11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki margt að segja fyrir hönd fjhn. og þá meðfram sökum þess, að hér hefur engin brtt. komið fram, sem n. hafði ekki tekið afstöðu til.

Mér skildist á hæstv. atvmrh. í hans ræðu, að hann teldi 15. gr. óþarfa, og er ég því sammála og vík að því síðar, að ef menn vilja hafa það ákvæði í lögum, sem 15. gr. fjallar um, er hægt að setja það inn í annað frv., sem liggur hér fyrir deildinni.

Eins og ég gat um í framsöguræðu. minni, var n. óslitið á fundi milli þingfunda í dag, og hafði ég því ekki neinn tíma til að búa mig undir mína framsöguræðu. Af því leiddi m.a., að ég gleymdi að geta þess, að n. bárust tilmæli um bjargráð þeim til handa, er stunduðu veiðar við Grænland í sumar.

N. sá ástæðu til að sinna því sem brtt. við annað frv. en hér er til umræðu, og í sambandi við það vil ég taka fram, að ég lít svo á, að brtt. á þskj. 202, frá hv. 1. landsk. og 4. þm. Reykv., ætti, ef menn vilja ganga inn á hana efnislega, að koma inn í það sama frv., en ekki samþykkjast hér. Ég hefði talið eðlilegast að fella niður 15. gr., en taka efni hennar annars staðar upp í löggjöf.

Um brtt. á þskj. 201, frá 4. þm. Reykv., er það að segja, að ég tel þær þýðingarlausar með öllu, og ef fara á að breyta frv. á annað borð, sýnist mér sama, hvort þær verða samþykktar eða felldar. En ef frv. yrði ekki breytt að öðru leyti, teldi ég alls ekki rétt að samþykkja þær, því að þær eru svo þýðingarlausar, en samþykkt þeirra yrði hins vegar til að tefja málið, og yrði það þá að fara aftur til Nd.

Fyrri brtt. á þessu þskj. er um ábyrgðarverð á útfluttu kjöti. En það vita allir, að til hennar kemur ekki. Það verður að sjálfsögðu nú eins og undanfarið, að allt kjöt verður selt innanlands, og þetta er því mjög þýðingarlítið. Ég geri ráð fyrir, að það hafi vakað fyrir hv. flm. í Nd., að þetta ákvæði hafi áður verið í slíkum lögum sem þessum. En á yfirstandandi tíma hefur þetta alls enga praktíska þýðingu, hvað sem verða kann í framtíðinni, og samþykkt slíkrar till. má ekki tefja málið.

Sama er að segja um 2. lið á þskj. 201, en það er brtt. við 13. gr. Ég álít hana þýðingarlausa. Mér skilst, að eina breytingin, sem hún gerir á 13. gr., sé sú að fella niður orðin „að dómi ríkisstjórnarinnar.“ Nú, ef svo færi, að engin löggjöf yrði sett, yrði auðvitað einhver að leggja dóm á það, hvort löggjöf hefði verið sett, og hver ætti að gera það nema ríkisstjórnin? Þessi orð fela ekki í sér neitt traust til ríkisstj., því að þingið getur látið þessi lög falla úr gildi jafnframt því, að ný lög taka gildi, ef það vill.

Ég hef svo ekki umboð n. til að segja fleira, því að um hinar skriflegu brtt. hefur n. ekki fjallað, og óski hv. d. eftir, að n. fjalli um þær, þarf að fresta fundi til morguns, eða um tíma, á meðan n. fjallar um þetta. En ég geri það ekki að tillögu minni og hygg sannast að segja, að það breytti litlu, því að þm. eru búnir að mynda sér skoðun í þessu máli. Ég get ekki sagt neitt um þessar tillögur fyrir n. hönd, en einstök atriði úr ræðum í sambandi við þær skal ég minnast á.

Í fyrsta lagi er það ekki rétt hjá hv. 1. þm. N-M. (PZ), að þm. hafi ekki vitað um frílistann. Hann hefur ekki vitað um hann, en margir þm. hafa vitað þetta frá upphafi, það er mér kunnugt um. Nú er hér fram komin till. um að ákveða í lögum vörur á frílista. En frílistinn hefur aldrei verið tekinn í lög, mér vitanlega, og ég efast mjög um það, að rétt sé að fara að telja upp ákveðna vöruflokka í lögum. Ekki vegna þess, að ég sé á móti frílista, en ég er bara hræddur um, að frílisti verði þá eins og vegalög, og allir vita gang þeirra mála á. Alþ.

