01.03.1950
Sameinað þing: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3602)

124. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég mun með þessum orðum mínum gera grein fyrir afstöðu Alþfl. til vantrauststillögu þeirrar, sem fyrir liggur. Ég tel þá rétt í upphafi að víkja nokkuð að aðdraganda til myndunar þeirrar stjórnar, sem nú situr.

Þegar úrslit síðustu alþingiskosninga urðu kunn, leiddi það óhjákvæmilega af þeim, einnig vegna þess, að ráðherrar Framsfl. höfðu tilkynnt, að þeir mundu biðjast lausnar, að ég bæðist lausnar fyrir mig sjálfan og allt ráðuneytið. Það gerði ég 2. nóv. s. l. Í viðtali, sem ég þá átti við Alþýðublaðið 3. nóv., gerði ég grein af minni hálfu fyrir þessu þannig:

„Úrslit kosninganna eru að mínu áliti skref til hægri í íslenzkum stjórnmálum. Þeir flokkar, sem töldu gengislækkun eða stórfellda niðurfærslu kaups og þar af leiðandi rýrnun á kjörum launastéttanna, ásamt minni afskiptum almannavaldsins af viðskipta- og fjárhagsmálum, vera helztu úrræðin til lausnar vandamála, unnu frekar á í kosningunum með þessari yfirlýstu stefnuskrá. Það var því hvort tveggja í senn, að þjóðin vill veita þessum flokkum aukinn stuðning, og eins hitt, að Alþfl. getur ekki að slíkri stjórnarstefnu staðið. Þá sýnist það eðlilegast og rökréttast, að þegar kjósendurnir hafa með atkvæðum sínum tekið ákvörðun um stuðning við flokka með áður nefndum sjónarmiðum, þá eigi þeir sömu flokkar að fá tækifæri til þess að framkvæma kosningastefnuskrá sína með stjórnarmyndun. Kjósendur meta síðan framkvæmdir þeirrar stjórnarstefnu, sem þeir hafa að staðið með atkvæði sínu. Alþfl. fékk ekki það brautargengi, sem hann hafði óskað og vænzt, til þess að standa gegn gengislækkun og stórfelldri kjararýrnun almennings. Hann hlýtur því að draga þá ályktun af kosningunum, að öðrum standi nær en honum að leysa vandann.“

Þannig fórust mér orð í viðtali við Alþýðublaðið 3. nóv. s. l.

Á fundi miðstjórnar Alþfl. og þingflokksins hinn 11. nóv. s. l. voru úrslit alþingiskosninganna rædd, og voru allir á einu máli um, að vegna ólíkra sjónarmiða, er hinir borgaralegu lýðræðisflokkar höfðu annars vegar og Alþfl. hins vegar varðandi dýrtíðarmálin, þá væri það réttast og eðlilegast, að Alþfl. væri hlédrægur í sambandi við stjórnarmyndun. Þá var það og einnig álit þingmanna og miðstjórnar og í samræmi við áður gefnar yfirlýsingar, að Alþfl. gæti ekkert samstarf átt, hvorki beint né óbeint, við kommúnista um ríkisstjórn.

Eins og alkunnugt er, fóru stjórnarmyndunartilraunir fram í nóvembermánuði 1949, og mun ég ekki rekja þær, en ekki tókst að mynda meirihlutastjórn, og var í þess stað horfið að myndun minnihlutaflokksstjórnar Sjálfstfl. Þessi stjórn hóf göngu sína á Alþingi 6. des. s. l. Þá gaf ég af hálfu Alþfl. yfirlýsingu um það, að flokkurinn hvorki styddi hina nýju ríkisstj. né veitti henni hlutleysi. Hins vegar mundi Alþfl. eins og áður miða afstöðu sína einungis við málefnin. Hann mundi fylgja og styðja þau mál, er til heilla horfðu, en berjast eftir mætti gegn þeim málum, er að hans dómi brytu í bága við hagsmuni almennings. Færi það svo eftir stefnu og störfum ríkisstj., hvernig viðbrögð Alþfl. yrðu.

