11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í umr. um þetta mál nú, en vil vísa til þess, sem ég hef áður sagt á undanförnum þingum um þetta mál, fiskábyrgðina. Þar þarf ég engu við að bæta og ekkert frá að draga, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þau ummæli. Ég vil þó í sambandi við þetta mál minna á, að er ríkisábyrgðin var samþ. 1946, þá var svo fyrir mælt í l., að skipuð skyldi n., sem gera skyldi till. í dýrtíðarvandamálunum og bera fram till. til úrbóta. Svo var og ráð fyrir gert, að ríkisábyrgðin mundi ekki standa nema stuttan tíma, einn mánuð eða svo. Með það loforð í huga greiddu ýmsir þm. atkv. með ábyrgðinni. Og til þess að fyrirbyggja drátt á raunhæfum aðgerðum, var 9. gr. sett í l., sem hv. 1. þm. N-M. minntist á áðan. Afstaða mín til frv. er sú, að ég hef ekki treyst mér að greiða atkv. með ábyrgðinni, og geri ég ráð fyrir, að margir af þeim þm., sem greiða þessu frv. jáyrði sitt, geri það með þeim hætti, að þeir líti svo á, að þeir geri þjóðinni minna tjón með því að samþ. frv. en gera það ekki, því að þá mundi útgerðin stöðvast um ófyrirsjáanlegan tíma. Hér er því um að ræða val á milli tjóna. Ég er þó í vafa um það, þó að ég rökræði það ekki frekar, hvort meira tjón yrði af, þótt frv. þetta yrði fellt og útgerðin stöðvaðist um stund og Alþingi yrði neytt til þess að leysa þetta mál á annan veg og til frambúðar. Það er ekki hvað sízt ástæða til þess að tala um þetta nú. Að vísu er nú svo komið, að nú fylgir því hvað minnst ábyrgð að greiða þessu máli atkvæði, því að ekki verður unnt fyrir ríkissjóð að halda ábyrgðinni lengur áfram, en 2 mánuði. En ég skal nema staðar og ekki blanda mér miklu meir inn í þessar umr. En eins og ég tók fram 1948 í þinginu og utan þings, þá er það nú að koma í ljós, sem við framsóknarmenn sögðum, að þetta gengi ekki lengur, en til ársins 1950. Nú er svo komið, að vart verður lengra gengið í álögum á landsfólkið, og ef áfram á að halda sem á undanförnum árum, þá er ekki annað af fólkinu að taka, en skattleggja lífsnauðsynjar enn meir en verið hefur. Slíkt mundi svo aftur leiða af sér, að dýrtíð mundi enn vaxa að miklum mun og skerða tekjur almennings að verulegu leyti. Ég vil líka benda á annað í þessu sambandi, sem skiptir verulegu málí, og það er, ef heimilt er án sérstakra laga að selja vöru og láta svo framleiðendur fá gjaldeyrinn og selja hann svo með vissu álagi. Og ef við nú samþykkjum þetta, þá hlýtur hæstv. ríkisstj. með sömu röksemdafærslu að hafa heimild til að bæta fleiri vöruflokkum á þennan lista. Við þurfum því, ef við ætlum að fyrirbyggja þennan möguleika, að taka ákveðið fram, hvaða vörur eiga að vera á þessum frílista. Að þessu athuguðu get ég þess vegna ekki greitt till. atkvæði, nema að fengnum fyllri skýringum á henni.

Ég skal svo ekki fara að lengja umr. frekar og get látið máli mínu lokið, því að ef ætti að fara að ræða þetta miklu nánar, mundi það verða svo langt mál.