Hvað snertir brtt. hv. 2. þm. S-M., um ábyrgðarverð á lýsi, álít ég, að ef nokkur brtt. á hér rétt á sér, þá sé það helzt sú till. Lýsi er í svo lágu verði, að það er eitt af þeim atriðum, sem gerir útgerðinni ómögulegt að starfa, og engin trygging er fyrir því, að lýsi verði tekið á frílista, því að þótt stjórnin lýsti yfir því, að það væri hennar ætlan, þá vita allir, að hún er minnihlutastjórn og ekkert er vitað um lífdaga hennar. Og þá er a.m.k. engin trygging fyrir því, að næsta ríkisstj. setji lýsi á frílista. Því sé ég, að það er trygging í því fyrir útveginn, að ábyrgðarverð sé á þessari vöru. Hitt er satt hjá hv. þm. Barð. (GJ), að það þarf aukið fé eða tekjur á móti, ef þessum gjöldum verður bætt á ríkið, og kem ég að því síðar.

Hv. 4. landsk. talaði um kröfur útvegsmanna, sem hefðu gengið lengra en þetta frv., og þótti honum það ganga of skammt. Vildi hann taka fleiri vörur á frílista og að hjálpað yrði frekar til að leysa af sjóveð. Já, það er um þessar kröfur. Sumir líta svo á, að sé krafa gerð, þá sé sjálfsagt að verða við henni. Ég get hins vegar ekki tekið það gilt, þótt komið hafi fram kröfur um frekari aðgerðir. En um sjóveð er það að segja, að það ætti frekar heima í öðru frv., sem liggur fyrir þessari hv. d.

En svo veik hv. 4. landsk. að öðru atriði, sem ég er honum sammála um, að rökstuðningi til, þótt við komumst ekki að sömu niðurstöðu, og það var um aðstöðu þeirra, sem veiða utan Faxaflóa, bæði fyrir norðan og austan og vestan. Það er auðvitað rétt, að útgerð fyrir Norðurlandi, og ég hygg Austurlandi, byrjar um það leyti, sem síðustu leifar þessarar ábyrgðar falla úr gildi. En hér er um það að ræða, sem hefur verið margtekið fram, að ætlunin er, að þetta verði aðeins bráðabirgðalausn til að koma vetrarvertíðinni af stað. Það er í rauninni það, sem frv. fjallar um. Færi nú svo, að Alþ. léti undir höfuð leggjast eða réði ekki við að gera frambúðarráðstafanir, þá lít ég svo á, að bæta yrði við bráðabirgðaráðstöfunum, að því er sumarútgerðina snertir. En ég viðurkenni ekki, að hugsanlegt sé, að til þess eigi að koma.

Ég hefði viljað, að þetta frv. væri þannig úr garði gert, að ábyrgð væri aðeins veitt til 1. marz og lengur ekki. Að ég geng þó inn á framlengingu, er einungis vegna þess, að útgerðarmenn lýstu yfir því, að þeir hæfu, ekki vetrarvertið nú nema með fyrirheiti um ábyrgð til 15. maí. Hér var því um það að ræða, hvort vetrarvertíð ætti að hefjast eða ekki, en útgerð á ekki að hefjast fyrir norðan og austan á þessum tíma árs, svo að þar gegnir öðru máli. Ég tel það skyldu að hafa gert frambúðarráðstafanir til viðréttingar útgerðinni fyrir 1. marz, og a.m.k. fyrir 15. maí að sjálfsögðu.

