29.03.1950
Sameinað þing: 37. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (3658)

86. mál, réttarstaða og atvinnuskilyrði kvenna

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og segir á þskj. 475, hefur allshn. haft þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, til athugunar. Nefndarmenn eru allir sammála um, að sú athugun, sem till. gerir ráð fyrir, verði látin fram fara. Í till. er lagt til, að Alþingi kjósi þrjá menn til að gera ýtarlega athugun á málinu milli þinga, en allshn. telur óþarft að kjósa slíka nefnd og leggur því til, að sú breyting verði gerð á till., að ríkisstj. verði falið að annast þessa athugun. Aðrar efnisbreytingar leggur n. ekki til að gerðar verði, og samkvæmt því leggur n. til, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem prentuð er með nál. á þskj. 475, en þar er lagt til, eins og ég hef áður minnzt á, að í stað milliþinganefndar verði ríkisstj. falið að láta athuga þetta mál. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.