22.03.1950
Sameinað þing: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (3675)

130. mál, kristfjárjarðir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Í sambandi við það, sem hv. þm. Borgf. sagði nú síðast, að hann heldur, að afréttirnir muni vera eign einstaklinga eða félaga og hreppa, þá held ég, að þetta sé ekki rétt. Ég held, að ákveðnir hreppar og einstaklingar hafi rétt til þessara landa til að reka þangað upp sitt fé, það sé notkunarréttur, en ekki eignarréttur, og ég held, að dómar t. d. út af íþróttahúsum í óbyggðum séu byggðir á því, að það sé notkunarréttur en ekki eignarréttur á þessu landssvæði og afréttir séu því ekki eign þessara jarða eða hreppa, sem nota þetta land, heldur sé það aðeins notkunarréttur.

Ég tel, að hér sé mjög þýðingarmikið rannsóknaratriði, sem sé þess fyllilega vert að ganga úr skugga um það. Hins vegar hef ég ekki haldið fram, að ríkið eigi þessi lönd. Ég tel, að ríkið eigi ekki þessi óbyggðu landssvæði, heldur að þetta sé einskis manns land, ekki ríkisins heldur, að ríkið sem júridískur aðili eigi þetta ekki. Mér skilst, að þetta sé raunverulega eign þess manns, sem mundi setjast þar að og búa þar í einn mannsaldur, og fengi hann þá samkvæmt hefð eignarrétt á því. Þess vegna er það, að ég held, að það þurfi að taka eignarrétt og umráðarétt yfir þessu landi til sérstakrar rannsóknar, og þá álit ég, að það sé heppilegast á þann hátt, að þjóðin ætti það, án þess að ríkið gæti selt það. Það kann svo að fara, að það skapist deilur um þetta atriði, sérstaklega ef ýmiss konar tæknilegar framfarir ættu sér stað, þannig að þessi óbyggðu landssvæði fengju stóraukið gildi, t. d. ef tækist að rækta ýmsar jurtir við óhagstæðari skilyrði, en nú má takast. Það gæti orðið til að rækta mætti stór landssvæði, sem nú eru óbyggð. Ég álít því, að það sé nauðsynlegt að rannsaka eignar- og umráðarétt yfir þessum óbyggðum.

En um kristfjárjarðirnar vildi ég segja það, að ég álít óviðkunnanlegt, að hægt sé að ráðstafa þeim jörðum, sem gefnar hafa verið með þeim skilyrðum, sem svona jarðir hafa verið gefnar. Þeir peningar, sem eru á einu ári borgaðir fyrir eina jörð, verða með tímanum einskis virði, því að það eru örlög allra peninga gegnum aldirnar að falla alltaf í verði, en jörðin sjálf heldur áfram að hækka í verði, og því meiri framfarir sem eru á einu landi, því meira hækkar hún í verði. Þeir, sem gefa peninga, eru að gefa eign, sem alltaf minnkar að gildi. En þeir, sem gefa jörð, gefa eign, sem alltaf vex að gildi.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta meira, en vona, að sú hv. n., sem kemur til með að fjalla um málið, taki þetta til rækilegrar athugunar.