis en áður, ef eigi ætti að stefna út í algert öngþveiti, atvinnuleysi, örbirgð og raunar upplausn á hinu íslenzka þjóðfélagi.

Auðvitað höfum við, sem borið höfum ábyrgð á stjórn ríkisins, viljað leita sem skynsamlegastrar úrlausnar á þessum mikla vanda. Því var það, að er ég í fyrra var staddur vestan hafs, leitaði ég samtals við dr. Benjamín Eiríksson, sem ótvírætt er lærðastur af íslenzkum hagfræðingum og hefur auk þess mikilsverða reynslu í lausn slíkra mála sem einn af hagfræðilegum ráðunautum alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég fann fljótlega, að dr. Benjamín hafði betri yfirsýn um þessi málefni en aðrir, er ég hafði rætt þau við. Leyndi sér ekki, að hann kunni þá þegar glögg skil á öllum þeim fjárhagslegu fyrirbærum, sem hér var um að ræða, samhengi þeirra og afleiðingum, þótt hann væri þá vegna langrar fjarvistar sinnar ókunnugur sumum einstökum atriðum vandamálsins hér á landi.

Að athuguðu máli lögðum við sjálfstæðismennirnir í þáverandi ríkisstj. síðan til á síðastliðnu vori, að dr. Benjamín yrði fenginn hingað til lands til að semja grg. um þessi efni og hver úrræði mættu helzt að gagni verða. Ríkisstj. samþykkti þetta, og kom dr. Benjamín síðan hingað snemma sumars 1949 og vann hér kappsamlega að því verkefni, sem honum var fengið, og samdi um það mikla grg., sem lögð var fyrir ríkisstj.

Það er enginn vafi á því, að eftir þessa fræðilegu athugun lá málið miklu ljósar fyrir en áður. Vantaði þó enn á fullnægjandi rannsókn nokkurra atriða, einkanlega samanburð á þeim úrræðum, sem beita mátti til lækningar vandanum. Hins vegar var í grg. bent á nokkur atriði, sem fullnægja varð, til að hin eiginlega læknisaðgerð, hver sem hún yrði að öðru leyti, kæmi að gagni, og ber þar einkum til að nefna raunverulega greiðsluhallalausan ríkisbúskap og honum samræmda útlánastarfsemi bankanna til að koma í veg fyrir frekari verðbólgu.

Á meðan á þessari fræðilegu athugun stóð, kom Framsfl. fram með tillögur, sem talsmenn hans sögðu vera lausn á þeim vandamálum, er við var að etja. Við íhugun þeirra till. varð hins vegar brátt ljóst, að þær snertu aðeins útkanta eða aukaatriði sjálfs vandamálsins. Um það sjálft var ekkert annað sagt að efni til en að það þyrfti að leysa með einhverjum þeim úrræðum, sem fyrir hendi væru. Voru menn í sjálfu sér litlu nær, þrátt fyrir þá yfirlýsingu. Lausn málsins varð ekki auðveldari við það eitt að segja, að hana þyrfti að finna, en segjast jafnframt ætla að tengja framgang hennar við ýmis önnur með öllu óskyld atriði.

Þegar framsóknarmenn settu samþykkt þessara till. sinna sem skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarfi á s. l. sumri, þótti okkur sjálfstæðismönnum þess vegna, að þar væri mjög skotið fram hjá markinu. Sjálfstæðismenn töldu þvert á móti eðlilegra að leggja hina fræðilegu grg. til grundvallar frambúðarlausn málsins. Er því og ekki að leyna, að í grg. þessari var um margt sannað réttmæti þeirra skoðana. sem sjálfstæðismenn hafa haldið fram í þjóðmálunum. Rannsókn málsins leiddi meðal annars í ljós, að ein af höfuðorsökum meinsemdanna væri haftastefna undanfarinna ára. Í grg. kom glögglega fram, að höftin, sem sett hafa verið til að draga úr hættunni á jafnvægisleysi í efnahagsmálum þjóðarinnar, hljóta sjálf að leiða til vaxandi hættu á jafnvægisleysi, verðbólgu og annars ófarnaðar, ef þau standa lengi. Þess vegna er á það bent, að eitt af frumskilyrðunum fyrir heilbrigðu atvinnulífi sé frjáls verzlun. Að henni beri að stefna, enda sé unnt að koma henni á, jafnskjótt sem sæmilegu jafnvægi hefur verið náð.