Rétt eftir að núverandi ríkisstj. var mynduð, sendi þingflokkur kommúnista Alþfl. bréf, dags. 9. des., þar sem flokkurinn fór fram á það, að sýndur væri þá þegar vilji þingsins með því að samþ. vantrauststillögu á ríkisstj. En ef það ekki yrði gert, þá legði flokkurinn til, að slíkt vantraust yrði flutt og samþ. í byrjun janúar 1950. Þessu bréfi kommúnista sá Alþfl. enga ástæðu til að svara.

Eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar fór Framsfl. að leita hófanna um það hjá Alþfl., að hann ásamt honum samþykkti vantraust á núverandi stjórn. En þá hafði Alþfl. og Framsfl. borizt í hendur sem trúnaðarmál frv. það um gengislækkun, er lagt hefur nú verið fram á Alþingi af hálfu stjórnarinnar. Á fundi þingflokks Alþfl. 10. febr. 1950 var tekin til umræðu fyrirspurn Framsfl. um það, hvort Alþfl. vildi greiða atkvæði með vantrauststillögu á ríkisstj., sem fram yrði borin af Framsfl. þá þegar. Þingflokkur Alþfl. var á einu máli um, að það væri ekki tímabært. Á fundi Alþýðuflokksþingmanna 13. febr. s. l. var að ósk Framsfl. rætt á ný um það, hvort Alþfl. mundi greiða atkvæði með vantrauststillögu, sem Framsfl. hefði þá í hyggju að flytja. Svaraði Alþfl. á sama veg og áður. Þetta svar Alþfl. var í beinu sambandi við yfirlýsingu þá, er ég gaf við myndun ríkisstj. og ég hef hér rakið áður, og þótti flokknum það ekki viðeigandi að samþykkja að greiða atkvæði með vantrauststillögu, þegar hann hafði til athugunar sem trúnaðarmál tillögur stjórnarinnar í dýrtíðarmálunum, áður en þær væru lagðar fram á Alþingi.

Það mun hafa skeð á tímabilinu eftir miðjan síðasta mánuð, að Sjálfstfl. og Framsfl. reyndu að mynda stjórn saman með það fyrir augum að koma sér saman á eftir um lausn dýrtíðarmálanna á grundvelli þeirra tillagna, sem fyrir lágu frá ríkisstj. Talið var, að tilraunir þessar hefðu verið komnar nokkuð langt áleiðis, og útlit var fyrir, að stjórnarmyndun mundi takast. En af hverju sem það stafaði, þá slitnaði upp úr þessum samningatilraunum allskyndilega, og kann ég ekki um það að dæma með vissu, hverjar ástæður voru til þess, en nokkur skýring hefur þó fengizt í ræðum aðalflutningsmanns vantrauststillögunnar hér á undan og einnig í svari hæstvirts utanrrh. hér áðan. Mega kjósendur sjálfir um það dæma, hversu haldgóð þau rök eru, sem þeir fluttu hér, og hverjum var að kenna eða þakka, að ekki tókst sú stjórnarmyndun, sem langt var komin áleiðis.

Eftir að slitnaði upp úr tilraunum hinna tveggja borgaralegu flokka, gerðist samtímis á eftir tvennt: ríkisstjórnin lagði fram frv. um gengislækkun og forustumenn Framsfl. fluttu tillögu um vantraust á núverandi ríkisstj., sem nú liggur fyrir til umræðu.

Frv. ríkisstj. um gengislækkun og fleira var rætt við 1. umr. í neðri deild í fyrradag. Lýsti ég þá afstöðu Alþfl. til þess, og skal ég með örfáum orðum í aðalatriðum lýsa þeirri afstöðu einnig hér.

Ég undirstrikaði það fyrst og fremst, að Alþfl. hefði fram til skamms tíma viljað feta stöðvunarleiðina, eins og gert var um skeið, og það er ekki hans sök, ef sú leið kynni nú að vera lokuð. Þá benti ég í annan stað á, að Alþfl. hefði alltaf talið gengislækkun, ákvarðaða, mótaða og útfærða af andstæðingum hans, bæði hættulega og ótrygga frambúðarlausn. Í þriðja lagi tók ég fram, að Alþfl. teldi ófrávíkjanlegt í samræmi við stefnu sína og uppbyggingu, að samráð yrði haft milli hans og launastéttanna um úrræði, sem gripið væri til, og þau ein úrræði gæti Alþfl. valið, sem verkalýðshreyfingin og launastéttirnar yfirleitt gætu sætt sig við og vildu við una. Ég gat þess þá einnig, að Alþfl. hefði, eftir að hafa haft náið samráð við trúnaðarmenn flokksins í landssamtökum launastéttanna, ákveðið að vera andvígur frv. um gengislækkun. Það er víðs fjarri, sem hæstv. utanrrh., Bjarni Benediktsson, hélt fram, að það væri vegna keppni við kommúnista. Er það kannske afsakanlegt, að Sjálfstfl. skilji ekki þau sjónarmið, að nauðsyn sé, að verkalýðssamtökin séu með í ráðum og óskir þeirra og skoðanir hafi áhrif.

