25.01.1950
Sameinað þing: 21. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3638)

24. mál, læknisbústaður á Reykhólum

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég fylgdi þessu máli í fjvn. vegna þess, að ég tel rétt, að ríkið eigi og reki læknisbústaði, en að því tel ég að þessi þáltill. stefni. Ég er alveg andvígur skoðun 1. þm. N-M., að leigan í læknisbústöðunum verði hærri, ef ríkið ætti bústaðina, og sömuleiðis þeirri spá hans, að erfiðara verði að fá lækna út í héruðin. Ég tel þvert á móti, að það verði miklu hægara að fá lækna út í héruðin, ef ríkið ætti og ræki þar góða læknisbústaði, sem leigðir væru með sanngjörnu verði. Það hefur verið horfið að því ráði, að ríkið byggði embættisbústaði bæði fyrir presta, héraðsdómara og hæstaréttardómara, og það virðist ekki síður sanngirniskrafa, að ríkið reisti og ræki bústaði fyrir héraðslækna.