Í svari sínu við tillögum framsóknarmanna sögðu ráðherrar Sjálfstfl. þess vegna í grg., dags. 9. ágúst s. l., m. a. á þessa leið:

„Fulltrúar Sjálfstfl. í ríkisstjórn hafa ætið lagt á það höfuðáherzlu, að atvinnu- og fjárhagsmálunum yrði komið í heilbrigt horf, og hefur að frumkvæði þeirra meðal annars verið leitazt við að fá málin sem bezt upplýst og skýrgreind. En vitað er, að frambúðaraðgerðir í þessum efnum þurfa alllangan aðdraganda, og telur flokkurinn það líklegast til árangurs, að ríkisstj. geri þegar þær ráðstafanir, sem í hennar valdi eru, til að koma góðri skipan á í þessum efnum, enda verður að hafa þann hátt á, ef menn vilja stöðva vöxt dýrtíðarinnar, hvort sem þeir síðan vilja stefna að því, að atvinnuvegirnir standi undir sér sjálfir eða þeim sé haldið uppi með styrkjum. Ber þar fyrst að telja samræmingu á útlánastarfsemi peningastofnana landsmanna og tryggingu fyrir, að fjárlög verði raunverulega greiðsluhallalaus, eins og fjmrh. hefur lagt megináherzlu á. Að svo miklu leyti sem því hefur ekki verið náð með fjárlögum þessa árs, þarf undirbúning til betri fjárlagaafgreiðslu fyrir næsta ár.

Sjálfstfl. telur þess vegna auðsætt, að ef mögulegt á að verða að greiða fyrir lausn þessara vandamála nú, verði ríkisstj. að undirbúa þau sem bezt með aðgerðum sjálfrar sin og á þann veg, að þau liggi ljóst fyrir, þegar Alþingi kemur saman.“

Svo mörg voru þau orð.

Ég er enn í dag sannfærður um, að ef þessi háttur hefði verið hafður, mundi auðveldar hafa reynzt um lausn þessara mála en enn hefur orðið a. m. k. Þá mundi fyrrverandi ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa getað haldið áfram rólegri íhugun þessara mála og haft tillögur að frambúðarlausn til á hæfilegum tíma í vetur. Því miður tókst það ekki. Framsfl. vildi hafa annan hátt á og setti till. sínar um aukaatriði málsins á oddinn. Það leiddi til þess, að samstarf þáverandi stjórnarflokka rofnaði, en af því spratt aftur, að Alþfl. leiddist til þess að gefa hinar óvarfærnu yfirlýsingar sinar um andstöðu gegn gengislækkun. Og einmitt sú staðreynd, að Alþfl. sjálfur neyddist í miðri kosningahríðinni til þess að eiga hlut að bráðabirgðal. til að lækka gengi krónunnar miðað við gull stórlega, frá því sem áður var, hefur orðið til þess, að hann telur sér enn erfiðara en ella að taka þátt í skynsamlegri lausn vandamálsins nú. Og getur flokkurinn þó ekki bent á neina aðra lausn en þá, sem fram er borin, sem til alvarlegrar umræðu komi, hvað þá meira.

En þó að ofurkapp Framsfl. í baráttu fyrir aukaatriðum yrði til þess að hrinda Alþfl. af réttri leið, kom auðvitað ekkert slíkt til greina um Sjálfstfl. Sjálfstæðismenn létu ekki trufla sig í því, sem þeir töldu rétt. Í kosningaávarpi sínu sagði Sjálfstfl. svo:

„Flokkurinn telur, að ekki megi dragast, að ráðstafanir séu gerðar til þess, að atvinnuvegirnir geti starfað styrkjalaust í sæmilegu árferði og með skaplegum aflabrögðum, og þannig verði greitt fyrir því, að hin miklu nýsköpunartæki verði starfrækt svo, að allir landsmenn geti haft fulla vinnu við eðlilega starfrækslu atvinnuveganna.

Því markmiði, að koma á þennan veg jafnvægi á þjóðarbúskapinn, verður ekki náð nema með margháttuðum samfelldum aðgerðum, og vill flokkurinn um framkvæmd þeirra byggja á grundvelli sérfræðilegrar athugunar og hafa samráð við fulltrúa stéttanna.