Ástæðan til andstöðu Alþfl. og trúnaðarmanna hans í launasamtökunum var fyrst og fremst sú, að flokkurinn telur það fullkomna staðreynd, að frv. um gengislækkun mundi skerða verulega kjör launastéttanna, einkum láglaunafólks, og viðurkenning á þessu felst jafnvel í greinargerð hagfræðinganna tveggja með frv. Það var því hægt að slá því föstu, að hér var um að ræða verulega kjaraskerðingu fyrir launafólk í landinu, og vegna þess höfðu verkalýðssamtökln, og Alþfl. var þeim sammála, ótrú á því, að þessi gengislækkunarleið skapaði framtíðaröryggi um fullkomna atvinnu og rekstur atvinnuveganna. Einnig mætti bæta því við, að byrðarnar, sem lagðar eru á herðar landsmanna, eru þyngstar og mestar að því er launastéttirnar varðar, en tiltölulega litlar, ef þá nokkrar, á efnamenn yfirleitt.

Þá hafði Alþfl. það einnig að athuga við hið fram lagða frv., að þar eru engar tilraunir gerðar, er treysta má sem varanlegum úrbótum í viðskipta- og verðlagsmálum, engin leiðrétting á hinu ömurlega ástandi í húsnæðismálum, engin leiðrétting fyrirhuguð í skattamálum, svo sem að hækka hinn of lága persónufrádrátt launafólks, engin ákvæði um tollalækkanir, er nokkru nemur, en aðeins óljósar hugleiðingar um, að til slíks kunni að draga síðar, engar tillögur gerðar um almennan sparnað í rekstri þjóðarbúsins og loks engar tillögur um betri skipulagshætti í atvinnurekstri, svo sem bátaútvegsins o. fl.

Það var bent á það af hálfu Alþfl. við umræðurnar um gengislækkunarfrv. á Alþingi, að það væri ekki flokksins sök, að ekki hefði tekizt að feta stöðvunarleiðina, eins og hann hafði lagt til og vel hafði reynzt í nágrannalöndunum, svo sem Bretlandi og á Norðurlöndum, en íslenzku borgaraflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., raunverulega alltaf verið andvígir og lítt stuðlað að því, að sú leið yrði greiðfær. Og ef Alþfl. hefði haft nægilegan styrk á Alþingi og meðal þjóðarinnar, hefði hann vissulega, eins og komið var, valið aðrar leiðir, sem þó er víst, að mikil1 meiri hluti Alþingis er nú andvígur. Alþfl. hefði fyrir sitt leyti getað talið rétt, eins og málum var komið, að þjóðin hefði tekið í eigin hendur umsjón og framkvæmd alls innflutnings og útflutnings og tekið þannig úr umferð hinn gífurlega verzlunargróða og jafnað á milli verðlags á framleiðsluvörum og innflutningsvörum.

Flokkurinn telur einnig nauðsynlegt að koma á leiðréttingu þeirra mála, er ég nefndi hér á undan, svo sem í húsnæðismálum, skattamálum. tollamálum, auka sparnað í rekstri ríkisins og koma á betra skipulagi í atvinnuvegunum, og þannig mynda nýtt, samstætt heildarkerfi til úrlausnar á aðsteðjandi vandamálum, og þá einnig, og jafnvel í fyrstu röð, áður en til annars yrði gripið, draga úr fjárfestingu og afnema hallarekstur ríkisins.

