25.01.1950
Sameinað þing: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3637)

24. mál, læknisbústaður á Reykhólum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins fá orð. Þm. N-Þ. benti á, að hér væri um mjög óvenjulegt boð að ræða, og má það sannarlega til sanns vegar færa, en hann benti líka á, að samþykkt þessarar till. gæti dregið dilk á eftir sér, því að fleiri héruð mundu ef til vill óska eftir, að ríkið tæki að sér rekstur læknisbústaða. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að sum héruð eiga enga læknisbústaði enn, – og væri ekki líklegt, að þau gerðu kröfu til þess, að ríkið bæði reisti og ræki læknisbústaði, ef slíkt fordæmi væri gefið eins og með þessari till. er gert ráð fyrir? Nú skal ég ekki fara út í það á þessu stigi málsins, hvort ríkið eigi að eiga og reka læknisbústaði eða ekki, en tel hins vegar eðlilegt, að lögin um embættismannabústaði verði öll endurskoðuð, áður en slík ákvörðun væri tekin.