Hallalaus búskapur ríkissjóðs og honum samræmd starfsemi lánsstofnana landsmanna eru grundvallaratriði þeirra aðgerða, sem framkvæma verður.

Verðlag og framleiðslukostnaður í landinu verður að samræmast markaðsverði útflutningsafurðanna í viðskiptalöndunum.

Mikilvægur þáttur í því að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum er að gera verzlunina frjálsa, og verður að gera það sem fyrst, þótt það geti ekki orðið til fulls, fyrr en fullkomið jafnvægi er fengið, enda mun svartur markaður og margs konar óheilbrigði í verzlunarháttum ekki hverfa, fyrr en þessu marki er náð.“

Enn segir:

„Framkvæmd allra þessara mála er að sjálfsögðu mjög undir því komin, hvert kjörfylgi flokkurinn fær. Þingmönnum hans hefur stundum verið legið á hálsi fyrir, að þeir hafi ekki getað komið fram svo miklu af stefnumálum flokksins sem skyldi. En því miður hefur flokkurinn ekki haft meiri hluta á Alþingi undanfarandi ár, og meðan svo er, þá er jafnframt undir aðra að sækja um það, hvað af stefnumálum flokksins nær fram að ganga.“ — - „Sjálfstfl. beinir þeirri eindregnu áskorun til íslenzkra kjósenda, að þeir fylki sér um frambjóðendur flokksins og skapi á Alþingi þann meiri hluta sjálfstæðismanna, er einn megnar að mynda þá festu og öryggi í stjórn landsins, sem þjóðinni er nú brýn þörf á.“

Því miður varð þjóðin ekki við þessari áskorun flokksins. Hann hélt að vísu fylgi sínu, en verulega skorti á, að hann hefði meiri hluta með þjóðinni, og enn meira, að hann hefði meiri hluta á Alþ.

Stóð og ekki á, að svo færi sem sjálfstæðismenn höfðu sagt fyrir, ef þeir fengju eigi hreinan meiri hluta. Sundrungin varð öllu ráðandi á Alþingi Íslendinga. Ekki var það samt Sjálfstfl. að kenna, að svo fór.

Hann gerði á s. l. hausti það, sem í hans valdi stóð til að mynduð yrði meirihlutastjórn lýðræðisflokkanna. Það tókst ekki.

Varð þá úr, að Sjálfstfl. gerði sitt til að bæta úr afleiðingum sundrungarinnar og myndaði einn ríkisstj.

Þegar sú stjórn tók við völdum 6. des. s. l., lýsti forsrh. Ólafur Thors yfir því, að ríkisstj. mundi í fyrsta lagi vinna að því, að útgerðin þyrfti ekki að stöðvast þá um áramótin. Í öðru lagi mundi hún hefja undirbúning lausnar, sem varanlegri gæti orðið á öllum þessum vandamálum efnahags- og atvinnulífs, og leggja hana síðan fyrir Alþingi. Í þriðja lagi lýsti forsrh. yfir því, að sú skoðun Sjálfstfl. væri óbreytt, að úr því honum tókst ekki að ná þinglegum meiri hluta við kosningarnar, þá væri farsælast að koma á sem víðtækustu samstarfi milli lýðræðisflokkanna um stjórn landsins og löggjöf. Loks tók hann það sérstaklega fram, að slíkt samstarf væri á engan hátt háð forsæti sínu eða þátttöku í væntanlegri ríkisstjórn.

Að öllu þessu hefur ríkisstj. síðan unnið. Henni tókst að koma í veg fyrir stöðvun útvegsins um áramótin. Frv. ríkisstj. um þau efni var að vísu nokkuð skemmt í meðförum Alþingis. Það þarf þó ekki að koma að sök, ef nú verða samþ. þær tillögur um frambúðarlausn dýrtíðarmálanna, er stjórnin lagði fyrir Alþingi s. l. laugardag, þ. e. hinn 25. febr.

