11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi, út af því sem hefur komið hér fram í sambandi við brtt. frá hv. 2. þm. S-M., leyfa mér að benda á, auk þess sem hæstv. ráðh. réttilega hefur bent á, að ég tel alveg ógerlegt að samþ. þá brtt. eins og hún liggur fyrir og ekki nema bætt sé aftan við till. ákvæðum um, hversu mikið lýsisinnihald skuli vera í hverjum lítra lifrar til þess að verð á honum verði bætt upp, og þá miðað við tiltekið verð, eftir lýsisinnihaldinu. Og einmitt þess vegna vil ég beina því til hv. form. n., 1. þm. Eyf., hvort honum þætti ekki ráðlegast, að brtt. þessi yrði tekin aftur við þessa umr., svo að n. gæti átt kost á að athuga hana með tilliti til þess, sem ég hef sagt nú. Sum lifur inniheldur allt að því 60% lýsi, sem er vetrarlifur, og yrði hún því í 1. gæðaflokki, og lýsið er í því tilfelli 100% verðmætt. Aftur á móti er lýsi úr t.d. steinbít gersamlega ónýtt. En eftir því, sem brtt. liggur hér fyrir nú, ætti að greiða jafnt verð fyrir lifrina til framleiðenda, hvernig sem lifrin er. Eins fer það, hversu mikið lýsismagn fæst úr lifrinni, eftir því, með hvaða tækjum lýsið er unnið úr henni. Það er í þessu efni mikill munur á nýtízku tækjum og aftur hinum eldri og ófullkomnari. Lakasta lifur getur farið niður í 30% lýsismagn, kannske 10%, og sum lifur getur verið svo rýr að lýsisinnihaldi, að lýsið borgi ekki vinnslukostnaðinn. Ég tel af þessum ástæðum alveg nauðsynlegt að bæta aftan við brtt. ákvæði um lýsismagn lifrarinnar. Ég tek þetta fram nú vegna þess, að ég hef heyrt frá hv. form. n., að hann hafi sjálfur tilhneigingu til þess að styðja þessa brtt. eða vatill. við brtt. hv. 2. þm. S-M. Eins heyrðist mér á hv. þm. Str. (HermJ), að hann mundi greiða henni atkv., og hefur verið lýst meira fylgi hér í þessari hv. d. við þessa brtt. en við nokkra aðra brtt., sem hér hefur fram komið í málinu. Ég held, að ef brtt. hv. 2. þm. S-M. væri samþ., án þess að bæta þessu ákvæði við, þá yrði það til þess að þvinga ríkisstj. til þess að fara með þessa vöru inn á sérstakan frílista, til þess að forða ríkissjóði frá því gífurlega tapi, sem yrði á þessari vörutegund fyrir hann, þannig að það yrði bókstaflega að selja gjaldeyrinn fyrir þessa vöru á því verði, sem yrði til þess að borga kostnaðinn.

Ég vil svo í sambandi við ummæli hv. 1. þm. N-M., þar sem hann gerði að umtalsefni 9. gr. l. frá 1946, benda honum á, að Sjálfstfl. og sú stjórn, sem þá var við völd, tilnefndi mann í þessa nefnd. Og ég hygg, að það hafi staðið á öðrum flokkum um að tilnefna mennina eða að það hafi verið gert svo seint, að sú ríkisstj. hafi ekki getað skipað mennina, af því að hún fór frá litlu síðar. Og það mun eingöngu hafa stafað af stjórnarskiptunum, að þetta var ekki framkvæmt eftir lögunum, svo að hæstv. forsrh. hefur ekki rétt þar sök á. — Þetta vildi ég taka fram til leiðréttingar.