Alþfl. hefur nú þegar á Alþingi mótað afstöðu sína til þessa máls, eins og allra annarra mála, með fullkominni ábyrgð á afstöðu sinni og andstöðu við gengislækkunarfrv., og mun gera það eitt, sem hann telur heppilegast í bráð og lengd til þess að tryggja sem bezta afkomu Íslendinga. Hann hefur enga löngun til þess að skapa aukinn glundroða og upplausn, en mun að sjálfsögðu standa vel á verði gegn öllu því, sem telja má að kreppi að ófyrirsynju að kjörum manna í landinu og viðhaldi og jafnvel auki misrétti í þjóðfélaginu.

Þannig er afstaða Alþfl. til þessa fyrsta mikilsverða máls, sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi. Og í samræmi við þá yfirlýsingu, er ég gaf, er núverandi ríkisstj. settist að völdum, eru viðbrögð Alþfl. þau nú, að hann er andvígur því frv., sem nú liggur fyrir. Af því leiðir aftur það, að Alþfl. mun nú, af málefnaástæðum eingöngu, greiða atkvæði með vantrauststillögunni, sem til umræðu er.

Ég vil taka það skýrt og greinilega fram, að það er að ýmsu leyti mjög ólíkur rökstuðningur Alþfl. og Framsfl. fyrir fylgi sínu við vantrauststillöguna. Alþfl. er andvígur gengislækkunarfrv. ríkisstj., en af yfirlýsingu þeirri, er hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, gaf á Alþingi við 1. umr. um gengislækkunarfrv., má marka það, að Framsfl. er með gengislækkunarfrv. sem úrræði til lausnar vandamálunum, enda er það í samræmi við stefnuskrá Framsfl. Alþfl. er á móti því að taka þátt í stjórn til þess að koma á gengislækkun. Framsfl. vill og óskar eftir að mynda stjórn með Sjálfstfl. í því skyni að samþykkja gengislækkun.

Ég verð að játa, að vantrauststillagan er fram komin með óvenjulegum og nokkuð andhælislegum hætti. Vantrausti er af Framsfl. hálfu lýst á stjórn til þess strax á eftir að athuga um myndun ríkisstjórnar með þeim sömu mönnum, sem vantrausti er beint gegn. En þó að Alþfl. telji þannig vantraustið flutt með einkennilegum og óvenjulegum hætti, greiðir hann samt atkvæði með því, með þeim röksemdum, sem ég hef rakið og algerlega eru málefnalegs eðlis. Það er vegna andstöðu flokksins við gengislækkunarfrv. stjórnarinnar, og þá einnig og ákveðið án þess að taka á sig nokkra ábyrgð á að koma á nýrri stjórn. Þvert á móti getur Alþfl. ekki tekið þátt í stjórn til að koma á gengislækkun. En gera má ráð fyrir, að Framsfl. telji sér bæði skylt og ljúft að sjá um, að komið verði á meirihlutastjórn til þess að leysa vandamálin, sbr. og bréf það, er hv. þm. Str., Hermann Jónasson, las upp frá flokki sínum til Sjálfstfl., þar sem Framsfl. taldi nauðsynlegt, að meirihlutastjórn ákvarðaði og framkvæmdi úrlausn verðbólgumálanna, og hefur góð hugarfarsbreyting orðið frá því að hv. þm. Str., Hermann Jónasson, reyndi að mynda minnihlutastjórn.

Þá vil ég loks taka það fram, og er það í samræmi við þá ályktun, er miðstjórn og þingmenn Alþfl. gerðu hinn 11. nóv. 1949 og áður hefur verið vitnað til, að Alþfl. mun ekki eiga samstarf við kommúnista, hvorki beint né óbeint, um ríkisstjórn. Var sú afstaða flokksins skýrt mörkuð í kosningaávarpi hans, þar sem segir, að Alþfl. muni aldrei hvika frá lýðræðislegri starfsaðferð og stefnumiðum og geti því ekki átt samleið með neinum flokki, er aðhyllist einræði og ofbeldi, og því geti hann ekki átt samstarf við kommúnista.

Ég vænti þess þá, að ég hafi gert skýra og rökstudda grein fyrir afstöðu Alþfl. til vantrauststillögu þeirrar, sem fyrir liggur, og að sú afstaða flokksins sé í fullu og rökréttu samræmi við áður gerðar yfirlýsingar, stefnu hans og starfsaðferðir.