Undirbúning þessara tillagna lét stjórnin þegar hefja, er hún hafði tekið við völdum. Hún fékk þá dr. Benjamín Eiríksson til að koma aftur til landsins til að halda áfram því verki, sem hann hafði lagt svo myndarlegan grundvöll að á s. l. sumri. Til samstarfs við hann fékk hún prófessor Ólaf Björnsson, þann hagfræðing íslenzkan, sem starfað hefur hér á landi, sem einna lærðastan og færastan má telja í sinni grein og skynsamlegastar ritgerðir hafði áður skrifað um einstaka þætti dýrtíðarmálsins.

Þessir menn hafa síðan ötullega unnið að undirbúningi og samningu tillagna þeirra, er nú liggja fyrir. Um þetta hafa þeir auðvitað haft náið samstarf við ríkisstj. og þá einkum forsrh. Till. þær, sem nú eru fram lagðar, eru þess vegna ávöxtur af samstarfi ríkisstj. og tveggja hinna hæfustu sérfræðinga, sem völ var á. Er þó ekki launungarmál, að fáir munu þeir íslenzkir hagfræðingar vera eða engir, sem treysta sér til að vefengja niðurstöður þessara sérfræðinga ríkisstjórnarinnar.

Því miður vinnst ekki tími til þess í kvöld að gera grein fyrir þessum till., enda eru þær út af fyrir sig ekki til umræðu, heldur vantrauststillagan, sem flutt hefur verið. Hún virðist ekki byggjast á andstöðu við þær, heldur á gagnrýni á starfsháttum ríkisstj., og þess vegna hef ég kosið að gera svo ýtarlega grein fyrir öllum undirbúningi málsins frá fyrstu byrjun.

En þótt till. sjálfar séu ekki beinlínis til umræðu, tel ég þó rétt að gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum, því að á þeim veltur nú mest um örlög íslenzku þjóðarinnar, og framtíðardómurinn yfir starfi núverandi stjórnar hlýtur að byggjast á því, hvernig henni hafi til tekizt um efni og smíði þessara tillagna.

Það verk, sem óunnið var til undirbúnings lausnar á vandamálum verðbólgunnar, er núverandi ríkisstj. tók við, var fyrst og fremst samanburður á þeim þremur höfuðúrræðum, sem til greina gátu komið, ásamt öðrum aðgerðum, er öllum skynsamlegum framkvæmdum hljóta að verða samfara og áður hefur verið drepið á sumar.

Þessar þrjár leiðir eru styrkja- og ábyrgðarleiðin, sem farin hefur verið, niðurfærslu- eða verðhjöðnunarleiðin, sem þótt ótrúlegt sé virðist á stundum hafa átt mestum vinsældum að fagna, og loksins gengislækkunarleiðin, sem ríkisstj. nú hefur gert tillögur um.

Á þessum þremur leiðum hafa þeir Benjamín Eiríksson og Ólafur Björnsson nú gert tæmandi samanburð, svo að engum getur framar blandazt hugur um, hvern kostinn eigi að velja.

Um styrkjaleiðina segja hagfræðingarnir í áliti sínu meðal annars:

,,,Aðalókostur styrkjaleiðarinnar frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð er sá, að hún leysir í raun og veru ekki vandamál útflutningsframleiðslunnar, sem berst í bökkum jafnt eftir sem áður, og á það ekki aðeins við útgerðarmenn, heldur og alla framleiðendur. Styrkjaleiðin lofar engu um bætta verzlun, sem þegar til lengdar lætur er höfuðvandamálið, og hún er heldur ekki viðunandi bráðabirgðalausn, m, a. vegna þess, að útflutningsframleiðslan mundi verða meiri við hagstæðari kringumstæður.

Reynsla undanfarinna ára sýnir augljóslega, að til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum eða jafnvel til þess aðeins að halda öllu í horfinu er styrkjaleiðin ekki fær. Hún skapar ekki nein skilyrði til þess, að hægt verði að stöðva dýrtíðina, koma jafnvægi á þjóðarbúskapinn og þá um leið jafnvægi á við útlönd og létta höftunum af verzluninni. Styrkjaleiðin gefur ekkert loforð um betra í framtíðinni. Hana skortir allt það jákvæða, sem fylgir gengislækkunarleiðinni eða niðurfærslunni. Af þessum þremur leiðum er sú leið, sem nú er farin, minnst æskileg og er í rauninni ekki lengur framkvæmanleg vegna þess, hve ósamræmið milli innlends og erlends verðlags er orðið mikið. Það er engum vafa undirorpið, að verði styrkjaleiðin enn farin, mun að ári liðnu koma í ljós þörf fyrir stórauknar tekjur ríkissjóði til handa.“

