11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr., en það voru tvö atriði, sem ég vildi minnast á. Í fyrsta lagi vil ég minna á, að í l. nr. 97/1946, sem eru fyrstu fiskábyrgðarlögin, að kalla má, þá var sett í 9. gr. l. eftirfarandi ákvæði: „Ríkisstjórnin skipar fjögurra manna nefnd, eftir tilnefningu þingflokkanna, til þess að gera tillögur um, á hvern hátt verði komið í veg fyrir, að dýrtíðin í landinu vaxi, og skal nefndin skila áliti sínu. fyrir 1. febrúar 1947.“ Við þetta er það að athuga, að ráðh. hefur algerlega vanrækt að skipa þessa n. Hún hefur aldrei verið skipuð. Þess vegna er ég hræddur um, að enn muni ganga illa að fá varanlega lausn þessara mála. Þessi l. eru frá 28. des. 1946 og náðu samþykki á milli jóla og nýárs það ár. Nú fer sami maður með embætti forsrh. og þegar l. voru sett, og býst ég því varla við varanlegri lausn nú, frekar en sýndi sig í fyrri stjórnartíð hans. — Í öðru lagi vil ég benda á í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Eyf. (BSt), að t.d. vegalögum má ekki breyta nema á Alþingi. Hins vegar hefur það tíðkazt, að vegir hafa verið lagðir, þó að þeir væru ekki á vegalögum, og þó að Alþingi hafi ekki séð möguleika fyrir auknum fjárveitingum til vega, þá hefur raunin orðið sú, að ríkissjóður hefur lagt vegi, þótt þeir væru ekki á fjárlögum. Þetta vil ég minna á í sambandi við frílistann, og veitir því ekki af, að reynt verði að hafa einhvern hemil á þeim undanþágum. Ég treysti þessari ríkisstj. ekki of vel, og hún hefur nú verið í 11/2 mánuð að semja þetta frv., sem er þó ekki betur úr garði gert en raun ber vitni.