Nú ætla ég að lokum að minnast á ræðu hv. þm. Barð. Við erum sammála um margt í þessu máli. Hann er á móti ábyrgðinni yfirleitt, og í raun og veru get ég sagt það sama. Þegar ábyrgðin var fyrst veitt hér á Alþ., var ég ekki viðstaddur, og ég hygg, að ég hefði aldrei verið með henni, þótt ég hefði verið viðstaddur. Ég álít, að sú stefna hafi gert mikið tjón, einkum vegna þess, að með fiskábyrgðinni hefur slaknað á eigin ábyrgð þeirra, sem hlut eiga að máli. Síðan ábyrgðin kom til sögunnar, hefur kaup hækkað og allur tilkostnaður hækkað við útgerðina. Ég er ekki frá því, að útgerðarmenn hafi staðið vægar í móti hækkuðum tilkostnaði vegna þess, að ábyrgðin var í gildi. Vegna hennar gátu þeir komið til ríkisstj. og sagt, að þeir þyrftu að fá hækkað ábyrgðarverð fyrir hækkuðum tilkostnaði. Ábyrgðin hefur svo verið hækkuð með því að leggja á nýja tolla fyrir þeirri hækkun. Nýir tollar hafa svo aftur leitt til nýrra kauphækkana, og þannig hefur skrúfan gengið áfram. Þetta ber í sér dauðann fyrir útveginn, eins og hv. þm. sagði, og er ég því sammála. Og eins og ég hef þegar tekið fram, þá sé ég ekki annað ráð vænna nú en að sú skipan verði á þessu, máli höfð, sem fyrr hefur verið samþ. í þinginu, að samþ. þetta frv. til bráðabirgða. En þegar ég gef þessu frv. samþykki mitt, geri ég það með þeim hug, að hér sé aðeins um bráðabirgðalausn að ræða.

Ég hef ekki trú á því, sem hv. þm. sagði um 6. gr. frv., að það ákvæði torveldi lausn þessa máls, því að þetta er atriði, sem vart kemur til greina. Undanfarið hefur allt kjötið selzt innanlands, og skil ég því ekki, að ákvæði 6. gr. geti torveldað lausn málsins.

Þá var hv. þm. að tala um, að Samband íslenzkra samvinnufélaga væri svartamarkaðsbæli eða svartamarkaðsmiðstöð. Ekki veit ég, hvernig sá orðrómur er til kominn, en ég get fullyrt, að það fer engin svartamarkaðsverzlun fram í Sambandinu, hvað þá að Sambandið sé miðstöð svartamarkaðsverzlunar.

Þá kem ég að þungamiðju þessa máls, að það sé með öllu óforsvaranlegt að ákveða ekki tekjur á móti gjöldunum, sem frv. ber með sér. Ég er þessu sammála að sumu leyti, en það táknar ekki, að áætlaðir tekjustofnar þurfi að vera í sömu l. og þau útgjöld, sem gert er ráð fyrir, að frv. hafi í för með sér. Ég álít það skyldu allra þeirra þm., sem samþ. ábyrgðarheimildina, að finna og samþ. tekjustofn, sem þarf til að standa undir þessum l., en með því er ekki sagt, að slíkt þurfi að gerast í sömu lögum, enda hefur Alþingi sett fjölda l. um útgjöld, en teknanna til þeirra aflað með sérstökum skattalögum. Og ég fullyrði, að á undanförnum árum hafi Alþingi samþykkt nægar fjárveitingar til að standa undir fiskábyrgðinni, en féð hefur verið notað í annað. Það er því ekki meiri ástæða til að setja tekjuöflunarákvæði í þetta frv. en ýmis önnur frv., að því er mér finnst. Þó skal ég taka það fram, að ég hef engan sérstakan áhuga fyrir því að fella niður tekjuáætlanirnar, sem frv. gerði upphaflega ráð fyrir. En eins og ég gat um áðan, hefur það verið svo, að l. hafa verið sett um milljónaútgjöld fyrir ríkissjóð, án þess að gerð hafi verið sérstök grein fyrir tekjum á móti. Og þetta þing, sem nú situr, hefur samþykkt stórkostleg útgjöld úr ríkissjóði án þess að flm. orðuðu, hvaðan tekjur kæmu til að mæta útgjöldunum. Munu þó vera nokkur takmörk fyrir því, að slíkt geti staðizt til lengdar án aukinna tekna ríkissjóðs. Það verður að taka afkomu ríkissjóðs og fjárhagsaðstæður þjóðarinnar til nákvæmrar athugunar á næstunni. Þess vegna sé ég ekki betur, en tekjuöflunarliðir til að standast útgjöld á þessu frv. geti komið inn í heildarlögin, fjárlögin, eins og önnur útgjöld ríkisins. N. sá að vísu ekki ástæðu til þess, að svo komnu máli, að hefja neitt stríð á milli deilda um að koma slíku ákvæði aftur inn í frv.