Þennan dóm hygg ég að enginn kunnugur maður geti vefengt. Þá eru eftir tvær leiðir, niðurfærsla eða verðhjöðnun og gengislækkun. Um þær segja hagfræðingarnir:

„Niðurstöður okkar um samanburð á verðhjöðnun og gengislækkun eru þessar: Verðhjöðnun, sem næði sama árangri og gengislækkun, mundi í bili leggja miklu þyngri byrðar á herðar launafólks en gengislækkunin og mundi taka miklu lengri tíma að ná tilætluðum áhrifum. Verðhjöðnunin mundi á sama hátt og gengislækkunin skapa skilyrði fyrir frjálsari verzlun, og mundi þá sú kjaraskerðing, sem launþegarnir, aðrir en sjómenn, verða fyrir í bili, að vísu bætast upp, þegar fram liðu stundir. En eftir fenginni reynslu er ekki líklegt, að samtök launþeganna mundu sætta sig við það að bíða þeirra áhrifa, heldur leitast áður við að velta byrðum verðhjöðnunarinnar af sér með nýjum kauphækkunum, sem um leið mundi gera ráðstafanirnar óframkvæmanlegar.

Þar sem verðhjöðnun, sem að gagni kæmi, mundi einnig skapa mikla örðugleika í sambandi við öll skuldaviðskipti, þannig að annaðhvort mundi af henni leiða mjög víðtæk gjaldþrot bæjarfélaga, fyrirtækja, einstaklinga og jafnvel lánsstofnana, eða stofna yrði til mjög almennra skuldaskila, þar sem skuldir og peningaeignir yrðu færðar niður til samræmis við lækkun verðlags, virðist auðsætt, að til þess að ná því jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem æskilegt er, þá er verðhjöðnunarleiðin til mikilla muna torfærari, en gengislækkunarleiðin. Tregðan í öllum verðbreytingum gerir hana einnig miklu seinvirkari en gengislækkunina. Á hinn bóginn verður ekki komið auga á neina þýðingarmikla kosti, sem hún hafi fram yfir gengislækkunarleiðina, sem réttlæti það, að hún sé fremur valin. Að vísu hafa verið uppi nokkrar raddir um það, að verðhjöðnun væri hin eina „heilbrigða“ lausn á fjárhagsvandamálunum, en til grundvallar slíkum skoðunum virðist fyrst og fremst liggja það, að menn hafa ekki kynnt sér nægilega alla málavexti.“

Slíkur er dómur hinna færustu manna. Undir hann hljóta allir, sem forsendurnar kynna sér, að taka.

Á það skal engin dul dregin, að gengislækkun er auðvitað neyðarúrræði. Úr því sem komið er, er enginn kostur góður, og gengislækkunin er þó áreiðanlega bezt. Hún er nauðsynleg fyrir allar stéttir þjóðfélagsins. En engir eiga þó meira undir, að hún hafi tilætluð áhrif, en verkamenn og aðrir launþegar. Ella blasir ekkert annað við, en hrun atvinnuveganna, atvinnuleysi og örbirgð.

Í áróðrinum gegn gengislækkun hefur fram að þessu því verið haldið fram, að henni mundi verða samfara kaupbinding og svipting samtaka launþega á samningsrétti þeirra. Ekkert slíkt felst í þeim tillögum, er ríkisstj. nú gerir.

