22.03.1950
Sameinað þing: 36. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

130. mál, kristfjárjarðir o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þessar umr. gefa mér ekki ástæðu til að tala langt mál. Hv. þm. Borgf. virðist að verulegu leyti vera á sömu skoðun og við flm. Við vissum vel, að undir sumum kringumstæðum hefur ríkið ekki rétt til þess að fyrirskipa um sölu á þessum jörðum. Eignin getur verið óháð ríkinu, en undir öðrum kringumstæðum er það mjög óákveðið, hverjir eru aðilar að því að selja og hverjir ekki. Sem dæmi mætti nefna, að einum, tveimur eða þremur hreppum er fengið eftirgjald af kristfjárjörð, en presturinn einn fengi í hendur allan umráðarétt yfir jörðinni, t. d. að ráðstafa byggingum og þess háttar, og svo er það oft, að gjafabréfið sjálft liggur ekki fyrir, svo að ekki er hægt að sjá, hvað ætlazt er til, heldur verður að sjá, hvað er venja og hefð á þessum hlutum. Þá er mjög vafasamt, að presturinn eða umboðsmaður hans hafi rétt til þess að selja án þess að spyrja hreppinn, og það var einmitt þetta atriði, sem vaktist upp í Ed., og forseti þeirrar d. var í vafa um það. Hann vissi, eins og lög stóðu til, að ef hreppurinn á þetta óskorað, þarf hann ekki að spyrja Alþingi að því, heldur er honum þá nóg að fá samþykki sýslunefndar til þess að mega selja jörð, sem hann á. En það lék vafi á því í sambandi við þá jörð, sem um var að ræða í því tilfelli, og því ákvað hann að fresta atkvgr. til þess að ganga úr skugga um, hvernig það væri með þá jörð. Þetta er sá hlutur, sem þyrfti að upplýsa. Þó að ég sé í raun og veru mjög á móti sölu slíkra jarða, sem gefnar eru í guðsþakkaskyni, þá getur því verið þannig farið að ýmsu leyti, að rétt sé í einstökum tilfellum að gera aðrar ráðstafanir á þeim en áður hefur verið, og getur verið, að þá verði hið opinbera að grípa til sinna ráða, að svo miklu leyti sem það hefur heimild til þess að gera slíkar ráðstafanir.

Ég vil svo mælast til þess, að hv. allshn. athugi þessi atriði og sjái svo um; að þetta komist í hendur sanngjarnra manna, svo að sæmilega megi fara, en fari ekki út í neina ráðleysu eða vitleysu. Ítreka ég svo aftur ósk mína um það, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til allshn. Sþ., því að þar á það heima.