06.03.1950
Sameinað þing: 30. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (3647)

24. mál, læknisbústaður á Reykhólum

Frsm,. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar þessum umræðum hér var frestað, varð n. við þeim tilmælum, sumpart vegna óskar hæstv. heilbrmrh. og fram kominna óska frá hv. þm., að athuga málið nánar, og senda landlækni það til umsagnar samkvæmt beiðni ráðh., en það hafði ekki verið gert. N. hefur borizt umsögn landlæknis um málið, dags. 30. jan., og tók hún þá málið aftur fyrir á fundi og gaf út framhaldsnál. Þótti rétt að birta bréf landlæknis sem fskj. með framhaldsnál., svo að alþm. gætu kynnt sér það, sem þar kemur fram. N. sá ekki ástæðu til að breyta afstöðu sinni, þótt þessi ummæli landlæknis kæmu fram, og leggur því til eins og áður, að till. verði samþ. með þeim breyt., sem fyrir liggja á þskj. 243. Einn nm. hefur skrifað undir með fyrirvara, og annar nm., hv. 2. þm. N-M. (HÁ), sem var fjarverandi, þegar þetta nál. var gefið út, skrifar undir framhaldsnál. með fyrirvara, sem hann mun gera grein fyrir.

Mér þykir rétt, áður en gengið er til atkv. um málið, að minnast nokkuð á skoðun landlæknis í þessu máli. Hann bendir hér á, að hann hafi ekkert í höndunum, er sýni, hvers virði Reykhólaland er. Í sambandi við það vil ég benda á, að án þess að þetta land hafi verið metið, hefur þótt nauðsynlegt, að landið verði lagt undir Reykhólaeignina vegna skipulagningar, sem á að fara fram á landinu, því að annars mundi þetta torvelda mjög skipulagningu á landinu og þær framkvæmdir, sem gerðar verða á Reykhólum og ég hef lýst hér öllum áður og sé ekki ástæðu til að taka upp aftur.

Síðar segir landlæknir, að þetta mundi draga mikinn dilk á eftir sér. Um þetta get ég ekki verið honum sammála. Um þetta stendur svo sérstaklega á, að þetta getur ekki dregið neinn dilk á eftir sér. Landlæknir bendir á, að komið hafi fram krafa um, að ríkið yfirtaki læknisbústaðinn á Kleppjárnsreykjum. Því er fyrst til að svara, að það er ekki alveg skilyrðisbundið, þó að n. leggi til, að það verði samþ., að þetta hangi saman. Ég lít ekki þannig á, að þetta komi til með að draga dilk á eftir sér. Hérna er um prýðilega eign að ræða og ríkisstofnun á jörðinni, og ríkið á þá jörð, og ég sé ekki, að þetta þurfi að skapa neitt fordæmi.

Landlæknir heldur því fram, að þetta mundi enda með því, að ríkissjóður þyrfti einnig að yfirtaka öll sjúkrahús og rekstur þeirra, og er þetta þvílík fjarstæða, að undrum sætir, að embættismaður skuli láta slíkt frá sér fara. — Hann getur þess einnig í umsögn sinni, að komið geti til greina á báðum þessum stöðum að breyta læknaskipuninni. Ég veit ekki, hvað hann meinar með því út af fyrir sig, en sjáanlegt er, að ef það liggur fyrir að breyta henni gegn vilja héraðsbúa, fylgir því, að þeir menn, sem ráðstafa því þannig, verða að taka á sig þann kostnað, sem það hefur í för með sér að byggja annan læknisbústað annars staðar í héraðinu. — Þetta er því misskilningur. Mér er ekki kunnugt um, að fyrir liggi yfirleitt að breyta læknisskipuninni í Reykhólahéraði eða þessum héruðum, og hef ekki heyrt eitt einasta orð í þá átt. Á þessu stigi málsins sé ég því ekki þörf á að hreyfa því máli, nema síður væri.

Landlæknir bendir einnig á, að þessi bústaður sé orðinn nokkuð lélegur. Það getur verið, að nokkur hæfa sé í því, að bústaðurinn sé ekki nýtízku bústaður, en hann er þó áreiðanlega eins góður og margir hverjir aðrir læknisbústaðir í landinu, og ég held, að landlæknir mundi setja sig á móti því, að byggðir væru nýir læknisbústaðir, ef hvergi á landinu fyndust verri bústaðir en þessi.

Það einkennilegasta í umsögn landlæknis er þó það, að eftir að hafa gagnrýnt þetta, telur hann réttast, að báðir aðilar fallist á skiptin, og það er einmitt það, sem eingöngu er lagt til í aðaltill. Það er aðeins um að ræða heimild til handa ríkisstj. til að leita samninga við viðkomandi aðila um þessi skipti, og það er einmitt að þeirri niðurstöðu, sem hann kemst að síðustu, að það sé rétt. Hann vill þó hafa annan hátt á þessu. Það, sem greitt yrði fyrir eignirnar, yrði lagt í sérstakan sjóð, en mér finnst það vera aukaatriði.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, en legg til fyrir hönd n., að till. verði samþ. með þeim breyt., sem koma fram á þskj. 243. Ég hef rætt þetta við hæstv. heilbrmrh., sem er staddur hér í þinginu, og geri ég ráð fyrir, að hann geri grein fyrir afstöðu sinni til málsins.