Verkalýðssamtökin halda enn samningsrétti sínum. Verkföll eru heimil eftir sem áður. Vísitölubindingin, sem gerð var með dýrtíðarlögunum 1947, verður meira að segja felld úr gildi. Að því leyti er hér um beina réttarbót að ræða fyrir launþega frá því, sem verið hefur. Þeir eiga að fá fullar uppbætur samkvæmt hækkun vísitölunnar þann tíma, sem gera má ráð fyrir að líði, þangað til fullu jafnvægi verði náð. Eru um þetta settar sérstakar reglur. Ef einhverjir telja á sig hallað með þessu, er þeim eftir sem áður heimilt að gera verkfall. Hér er því ekki um neina kaupkúgun eða þrælkunarlög að ræða. Hitt er annað mál, að forsenda þess, að tilraun þessi takist, er, að almenningur vilji una henni og styðja að framgangi hennar. Það er einmitt vegna þess, að ríkisstj. gerir sér þetta ljóst, að almenningur hefur þetta í hendi sér og á reyndar sjálfur mest undir því, hvernig til tekst, að skírskotað er til ábyrgðartilfinningar hvers og eins, í stað þess að grípa til lögþvingunar, sem engar líkur eru til að ná mundi tilætluðum árangri.

Ríkisstj. er ljóst, að frá fræðilegu sjónarmiði er sú gagnrýni réttmætust á tillögum hennar, að þessar uppbætur launþegunum til handa munu leiða til nýrrar verðbólgu. En hagfræðingarnir gera ýtarlega grein fyrir, að svo þurfi ekki að fara ef launþegarnir vilja við þessar uppbætur una, enda sýnir reynslan frá 1939, þegar gengi íslenzku krónunnar var lækkað um 18%, að eftir 3 mánuði hafði verðlagið aðeins stigið um 2,1%. Hitt er annað mál, að engar tillögur, hversu góðar sem þær kunna að vera, megna að leysa vandann, ef almenningur í þessu landi vill leiða ófarnaðinn yfir sig og stefna beint út í ófæru og atvinnuleysi.

Í frv. stjórnarinnar eru ýmis ákvæði til að draga úr hættunni á óeðlilegri verðhækkun, m. a. ákvæði um tollalækkun. Þá eru þar einnig fyrirmæli til að bæta sparifjáreigendum að nokkru þann halla, sem þeir hafa orðið fyrir við verðrýrnun krónunnar á undanförnum 10 árum.

Þar eru einnig tillögur um sérstakan skatt á þeim eignum, sem ekki rýrna í verði við krónulækkunina. Er sá skattur eðlilegur, þegar af þeirri ástæðu, að ekki má gera þessum aðilum hærra undir höfði en hinum, sem fé sitt eiga í reiðu fé eða með öðru slíku móti. Einnig er ætlazt til, að þeir útflytjendur, sem ekki þurfa á gengislækkun að halda, greiði sérstakan skatt, til þess að þeir hafi ekki óeðlilegan hag af gengislækkuninni.

Þessi ákvæði og önnur fleiri er ekki unnt að rekja að sinni. En fullyrða má, að þó að eitthvað megi e. t. v. betur fara í frv. og það sé sjálfsagt ekki alfullkomið frekar en önnur mannanna verk, mun það sannast við hlutlausa athugun, að hér hefur verið ratað rétt meðalhóf, án tillits til flokka eða nokkurra annarra sérhagsmuna, enda var það eitt haft fyrir augum að finna sem réttlátasta lausn, er að gagni mætti verða.

Ríkisstj. var það auðvitað ljóst, að æskilegt var, að tryggt væri, að lýðræðisflokkarnir styddu þegar í stað að framgangi þessara tillagna, svo að þær þyrftu ekki að tefjast á Alþingi. Við kommúnista þýddi auðvitað ekki að tala um þessi efni. Allir vita, að fyrir þeim vakir það eitt að koma á upplausn og öngþveiti, og þar sem tillögurnar verka í alveg gagnstæða átt, sem sé til farsældar og heilla fyrir íslenzku þjóðina, var vitað, að kommúnistar mundu snúast öfugir gegn þeim. Annars hefðu þeir afneitað eðli sjálfra sín.

Vegna þess, að ríkisstj. bar meira traust til þjóðhollustu lýðræðisflokkanna, þá leitaði hún samstarfs við þá um framgang tillagnanna. Hún gerði það með bréfi 2. febr. s. l. Í framhaldi af því sendi hún þessum flokkum tillögurnar hinn 6. febr. s. l. og loksins greinargerðina með bréfi, dags. 16. febr. Jafnframt lét ríkisstj. uppi, að hún teldi æskilegt til tryggingar framgangi tillagnanna, og til öryggis framkvæmd þeirra síðar og vegna annarra ráðstafana, sem gera þarf til þess að þær komi að gagni, að mynduð yrði meirihlutastjórn á Alþingi.

