18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3654)

86. mál, réttarstaða og atvinnuskilyrði kvenna

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir) :

Mér þykir ákaflega leitt að ekki skuli vera í þessari till. minni nein trygging fyrir því, að karlmenn fái sama rétt og konur, þar sem þeir hafa hann minni. En ég skal gjarna fylgja öllum brtt. í þá átt. En þetta, sem hann ræddi um tryggingalöggjöfina, byggist á allt öðru sjónarmiði, en réttindum karla og kvenna. Byggist það á því meðal annars, að konan er talin hafa vegna lægri launa minni möguleika til að sjá fyrir börnum sínum en karlmaðurinn. Og viðvíkjandi því atriði, sem hv. þm. Barð. hefur stundum minnzt á hér, þótt hann að vísu nefndi það ekki núna, að konur borgi lægri iðgjöld til trygginganna en karlar, en fái sama frá tryggingunum, þá liggur hér til grundvallar hið sama sjónarmið, að þetta er vegna þess, að þjóðfélagið gengur út frá því, að þær fái lægri laun. Að þær fá jafnmikið, byggist á því sama og að maður, sem verður öryrki t. d. um 30 ára aldur, fær frá tryggingunum, þó að hann hafi ekki borgað nema í fá ár til þeirra, sömu upphæð og maður, sem er orðinn t. d. 55 ára gamall. Þetta byggist á sömu reglum og tryggingalöggjöfin öll er byggð á. — Það kann vel að vera, að ég hafi ekki komizt nógu skýrt að orði um það, á hvern hátt fullnægt er þeirri grein launal., að konur skuli að öðru jöfnu hafa sömu réttindi til starfa og karlar. En á móti hinu verður ekki mælt, að í lægstu launaflokkunum á skrifstofum ríkisins mun ekki finnast einn einasti karlmaður, heldur eingöngu konur. Lægst launaða starfið á skrifstofum ríkisins er ritarastarf, sem eingöngu eru ráðnar konur í. Starf þetta gerir miklar kröfur til vinnutækni og er erfiðara heldur en störf, þar sem aðallega eru notaðar reikningsvélar, eins og nú er farið að nota mikið. Það er rétt hjá hv. þm., að sé kona sett í starf, sem karlmaður hefur gegnt áður, þá er kaupið ekki lækkað, en lengra nær það ekki heldur. Þegar embætti ríkisféhirðis losnaði, þótti ekki annað fært en láta konu, sem lengi hafði unnið þarna með ágætum, hafa starfið, en það var þó gert með hangandi hendi, og mér hefur skilizt, að sá, sem var féhirðir áður, hafi farið vegna þess, að honum þótti launin svo lág. — Skal ég svo ekki tefja umr. lengur.