Alþfl. hefur nú lýst því, að hann telji sig ekki geta stutt tillögurnar. Það er ekki á hann hallað, þó að sagt sé, að um þá ákvörðun mun það miklu hafa ráðið, að Alþfl. hefur óttazt að verða undir í samkeppninni við kommúnista, ef hann styddi slíkt mál sem þetta. Ég skal eigi dæma um réttmæti þessa ótta, en hitt ætla ég. að slíkir starfshættir stoði hann lítt til frambúðar, því að þótt sitthvað megi um Alþfl. segja, hygg ég, að kommúnistar muni ætið taka honum fram í því, sem til ills má horfa. Það er vissulega illt verk að snúast á móti þessum tillögum, og uggir mig, að Alþfl. verði lítill fengur að því að keppa við kommúnista í þeirri iðju. Alþfl. mun ætíð fara halloka fyrir kommúnistum í ábyrgðarlausum yfirboðum og vísvitandi skemmdarstarfi.

Um Framsfl., sem stendur að flutningi þessarar vantrauststillögu, er það að segja, að hann tjáði sig að vísu vera reiðubúinn til að ræða við Sjálfstæðisflokkinn um úrlausn vandamálanna, en að því áskildu, að ríkisstj. segði af sér áður. Hann lýsti sig og reiðubúinn til þess að ganga í stjórn með Sjálfstfl., þó að ekki væri um nein málefni samið fyrir fram. Sjálfstæðismenn eru að vísu góðviljaðir og vilja flestra vandræði leysa. Hitt þótti okkur þó gegna meira en góðu hófi að gera það fyrir bænarstað Framsóknar að segja af okkur, án þess að tryggt væri, að nokkur stjórn önnur væri mynduð eða samið væri um lausn hins mikla máls. Ekki fór Framsókn sjálf svo að 1939, undir forustu þeirra manna, sem flytja þetta vantraust, og ekki datt sjálfstæðismönnum þá í hug að fara þessa leið. Þá var samið um úrlausn mála, eftir því sem þau lágu fyrir, og samstjórn mynduð, þegar samkomulag var orðið, án þess að nokkur slík skilyrði væru sett, sem Framsókn gerði nú. En í viðskiptum flokka, sem á milli manna, er það býsna góð regla og gamalreynd, að ætlast ekki til þess af öðrum, sem maður vill ekki sjálfur af höndum inna.

Sjálfstæðismenn hefðu hins vegar út af fyrir sig getað fallizt á, að hagkvæmt kynni að vera, að mynduð væri ríkisstj., áður en samið væri um málefnið, í því skyni, að hin nýja stjórn reyndi samninga um það. En þó að þeir vildu ganga svo langt, þá töldu þeir ekki fært að gera hitt, að ganga í slíka stjórn áður en Framsfl. fengist til þess að segja nokkuð um, hver hans afstaða væri til málanna, svo að menn gætu að minnsta kosti gert sér grein fyrir, hvað á milli bæri.

Í öllum þeim löngu samningum, sem átt hafa sér stað, hefur Framsfl. aldrei fengizt til þess að segja neitt um þetta. Þess vegna taldi Sjálfstfl. ekki fært að halda þessu samningaþófi áfram, heldur óumflýjanlegt að leggja tillögur sínar fram á Alþingi, svo að því gæfist stjórnskipulegur kostur á að taka afstöðu til þeirra. Enda hefur Framsfl. nú fyrst eftir að það var gert fengizt til að ræða sjálfar tillögurnar, sem hann hafði aldrei áður gert, og hafa menn því nú nokkra hugmynd um það, sem á milli ber efnislega. Það er framför frá því, sem áður var, og er raunar furðulegt, að þessu ráði skuli hafa þurft að belta til að því yrði náð.

Hitt er eftir, að ná samkomulagi um afgreiðslu málsins. Undanförnum vikum hefði, eins og sjálfstæðismenn vildu, betur verið varið til þess að reyna að koma því á.

En hvernig sem að er farið, þá munu sjálfstæðismenn setja það öllu ofar, að koma hinu mikla máli fram. Undir því er komin farsæld og fjárhagsafkoma, atvinna og efnahagsöryggi íslenzku þjóðarinnar.